Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þeir sem sleppa lífs

Mynd: Catherine Meurisse  / Wikimedia

Þeir sem sleppa lífs

27.03.2017 - 13:09

Höfundar

Sigurbjörg Þrastardóttir fór út í heim og þegar hún kom heim aftur sátu tvær ólíkar bækur eftir í huga hennar. Í pistli í Víðsjá sagði Sigurbjörg frá bókunum en um þær má lesa hér eða hlusta á pistilinn í spilaranum.

Góðir hlustendur, mig langar að segja ykkur stuttlega frá tveimur erlendum bókum, sem deila á vissan hátt viðfangsefni. Að auki vill svo til að höfundarnir eru jafnaldrar, 37 ára. Við byrjum í Frakklandi.

Of sein

Franski teiknarinn Catherine Meurisse mætti of seint til vinnu sinnar þann 7. janúar 2015 – og vegna þess að hún mætti of seint – svaf yfir sig eða kom sér ekki fram úr vegna þess að ástarmálin voru í molum (þetta er samkvæmt heimildum frá fyrstu hendi) – er hún nú á lífi. Þetta hljómar einkennilega en þetta er í hnotskurn sagan af örlögum Catherine Meurisse. Hún var á leið á ritstjórnarfund á vinnustað sínum, satírublaðinu Charlie Hebdo í París, á þessum annars venjulega miðvikudegi, hún var sein og fjargviðraðist yfir því í huganum, en þegar hún kom loks inn í bygginguna heyrðust skothvellir af skrifstofuhæðinni og það tók fólk í anddyrinu talsverðan tíma að átta sig á hvers kyns hvellirnir voru og hafa vit á því að leita skjóls. Tólf manns voru myrtir í skotárás Kouachi-bræðra á höfuðstöðvar blaðsins, og ellefu særðust, Meurisse var ekki í þeirra hópi en árásin rústaði engu að síður lífi hennar eins og hún þekkti það. Hún stríddi við minnisleysi og sorg, áfallastreitu og ofsaþreytu, missti alla löngun til þess að teikna, hún hafði starfað á ritstjórn Charlie Hebdo í tíu ár og vinamissirinn var meiri blóðtaka en hún réði við.

Viðbragð Catherine Meurisse við áfallinu fann sér loks farveg í þeirri sömu listgrein og hafði vakið athygli öfgamanna á Charlie Hebdo, teiknimyndinni. Það var það eina sem hún kunni en það kom samt ekki strax. Fimm mánuðum eftir árásina teiknaði hún loks sína fyrstu mynd, af sjálfri sér á gangi. „Ég vissi ekkert hvert ferðinni var heitið en aðalatriðið var að ég var á leiðinni, ég var á hreyfingu,“ hefur Meurisse sagt. Myndin varð síðar kápumynd bókar hennar, Léttleikinn. Þar lýsir hún með aðferðum myndasögunnar, eða grafísku skáldsögunnar, langri og á köflum stefnulausri vegferð sinni í leit að tilgangi. Smám saman snerist ferðin upp í leit að fegurð og hún endaði í Róm, þar sem fornar höggmyndir og myndlist urðu óvæntur innblástur.

Hvers vegna? 

Í bókarlok hefur förustúlkan fundið einhvers konar sátt eða kraft, þótt ótal spurningum sé ósvarað um illskuna, lífið og örlög samstarfsmanna hennar. Þá er ótalin sektarkenndin sem sverfur að: Hvers vegna urðu þau fyrir öskrandi byssukjöftunum en ekki ég?

Titillinn Léttleikinn vísar í þekktan titil Milans Kundera, Óbærilegur léttleiki tilverunnar, og gefur að sama skapi til kynna að Catherine Meurisse sleppti ekki hendinni af húmornum þótt bókin lýsi öðrum þræði þrautagöngu. Léttleikinn kom nýlega út á þýsku og er einnig til á ensku, en frummálið er franska. Og inngangur bókarinnar sérlega magnaður, kannski ekki síður mikilvægur en bókin sjálf, hann er eftir blaðamanninn Philippe Lançon, sem lifði af skotárásina á Charlie Hebdo. Hann stóð sjálfur andspænis stærstu verkum myndlistarsögunnar fáeinum vikum eftir skotárásirnar, með umbúðir um andlitið, tvo lífverði til hvorrar handar og skurðlækninn sinn sér við hlið.

