Þeir fiska sem róa

Mynd: Dagur Gunnarsson / Dagur Gunnarsson

Þeir fiska sem róa

10.03.2017 - 15:00

Höfundar

Fiskar er þriðja sólóplata Jóns Ólafssonar. Lágstemmt verk og berstrípað og í því felst máttur þess. Óvenjuleg nálgun sem skilar ríkri og fallegri plötu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Það eru tíu ár síðan Jón læddi út sólóplötu síðast (Hagamelur). En ekki er svo að skilja að hann hafi setið með hendur í skauti, leitun er að virkari mönnum í íslensku tónlistarlífi. En það er gott að hann hafi gefið sér tíma í þetta verkefni því að eyrun, sálin og hjartað njóta góðs af því. Bæði hans og okkar.

Lágstemmd

Það sem gerir plötuna er stefnan sem tekin var, eða aðferðafræðin. Platan er afar lágstemmd og hljóðlát, það er hvíslandi stemning í gangi, og í nákvæmlega því er máttur hennar falin. Jón hefur lýst því sjálfur að í vinnslu á lögum glatist oft einhver frumgaldur, einhver hreinleiki sem hangir yfir þegar menn rúlla prufuupptökum inn á band, lausir við alla pressu og tilgerð. Jón keyrir svona lög inn á þessa plötu, t.d. „Þrá eftir þér“ sem er beinlínis hugflæði, líkt og maður sé að guða á gluggann í hljóðverinu þar sem Jón situr á náttbuxunum við píanóið, syngjandi inn hálfkaraða stemmu. Þetta lag er líka gott dæmi um hvernig Jón nýtir þögnina, það er mikið rúm á milli nótna, lögin fá að anda og vera stillt. Fleiri lög eru í þessum fasa og minna þau helst á tónlist James Blake, „ambient“-skotin og uppfull af mannlegri reisn einhvern veginn. Jón hefur tekið eitthvað af því sem hann gerði með Futuregrapher á hinni afar vel heppnuðu Eitt inn í þetta ferli og svo minnir heildaráferðin mig af einhverjum sökum á tvær yndislegar plötur sem Van Morrison gerði í upphafi níunda áratugarins, Beautiful Vision (1982) og Inarticulate Speech of the Heart (1983). Þar var stemmning á líka leið; andlegar og nánast „hugleiðandi“ plötur. Allt þetta er svo stutt með einföldum „næfum“ textum sem passa vel við tónlistina. Jón gerir líka hefðbundnari lög, sjá t.d. opnunarlagið, „Gangur lífsins“, en þau stíga ekki út fyrir heildarstemmuna þó þau taki inn ögn fleiri hljóðfæri.

Virkilega fínt

Þegar menn eru komnir á vissan aldur eiga þeir það til að hrökkva í öryggisgír, gera það sem þeir kunna best og taka litlar áhættur. Útkoma úr slíku er oftar en ekki flöt og óáhugaverð, þó að vinnslan sé kannski fagleg. Manni finnst, þegar hugsað er um það, að þegar langt er komið inn í feril eigi menn einmitt að prufa eitthvað nýtt og fara inn á nýjar lendur. Það er engu að tapa, allt að vinna og listamennirnir þurfa ekki að sanna neitt fyrir neinum lengur. Jón Ólafsson fer nákvæmlega þessa leið á Fiskar og uppsker eftir því. Virkilega fínt og gifturíkt verk.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Jón Ólafsson - Fiskar

Tónlist

Sextíu ár af ljúfum söng

Tónlist

Í uppgjöfinni felst mesti sigurinn

Tónlist

Ofursvöl áferð og skuggaleg framvinda