Þegar páfinn og Shell leggjast á eitt

Mynd: EPA / ANSA

Þegar páfinn og Shell leggjast á eitt

04.05.2015 - 17:19

Höfundar

Til eru þeir sem hafa trú á að árið 2015 sé líklegt til að marka þáttaskil í umhverfismálum í heiminum. Aðrir myndu segja slíkt óhóflega bjartsýni, að reynsla síðustu áratuga veki engar sérstakar vonir. Ýmsar vísbendingar má þó finna þessu til stuðnings. Og þar koma páfinn og Shell við sögu.

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur fór yfir þessar jákvæðu vísbendingar í pistli sínum í Samfélaginu á Rás 1. 

------------------------------------------------ 

Verður 2015 ár breytinga ?

Sumir telja að árið 2015 verði ár mikilla breytinga í umhverfismálum á heimsvísu. Ég treysti mér ekki til að spá fyrir um þetta, en óneitanlega er þó ýmislegt í farvatninu sem gæti átt eftir að hafa meiri breytingar í för með sér en marga grunar.

Það fyrsta sem kemur í hugann þegar talað er um árið 2015 sem hugsanlegt ár breytinga er loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í París dagana 30. nóvember til 11. desember næstkomandi. Það telst reyndar ekki til tíðinda að haldnar séu loftslagsráðstefnur á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem sést m.a. á því að þetta verður 21. ráðstefna aðildarríkja loftslagssamningsins sem samþykktur var í Ríó árið 1992. Þess vegna gengur þessi tiltekna ráðstefna einmitt undir nafninu COP21 eða Conference of the Parties nr. 21. Leiðtogar þjóða heims eru sem sagt búnir að hittast 20 sinnum á sambærilegum ráðstefnum án þess að tekist hafi að leysa loftslagsvandann. Því er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ráðstefnan í París sé líklegri til að hafa breytingar í för með sér en hinar 20 ráðstefnurnar.

Áður en spurningunni um líklegan árangur í París er svarað er rétt, svo allrar sanngirni sé gætt, að rifja upp að hinar 20 ráðstefnurnar hafa alls ekki verið með öllu gagnslausar. Þannig eru líklega flestir sammála um að ráðstefnan í Kyoto 1997 (þ.e.a.s. COP3) hafi skilað talsverðum árangri. Þar var Kyotobókunin samþykkt en hún innihélt fyrstu bindandi markmiðin um hámarkslosun gróðurhúsalofttegunda í einstökum ríkjum. Kyotobókunin rann út árið 2012 og var þá framlengd til 2020. Ráðstefnan í París er í raun síðasta tækifærið til að koma sér saman um ný bindandi markmið sem geta tekið gildi í tæka tíð til að hægt sé að vinna eftir þeim frá og með árinu 2020.

Staðan er sem sagt í stuttu máli þannig að í París verða menn að komast að samkomulagi ef ekki á að myndast tómarúm þegar hin framlengda Kyotobókun rennur út árið 2020. Hvort að sá þrýstingur dugi til að tryggja árangur er svo allt annað mál. En þá komum við að því sem er að gerast utan samningaherbergjanna, því að þar er landslagið greinilega að breytast. Til skamms tíma börðust forsvarsmenn stórfyrirtækja gegn hvers konar takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda, þar sem slíkar takmarkanir myndu spilla rekstrarumhverfi fyrirtækjanna og valda hagkerfinu miklu tjóni. Síðustu mánuði hefur hins vegar allt annar tónn hljómað úr þessari átt. Fyrir rúmu ári skrifuðu forsvarsmenn 70 stórfyrirtækja, þ.á.m. Shell og Unilever undir svonefnda Trilljón tonna yfirlýsingu, þar sem skorað var á stjórnvöld að móta skýra stefnu til að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum og koma þannig í veg fyrir að heildarlosun koltvísýrings frá upphafi fari yfir trilljón tonn af kolefni, í þeim skilningi sem enskumælandi þjóðir leggja í orðið „trilljón“. Fari losunin yfir þessi mörk er mikil hætta á að meðalhitastig á jörðinni hækki um meira en 2°C, en hækkun umfram það er talin munu leiða til þess að loftslagsbreytingar af mannavöldum fari algjörlega úr böndunum.