Lançon gerir raunar ekki mikið úr eigin þjáningum í innganginum, athyglin er á Catherine Meurisse og hann leyfir sér m.a.s. einn brandara þegar hann rifjar upp fyrir hennar hönd: Maður ætti alltaf að fara í gegnum sambandsslit daginn fyrir hryðjuverkaárás. Þá mætir maður seint í vinnuna og lifir af.

Allt annað áfall

Víkur nú sögunni til Vestur-Afríku, nánar tiltekið til Sierra Leone. Áföll gera sem kunnugt er ekki alltaf boð á undan sér, en samt stundum. Ishmael Beah var ellefu ára gamall þegar stríð braust út í heimalandi hans Sierra Leone, og það var ekki alveg óvænt, eins og hann benti á í síðustu viku þegar hann sat fyrir svörum á bókmenntahátíðinni LittFest í Umeå í Svíþjóð. „Undiralda eða órói í fjarlægu ríki er ekki fréttaefni. En um leið og vopnuð átök brjótast út er það allt í einu góð frétt. Þess vegna,“ sagði Ishmael Beah, „lítur oft út fyrir að stríðsátök hefjist skyndilega, ef maður les heiminn í gegnum fréttir.“

Þeir hlustendur sem telja sig nú þegar kannast við nafnið Ishmael Beah hafa rétt fyrir sér. Hann er höfundur endurminningabókarinnar Um langan veg (A Long Way Gone) sem kom út hér á landi í þýðingu Sigurðar Jónssonar fyrir um áratug. Undirtitillinn er Frásögn herdrengs, en þar lýsir Beah ótrúlegri reynslu sinni sem barnahermaður. Eftir að hann varð viðskila við fjölskyldu sína var hann nauðugur viljugur beinn þátttakandi í stríðinu í Sierra Leone, lyfjaður, hræddur, ringlaður. Fáeinum árum síðar var Beah bjargað úr landi af UNICEF, nú er hann útskrifaður úr stjórnmálafræði frá bandarískum háskóla og er talsmaður UNICEF í málefnum barna í stríði.

Beah hefur nú skrifað skáldsögu, sem er að vissu leyti rökrétt framhald endurminninganna. Hún fjallar um fólk sem snýr aftur á heimaslóðir sínar eftir stríðsátök og reynir að endurheimta daglegt líf. Skáldsagan heitir Radiance of Tomorrow, þar er horft fram á veginn, frekar en aftur – ekki ósvipað og í bók Catherine Meurisse – þótt fortíðin sé enn partur af öllu sem er hugsað og séð.

Að skjóta eða vera skotinn

Ishmael Beah var einnig spurður út í sektarkenndina, á sviði í Umeå um daginn, hann gekkst hiklaust við henni og útlistaði að fullkomin tilviljun ræður því hverjir farast í stríðsátökum og hverjir ekki. Og til viðbótar: „Það fyrsta sem þú lærir er að ef þú skýtur ekki sjálfur, ertu skotinn.“

Ein af persónum nýju skáldsögunnar byggir á ömmu Ishmaels, sem er honum dýrmæt og sem kenndi honum ótalmargt í bernsku. „Amma trúir því að ég sé orðinn mikill maður vestanhafs,“ upplýsti Ishmael Beah hlæjandi á sviðinu sænska. „Hún fékk til sín fólk í heimsókn sem veifaði bókinni minni, það var mynd af mér á baksíðunni og allt, og amma bara: Boy, you must be a great chief over there now.“

Það hefur hver sína aðferð við að endurheimta lífið og hláturinn eftir lífsháska, yfirvinna sektina og varðveita minningar um hina horfnu – það hefur hver sína persónulegu aðferð og stundum á útkoman erindi við fleiri.

Í upphafi og lok innslagsins hljómar lagið Lost Watch með Seabear.