Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Þegar verið gerð úttekt á aðildarviðræðum

23.05.2013 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að nú þegar hafi verið gerð úttekt á stöðu aðildarviðræðna Íslands og ESB. Framkvæmdastjórn ESB bíður eftir nýjum utanríkisráðherra til að ræða betur fyrirætlanir nýrrar ríkisstjórnar í Evrópumálum.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir að gert verði hlé á viðræðum Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Auk þess verði gerð úttekt á stöðu aðildarviðræðnanna og þróun mála innan ESB. Össur telur að það verði lítið mál að ljúka þeirri skoðun.

„Ég er nýbúinn að leggja fram vandaða úttekt á því hver staða þess máls er og hverju hefur verið náð fram og hvernig þetta lítur allt saman út þannig að það má segja að ný úttekt - það verði ekki mikið verk að ljúka henni".

Hann vísar þar til skýrslu um aðildarviðræðurnar, framvindu og stöðu þeirra, sem gefin var út í síðasta mánuði. Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra ESB, svaraði fréttamönnum í Brussel í dag sem óskuðu viðbragða við stefnu nýrrar ríkisstjórnar að gera hlé á aðildarviðræðum við ESB. 

Stano sagði að framkvæmdastjórnin tæki mið af nálgun nýrrar ríkisstjórnar Íslands hvað varðaði viðræður um aðild að Evrópusambandinu og væri tilbúin að ræða frekar fyrirætlanir og markmið ríkisstjórnarinnar þegar stjórnin og nýr utanríkisráðherra hefðu tekið við völdum. Framkvæmdastjórnin myndi áfram þróa hið sérstaka samstarf við Ísland á öllum sviðum þar sem Ísland og ESB hefðu sameiginlegra hagsmuna að gæta.