Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þetta er alveg orðið ótækt“

28.06.2017 - 21:18
Sveitarstjórn Svalbarðshrepps hefur gefist upp á vondum vegum í sveitarfélaginu og ætlar sjálf að verja peningum í vegabætur. Oddvitinn segir engan vilja hjá stjórnvöldum til að laga vegina, sem hafi ekki svo mikið sem verið heflaðir síðustu ár.

Flestir vegir í Svalbarðshreppi við Þistilfjörð eru malarvegir, ýmist tengivegir eða héraðsvegir. Þeir eru orðnir mjög illa farnir á löngum köflum enda lítið sem ekkert verið haldið við síðustu ár. Efsta burðarlagið er horfið og víða standa grjóthnullungar upp úr veginum.

Þriðja sumarið sem ekkert er gert

„Þetta er alveg orðið ótækt,“ segir Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Svalbarpshrepps. „Þetta er þriðja sumarið sem stefnir í að ekkert verði gert.“ Og hann segir ítrekað hafa verið haft samband við Vegagerðina, ráðherra og þingmenn, en ekkert gerist. „Við fáum i rauninni þau svör að þeir hafa enga fjármuni til að sinna þessu.“

Sendu tveggja ára gamla ályktun

Um daginn sendi sveitarstjórn þeim tveggja ára gamla ályktun um vegamál í hreppnum. „Og við bara sendum það aftur núna því það hefur ekkert gerst síðan við skoruðum á þá hérna fyrir tveimur árum,“ segir Sigurður.

Ætla sjálfir að setja peninga í vegabætur

Og hann segir að Svalbarðshreppur ætli ekki að bíða lengur eftir því að eitthvað gerist. „Þannig að við ákváðum allavega að taka frá tíu milljónir í að fara að láta vinna fyrir okkur ofaníburðarefni, sem við vonumst svo til að geta samið við Vegagerðina um að nýta til að koma vegum hér í lag.“

Segir bílana skemmast með tilheyrandi kostnaði

Og vegirnir verði að komast í lag. Íbúarnir aki þá á hverjum degi og bílarnir skemmist með tilheyrandi kostnaði. „Það er ekki nóg með að við borgum olíugjaldið, skattana og allt það, heldur þurfa menn að borga aukinn viðhaldskostnað og skemmda bíla og það, af því að mennirnir sem eiga að stýra þessu fyrir okkur, þeir eru bara ekki að standa sig,“ segir Sigurður.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV