Þegar dansinn verður banvænn

Mynd:  / 

Þegar dansinn verður banvænn

20.01.2019 - 10:00

Höfundar

Dans er eitthvað sem heillar, alltaf og alls staðar, en hann er líka hættulegur. Í sumum tilvikum er hann jafnvel banvænn. Heimildir um stjórnlausa dansara eru til víða úr álfunni, þar sem í dag eru Ítalía, Frakkland og Þýskaland.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar:

„Ekkert jafnast á við dans. Mér finnst hann ein helsta prýðin á siðmenntuðum þjóðfélögum.“ Á þennan hátt reyndi ógæfusamur herramaður að fitja upp á samræðum við hinn önuga herra Darcy í Hroka og hleypidómum eftir Jane Austen, í upphafi 19. aldar. Herra Darcy gerði ekki annað en fitja upp á nefið og svaraði um hæl: „Hver einasti villimaður kann að dansa.“

Í þessum skoðanaskiptum kristallast kannski sú tvíbenta staða sem dansinn hefur í mannlegu samfélagi. Sá sem ekki kann að dansa mun alltaf verða útundan á þeim stundum sem það er eftirsóknarverðast, mikilvægast, að vera með og taka þátt. Þá taka sumir frekar hinn kostinn, að dansa illa, eins og forsætisráðherra Breta gerði margsinnis síðastliðið haust. Því þó að dans sé kannski ekki augljóst dæmi um mikilvæga samskiptaleið, þá er það ekki að ástæðulausu sem hann hefur verið iðkaður í einhverju formi alls staðar þar sem mannfólk hefur tekið sér búsetu. En þó dans þjóni margvíslegum tilgangi í hverju samfélagi fyrir sig, þá er sá möguleiki engu að síður alltaf til staðar að hann gangi fram af okkur. Að dansinn stuði, hneyksli, eða jafnvel ógni okkur.

Langflestar danshreyfingar hafa á einhverjum tíma verið þess megnugar að vekja blygðun, áhyggjur og reiði, sama hversu saklausar þær kunna að virðast í dag. Þeir dansar sem eru frægastir fyrir að hafa valdið hneykslun eru að sjálfsögðu paradansar, sem siðprúðum áhorfendum hafa þótt minna óþægilega mikið á samfarir. Dæmi um slíkan samkvæmisdans var ítalski snúningurinn, La Volta, sem olli miklu uppnámi við ensku og frönsku hirðina á 16. öld, þegar herrann sendi dömuna svífandi í gegnum loftið með sérlega djörfum mjaðmahnykk. Austurríski valsinn olli svipuðum óþægindum á 19. öld, þegar pörin svifu yfir dansgólfið í svo þéttum faðmlögum að andlitin jafnvel snertust. Ekki batnaði það síðan þegar fólk fór að stíga tangó við upphaf 20. aldar.

Mynd með færslu
 Mynd:
Frá dansmaraþoni árið 1923.

En það er ekki bara paradans sem nær að halda okkur á tánum. Á þriðja áratug 20. aldar fór ungt fólk í Bandaríkjunum að dansa Charleston. Fyrir utan það ósiðsamlega útlimaskak sem hann kallaði á, þá var þetta dans sem hægt var að dansa aleinn, án dansfélaga. Konur þurftu því ekki lengur að bíða eftir herra heldur gátu gengið beint út á dansgólfið að eigin frumkvæði. Á Íslandi og í nágrannalöndum okkar var hins vegar dansaður hringdans fyrr á öldum. Þó slíkt virðist sárasaklaus iðja í nútímasamfélagi, þá þótti hringdansinn engu að síður stórt siðferðislegt álitamál, sem átti ekki lítinn þátt í að útrýma honum hér á landi. Jafnvel háttskrifuð listform eins og klassískur ballett eru ekki undanskilin þeim blendnu tilfinningum sem dans vekur hjá okkur. Nú er til dæmis í sýningum endurgerð á hryllingsmyndinni Suspiria, sem gerist í listdansskóla og fjallar um þann óhugnað sem leysist úr læðingi þegar konur fara að dansa.

Dans er eitthvað sem heillar, alltaf og alls staðar, en hann er líka hættulegur. Í sumum tilvikum er hann jafnvel banvænn. Þekkt er íslenska þjóðsagan um dansinn í Hruna, þar sem presturinn hélt ball í kirkjunni á jólanótt í stað þess að messa. Móðir hans, siðprúð og hyggin, reynir í þrígang að stöðva leikinn en hann svarar í hvert sinn: „Einn hring enn, móðir mín.“ Þegar skrattinn birtist í kirkjudyrunum og fer að kveða vísur leggur móðirin á flótta eftir hjálp, en þegar hún snýr aftur eru kirkja og grafreitur sokkin og dansararnir ýlfra og góla neðan úr iðrum jarðar. Siðferðisboðskapur þessarar þjóðsögu er augljós og auðtúlkanlegur. En hið sama er ekki hægt að segja um margvíslegar evrópskar frásagnir, frá þrettándu öld til þeirrar sextándu, um fólk sem raunverulega trylltist úr danslöngun og dansaði fram í rauðan dauðann.

