Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þétt handaband Trump og Macron vekur athygli

09.06.2018 - 16:00
President Donald Trump shakes hands with French President Emmanuel Macron during the G-7 summit, Friday, June 8, 2018, in Charlevoix, Canada. (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP
Myndir af handabandi Donald Trump Bandaríkjaforseta og Emmanuel Macron forseta Frakklands á fundi G7-ríkjanna í Quebéc í Kanada hafa verið til umræðu á samfélagsmiðlum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem handaband forsetanna vekur athygli en í júlí síðastliðnum tókust þeir félagar í hendur í heilar 29 sekúndur þegar Trump var gestur Macron á þjóðhátíðardegi Frakka.

Af myndum að dæma virðist hönd hins 71 árs gamla Trump föl eftir átökin við hinn 40 ára gamla Macron.

Frakklandsforseti var fyrsti þjóðarleiðtoginn sem Trump bauð í opinbera heimsókn í Hvíta húsið og fór hún fram í apríl síðastliðnum. Þá Trump þurrkaði flösu af jakka Macron.

Í aðdraganda fundar G7-ríkjanna skiptust forsetarnir á skotum á samfélagsmiðlinum Twitter og hefur sambandið milli þeirra versnað í kjölfar þess að Trump ákvað að setja á verndartolla á stál og ál sem flutt er til Bandaríkjanna frá ríkjum Evrópusambandsins.

Þrátt fyrir mikinn aldursmun og ólíkar skoðanir segir Trump hann og Macron vera hina mestu máta.

„Við eigum í virkilega góðu sambandi, mjög sérstöku,“ sagði Trump við blaðamenn í kjölfar handabandsins í gær.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV