Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þessi göng eru lifandi“

„Þessi göng eru lifandi“

15.04.2019 - 09:28

Höfundar

Gömul aflögð jarðgöng hátt uppi í Oddsskarði hafa undanfarnar vikur fyllst af klettamálverkum. Þar gefur að líta minningar fólks úr göngunum sem margir hræddust að aka í gegnum.

Oddsskarðsgöng eru í um 600 metra hæð á milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar en þeim var lokað þegar ný Norðfjarðargöng voru tekin í notkun. Göngin voru í næstum 40 ár fastur liður í lífi margra Austfirðinga. Það var þannig að Alexandra Ýr sem er 16 ára nemi í Neskaupstað sendi bréf til þáverandi bæjarstjóra og bað um að fá að kveðja gömlu Oddsskarðsgöngin og gefa samfélaginu tækifæri til þess. Í kjölfarið báðum við samfélagið um að senda okkur minningar sínar úr göngunum því að það er nú einu sinni þannig að þegar þú ferð að tala um þessi göng þá eiga allir sem um þau hafa farið einhverjar minningar héðan,“ segir Karna Sigurðardóttir, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Franska listakonan Suzanne Arhex hefur breytt minningunum í málverk sem ráðast af sprengdum klettaveggjum. Margar ferðir um göngin voru örlagaríkar, fólk fór um þau til að komast á fæðingardeild í Neskaupstað, og mörgum fannst ógnvekjandi að fara um dimm og einbreið göngin. „Einn maður sagði mér sögu um konu sem ók dauðskelkuð um göngin og hún gat ekki ekið til baka því hún hafði aldrei verið eins hrædd á ævinni. Ég hef verið að teikna hana,“ segir Suzanne.

Oddsskarðsgöng eru 626 metra löng og stundum þurfti fólk að fara í gegnum þau öðruvísi en akandi. „Það var til dæmis einn maður sem upplifði það að ganga í gegnum þessi göng þegar þau voru rafmagnslaus og hann þurfti að ganga í kolniðamyrkri. Svo þurfti að smala kindum hér í gegn og fólk minnist þess að hávaðinn hafi verið alveg svakalegur hérna þegar jarmið bergmálaði í göngunum,“ segir Karna.

Síðsumars verður formleg kveðjustund við göngin þar sem unnið verður úr minningum og sérsamið tónverk flutt áður en göngunum verður lokað og læst. Sérstakt leyfi þurfti frá Vegagerðinni til að vinna í göngunum enda hrynur þar grjót og grýlukerti. „Það er alveg ljóst að þessi göng eru lifandi, við bæði heyrum og finnum að þau anda,“ segir Karna.

„Í fyrstu var þetta ógnvekjandi en nú finnst mér eins og ég eigi heima hér. Fólk skíðar hér fram hjá og einn stoppaði og spurði mig hvort ég væri tröll og byggi hér,“ segir Suzanne.

Tengdar fréttir

Austurland

Geystist dópaður um Oddsskarðsgöng

Austurland

Þurftu að skera neðan af gangahurð

Fjarðabyggð

Oddsskarðsgöng stífluð af snjó

Samgöngumál

Grjóthrun úr veggjum Oddsskarðsganga