Þessar heimildir um stjórnlausa dansara eru til víða úr álfunni, þar sem í dag eru Ítalía, Frakkland og Þýskaland. Frásagnirnar eru ólíkar eftir landssvæðum, tímabili og því hver hélt á pennanum, en í öllum tilfellum létu dansararnir til skarar skríða í þyngsta og ofsafengnasta sumarhitanum, í júlí eða ágúst. Með hegðun sinni ofbuðu þeir bæði velsæmiskennd samborgara sinna og sinni eigin heilsu. Eitt elsta dæmið er af dansleik sem haldinn var á brú yfir ánni Maas í Þýskalandi árið 1278, sem endaði með því að brúin hrundi og fjöldi fólks drukknaði í ánni. Mun ýktari hegðun sýndu dansarar í frönsku borginni Strassborg árið 1518 þegar þeir dönsuðu vikum saman í steikjandi sumarhitanum, þar til þeir féllu loks í ómegin sem sumir risu aldrei upp úr. Þessir trylltu dansarar á síðmiðöldum öskruðu og sungu, hoppuðu yfir raunverulega eða ímyndaða eldsloga og klæddust litríkum furðubúningum eða það sem verra var, sviptu sig klæðum og dönsuðu naktir. Í dag deila fræðimenn um það hvað hafi valdið því sem í heimildum virðist beint út sagt algert stjórnleysi.

Teikning Pieter Bruegel síðan 1564 af dansæði pílagríma.

Líklegt er að þarna hafi átt sér stað múgsefjun og flestir geta sér til um að þessi hegðun hafi haft einhverja trúarlega merkingu. Í því sambandi er kaþólski dýrlingurinn heilagur Vitus oft nefndur á nafn, en hann var meðal annars verndari dansara. En fræðimenn greinir á um það hvort fólkið hafi dansað af kæti eða djúpri örvæntingu. Sumir álíta að dansæðið hafi verið blanda af trúarheitri pílagrímsför og djammferð, þegar fátækt alþýðufólk ferðaðist landshorna á milli yfir sumarmánuðina og olli skelfingu hjá klerkum og borgarastétt. Aðrir benda á þau áföll sem fólk á þessum tíma hafði orðið fyrir vegna hungursneyða, drepsótta og stríðsátaka. Þessar hörmungar hafi gert dansarana sérstaklega guðhrædda og taugaveiklaða, þeir hafi fundið sig knúna til að dansa sér til óbóta og litið á erfiðið og niðurlæginguna sem því fylgdi sem refsingu guðs fyrir syndugt líferni. En kannski var þetta flóknara fyrirbæri en svo að við getum nefnt eina, afgerandi ástæðu fyrir hegðun alls þessa fólks, frá ólíkum löndum á margra alda tímabili.

En hvað með Íslendinga á miðöldum? Hversu trylltur varð þessi hringdans eiginlega? Heimildir um lif Íslendinga á síðmiðöldum eru því miður sárafáar, en við getum samt fullyrt með nokkurri vissu að þeir hafi að minnsta kosti þekkt til djammóðra kaþólskra meðbræðra sinna úti í álfunni. Í íslensku riddarasögunni Dínusar sögu drambláta, sem gæti verið frá lokum 14. aldar, verður konungsdóttirin Philótemía fyrir álögum, þegar Dínus hengir upp galdratöflu í höll hennar. Philótemía og hirðmeyjar hennar rífa sig úr fötunum og stíga villtan hringdans í kringum töfluna á meðan þær öskra danslög eins og óðar væru. Konungurinn, drottningin og hirðin öll gengur á lætin og verða fyrir sömu álögum á meðan þegnarnir horfa agndofa á. Erkibiskupinn smalar saman öllum helgustu kennimönnum ríkisins til að bjarga æru hirðarinnar, en frammi fyrir galdratöflunni þrífa þeir af sér gylltar mítrur, fleygja burtu bagli og skrúða og hleypa nýju lífi í nektarpartíið.

Það er kannski ekki mjög líklegt að slíkur dansleikur hafi nokkurn tíma verið haldinn á Íslandi. Í öllu falli er mjög ólíklegt að það hafi nokkurn tíma orðið nógu heitt hér til að fólk hafi fækkað mikið fötum, hvað þá fallið í yfirlið. En kannski, bara kannski, liggja einhver staðar, langt aftur í grárri forneskju, virkilega slæmir timburmenn og mjög vandræðalegt djammviskubit á bak við söguna um dansinn í Hruna.