Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þeir sem fóru ábyrgir - ekki forystan

Mynd með færslu
 Mynd:
Þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir skjóta skökku við að menn sem hafi setið í kjördæmaráði Reykjavíkur og mótað framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar skuli segja sig úr flokknum nú. Þeir séu sjálfir ábyrgir, en ekki einhver óskilgreind forysta flokksins.

Fimm áhrifamenn innan Framsóknarflokksins hafa sagt sig úr flokknum undanfarið. Ómar Stefánsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Kópavogi, Jenný Jóakimsdóttir, sem skipaði 2. sæti á lista flokksins í Hafnarfirði og Ásta Hlín Magnúsdóttir, fyrrverandi formaður Sambands ungra framsóknarmanna sögðu sig öll úr flokknum og í kjölfarið fylgdu Þorsteinn Magnússon, varaþingmaður flokksins og loks Hreiðar Eiríksson, sem skipaði 5. sæti á lista Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar. Ástæðan er stefnan í kosningabaráttu flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík og sinnuleysi flokksforystunnar við henni, fyrir og eftir kosningar.

Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir formann flokksins ekki móta framboðslista, það geri kjördæmaráð. „Þessir aðilar sem að núna hafa verið að segja sig úr, svo sérkennilegt sem það er, sátu í stjórn kjördæmasambandsins, eru sem sagt forystumenn í Reykjavík, forystumenn sem völdu bæði Sveinbjörgu og Guðfinnu í framboð, forystumenn sem stýrðu kosningabaráttunni í Reykjavík. Þannig að mér finnst dálítið sérkennilegt að þessir menn séu að vísa ábyrgð sem þeir sjálfir taka á sig, yfir á einhverja óskilgreinda menn, Jón og Gunnu.“

Sigrún segir það að menn sem sátu í kjördæmaráði skuli segja sig úr flokknum, sanni að ekkert sé hæft í því að málflutningur frambjóðenda fyrir kosningar hafi verið skipulagður. „Skýrasta dæmið gegn þeim áróðri að Framsókn hafi sett þetta fram til þess að ná atkvæðum, það er svo absúrd, því að þessir tveir menn sátu í kjördæmaráðinu, sem hefur áhrif náttúrulega áhrif á stefnumörkun og framkvæmd kosninganna og viðbrögð þeirra náttúrulega sanna það að þeir, þeir voru nú ekki hlynntir þessari umræðu sem varð, þannig að, hvernig menn geta blásið það upp að Framsókn hafi verið að gera þetta af ásetningi.“

Framsóknarflokkurinn ekki einræðisflokkur

Sigrún segir það ekki hlutverk formanns eða flokksforystu að móta stefnuna í hverju sveitarfélagi. „Flokksforystan vill auðvitað eðli málsins samkvæmt ekki skipta sér of mikið af málefnum í hverju sveitarfélagi, við erum ekki einræðisflokkur, við erum félagshyggjuflokkur,“ segir Sigrún. Stefna flokksins sem slíkum sé skýr og hafi verið áréttuð á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins.

[email protected]