Þegar byrjaður að slíta á hagsmunatengsl

28.01.2018 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Eyþór Laxdal Arnalds nýkjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segist þegar byrjaður að slíta öll hagsmunatengsl, bæði í viðskiptalífi og í fjölmiðlarekstri, fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Hann vann afgerandi sigur í leiðtogaprófkjöri flokksins í gærkvöld. 

Eyþór fékk 2.320 atkvæði í leiðtogaprófkjörinu í gær. Áslaug Friðriksdóttir, núverandi borgarfulltrúi flokksins, fékk 788 atkvæði, Kjartan Magnússon, sem einnig er borgarfulltrúi flokksins, fékk 460 atkvæði. Vilhjálmur Bjarnason, fyrrum þingmaður fékk 193 atkvæði og Viðar Guðjohnson rak lestina með 65 atkvæði. Samtals greiddu 3885 flokksfélagar atkvæði en auðir og ógildir seðlar voru 59. 

Eyþór segist ánægður með þessi skýru skilaboð frá kjósendum. „Ég í raun og veru var bara hrærður um hvað þetta var afgerandi. Það er ljóst að þetta eru skýr skilaboð um breytingar í Sjálfstæðisflokknum.“

Eyþór hefur áður hlotið gagnrýni fyrir hagsmunatengsl.  Hann á 23% hlut í Morgunblaðinu og er stjórnarmaður í 26 eignarhaldsfélögum og fyrirtækjum.  „Ég hef þegar sagt mig úr nokkrum þeirra og mun slíta á öll hagsmunatengsl og gefa mig allan í þetta eftir þennan sigur og ég ætla að hafa algjöran aðskilnað á því sem að ekki passar.“

Það sama eigi við um aðkomu Eyþórs að Morgunblaðinu. „Ef að ég fer inn í borgarstjórnina með þeim hætti sem stefnir í þá fer ég úr því, ég mun þá fara úr stjórn og slíta á þau tengsl. Muntu selja þá þinn hlut í morgunblaðinu líka? Ja ef að kaupandi finnst í tæka tíð þá mun ég gera það ég er bara að fara að vinna í því að aðskilja þetta tvennt.“

Tveir núverandi borgarfulltrúar flokksins voru einnig í framboði en fengu lítinn stuðning. Eyþór segir niðurstöðuna vera skýrt ákall um breytingar í borginni. Kjörnefnd muni nú raða í sætin á listanum og því sé óljóst hvort Áslaug eða Kjartan muni eiga sæti á lista í kosningunum í vor. „Ég get unnið með báðum þeim, við skulum sjá hvernig kjörnefnd tekur á málinu og hvað þau vilja líka og svo framvegis. Fyrst og fremst þurfum við bar að standa saman um málefnin og tala skýrri röddu gagnvart íbúum.“ segir Eyþór. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi