Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þessi saga bjargaði bókstaflega lífi mínu

Mynd:  / 

Þessi saga bjargaði bókstaflega lífi mínu

04.12.2018 - 14:38

Höfundar

Fimm rithöfundar lesa upp úr bókum sínum í kvöld á viðburði sem Geðhjálp stendur fyrir og kallast Geggjaðar bækur. Tveir þessara höfunda, þau Ágúst Kristján Steinarsson og Thelma Ásdísardóttir heimsóttu Mannlega þáttinn í dag.

Thelma Ásdísardóttir fann leið til að glíma við erfiða reynslu sína með því að skrifa söguna um Mikami, þar sem hún er ekki stelpa heldur japanskur strákur og í bók sinni Riddarar hringavitleysunnar leitar Ágúst í reynslu sína í átökum við veikindi, jafnt líkamleg sem af andlegum toga. „Ég hef veikst fimm sinnum af maníu, það er stormur í því, og svo var ég með meltingarsjúkdóm, sárar ristilbólgur, í fimm ár og það leiddi til krabbameins. Þetta var bara of mikið fyrir einn mann,“ segir Ágúst Kristján þegar hann útskýrir af hverju hann velji að segja sögu sína í gegnum fjórar persónur á ólíkum æviskeiðum. Þessar fjórar persónur eru samt allar mismunandi hliðar á honum sjálfum. Í dag er hann stjórnunarráðgjafi og jöklaleiðsögumaður og hefur samið lög og ljóð, en hann ætlar einmitt að taka með sér gítarinn og spila tvö lög í kvöld.

Samdi söguna til að lifa af

„Þetta er saga sem ég samdi þegar ég var 12 til 15 ára gömul, sem bjargráð, því ég var stöðugt að reyna að flýja raunveruleika minn,“ segir Thelma Ásdísardóttir sem mun lesa upp úr handriti sem hún hefur unnið upp úr þessari sögu. Hún samdi söguna á þessum árum í huganum og sagði sér hana aftur og aftur. Hún segir að sagan hafi hjálpað henni í gegnum þessa gríðarlega erfiðu reynslu og að hún hafi bókstaflega bjargað lífi hennar. 

Margir þekkja Thelmu frá því að hún sagði sögu sína af andlegu og líkamlegu ofbeldi þegar hún var lítil stelpa að alast upp í Hafnarfirði í bók Gerðar Kristnýjar, Myndinni af pabba.

Að semja þessa sögu um japanska drenginn Mikami hjálpaði henni að lifa af og hverfa inn í annan heim þegar ofbeldið var sem mest. Sagan varð þannig eins konar meðferð fyrir hana á þessum tíma. En það var ekki fyrr en hún varð þrítug að hún skrifaði söguna niður, þangað til var hún bara í kolli hennar. Nýlega endurskrifaði hún svo handritið sem er heilar 600 blaðsíður. Thelma er ekki enn búin að ákveða hvort hún gefur bókina út.

Auk Ágústs og Thelmu lesa Kristinn Rúnar Kristinsson, Sigursteinn Másson og Dagný Maggý upp úr bókum sínum, sem eru hver annarri ólíkari.

Kristinn Rúnar segir frá reynslu sinni í línulegri frásögn, m.a. því þegar hann stillti sér nakinn upp við styttuna af Jóni Sigurðssyni. Sigursteinn fléttar sögu sína af glímunni við veikindin inn í eins konar ævisöguform þar sem lesandinn kynnist honumn á ýmsum vígstöðvum, m.a. við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Margir þekkja hann úr fjölmiðlum og eru eflaust spenntir að vita hvað gerðist á bak við tjöldin í því máli og glímu hans við mjög erfið veikindi sem reyndu mikið á hann og hans nánustu. Dagný Maggý les svo upp úr bók sinni um veikindi móður sinnar. Eftir að mamma hennar fór í, að því er talið var, litla lýtaaðgerð fór hún að veikjast af kvíða og þunglyndi með þeim afleiðingum að hún fyrirfór sér.

Viðtalið við Thelmu og Ágúst má heyra í heild í spilaranum hér fyrir ofan.