Trilljón tonna yfirlýsingin verður að teljast býsna merkilegt og óvænt innlegg í loftslagsumræðuna, því að líklega áttu fæstir von á slíku frá Shell og öðrum álíka fyrirtækjum. En á dögunum kom önnur og jafnvel enn ákveðnari yfirlýsing úr sömu átt í formi opins bréfs frá forstjórum 43 alþjóðlegra stórfyrirtækja með starfsemi í samtals 150 löndum, þ.á m. Volvo, Unilever, Toshipa, Philips, IKEA og Ericsson. Í bréfinu er skorað á leiðtoga ríkja heims að ganga frá metnaðarfullu samkomulagi um loftslagsmál á ráðstefnunni í París með sérstakri tengingu við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna sem verða að öllum líkindum formlega samþykkt í september á þessu ári. Jafnframt bjóðast forstjórarnir til að aðstoða einstakar ríkisstjórnir við að móta stefnuna og leggja á ráðin um aðgerðir til að fylgja henni eftir. Þá heita fyrirtækin því að grípa til aðgerða í eigin rekstri til að minnka kolefnisfótspor sín, auk þess sem þau muni gerast boðberar aðgerða á heimsvísu með áherslu á lausnir og efnahagsleg tækifæri sem liggja í minnkandi losun. Menn veltist ekki lengur í vafa; loftslagsbreytingar séu raunverulegar en enn sé þó hægt að sporna gegn þeim.

Í bréfi forstjóranna var eins og áður segir minnst á sjálfbærnimarkmiðin sem væntanlega verða samþykkt formlega á þingi Sameinuðu þjóðanna í New York í september. Þessi markmið eiga að leysa svonefnd Þúsaldarmarkmið af hólmi, en þau voru sett árið 2000 og giltu til ársins 2015. Hin nýju sjálfbærnimarkmið verða að öllum líkindum 17 talsins, taka væntanlega gildi 1. janúar 2016 og eiga að liggja til grundvallar í stefnumótun aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna fram til ársins 2030. Þingið í september gæti orðið merkilegur áfangi á leiðinni inn í framtíðina, rétt eins og ráðstefnan í París. Og það eitt að þingið sé haldið mun leiða til mikillar umræðu um það hvernig íbúar heimsþorpsins geti tekist á við brýnustu verkefni samtímans og nánustu framtíðar.

Þingið í New York og ráðstefnan í París eru ekki einu viðburðirnir á árinu sem gætu leitt til breytinga, bæði í stefnumótun stjórnvalda og í almennri umræðu. Þriðji viðburðurinn sem vert er að nefna í þessu sambandi er útgáfa páfabréfsins sem áður hefur verið minnst á í Samfélaginu. Þetta bréf var upphaflega væntanlegt í nýliðnum marsmánuði en er nú sagt verða sent út fyrri part sumars. Bréfið, sem búist er við að verði einar 50-60 blaðsíður, verður væntanlega alfarið helgað umhverfismálum. Í því er reiknað með að páfinn sendi skýr skilaboð til kaþólikka um allan heim um að þeir geri allt sem í þeirra valdi stendur, hver fyrir sig og sameiginlega, til að afstýra skelfilegum áhrifum loftslagsbreytinga á umhverfi og samfélag. Bréfið verður sent til allra biskupa kaþólsku kirkjunnar, sem munu vera um 5.000 talsins, og þaðan áfram til 400.000 kaþólskra presta sem ætlað er að dreifa því til sóknarbarna um allan heim. Það er dágóður hópur, því að fylgismenn kaþólsku kirkjunnar eru samtals um 1,2 milljarðar. Þarna fer páfinn inn á allt aðrar brautir en fyrirrennarar hans, og þeir sem þekkja til kaþólsku kirkjunnar vita að orð páfa hafa meira vægi en orð flestra annarra. Reyndar líst þeim sem vilja afneita kenningum um loftslagsbreytingar af mannavöldum meinilla á að páfinn sé að skipta sér af þessum málum. Þaðan hefur páfinn m.a. fengið opin bréf þar sem reynt er að leiða honum fyrir sjónir að loftslagsbreytingar séu hreint ekki mönnum að kenna. Þá má nefna að stórir hópar kaþólikka í Bandaríkjunum, þ.á m. innan teboðshreyfingarinnar, telja áherslu páfa stangast á við boðskap Biblíunnar og vera í versta falli móðgun við Guð. En páfinn lætur engan bilbug á sér vinna, heldur talar hann opinskátt um nauðsyn þess að brjóta upp núverandi hagkerfi sem ofan í kaupið stuðli að ójafnri skiptingu auðs. Og hann hefur sömuleiðis tekið eindregna afstöðu gegn einkavæðingu náttúruauðlinda.

Þegar allt þetta er dregið saman er ég svei mér ekki frá því að árið 2015 verði ár breytinga í umhverfisumræðunni. Auðvitað veit ég eins og aðrir að orðum fylgja ekki alltaf gjörðir, en orð eru samt til alls fyrst. Og þegar sömu orðin eru farin að koma frá Shell, Volvo, Unilever og páfanum er hreint ekki útilokað að raunverulegar breytingar séu í aðsigi.