Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þátturinn sem skilinn var eftir

Mynd: RÚV / RÚV

Þátturinn sem skilinn var eftir

14.09.2017 - 10:32

Höfundar

Nýr heimildaþáttur um rangar sakargiftir í Geirfinnsmálinu verður sýndur á RÚV í kvöld. „Þetta er enn einn anginn sem erfitt er að skýra í stuttu máli,“ segir Helga Arnardóttir, dagskrárgerðarmaður.

Snemma árs 1976 voru fjórir saklausir menn, svonefndir klúbbsmenn, handteknir grunaðir um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Þrjú ungmenni, Sævar Ciesielski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson voru sakfelld fyrir að bera þessa menn röngum sökum. Í þættinum er fjallað um tilurð hinna röngu sakargifta, hvernig þeim var framfylgt af lögreglu og hvernig upplifun fjórmenninganna var sem bornir voru röngum sökum og þeirra sem sakfelld voru fyrir meinsærið.

Sátu í gæsluvarðhaldi í allt að 105 daga

Helga Arnardóttir segir í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 að ekki hafi verið mikið fjallað um þennan þátt málsins hingað til. Til að mynda hafi honum verið sleppt í heimildamyndinni Out of Thin Air, sem sýnd var á RÚV fyrir stuttu, vegna þess hve umfangsmikill hann er. „Þetta er enn einn anginn sem erfitt er að skýra í stuttu máli,“ segir Helga.

Mynd: RÚV / RÚV

Endurupptökunefnd samþykkti ekki að þessi hluti Guðmundar- og Geirfinnsmálsins yrði tekinn aftur upp. Samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar voru morðmálin tekin fyrir á ný, þar sem fimm menn hlutu refsidóma. Nefndin hafnaði hins vegar beiðnum Erlu Bolladóttur, Kristjáns Viðars Júlíussonar og Sævars Ciesielski um endurupptöku á dómi Hæstaréttar, sem sakfelldi þau fyrir að hafa borið rangar sakir á Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen.

„Það hefur verið rætt um þetta sem mannorðsmorðið í málinu. Þarna voru fjórir saklausir menn hnepptir í gæsluvarðhald. Þeim var ekki haldið í einn eða tvo sólarhringa – þeim var haldið í 90-105 daga. Sem að manni finnst hérumbil ómennskt í dag,“ segir Helga. „Viðmiðin í þessu gæsluvarðhaldi, þá 1976, eru allt önnur [en í dag].“

Kristján, Sævar og Erla voru dæmd fyrir samantekin ráð um að torvelda rannsóknina. „En það kemur ýmislegt í ljóst þegar málið er skoðað,“ segir Helga. „Erlu er alltaf legið á hálsi fyrir að hafa fyrst nefnt þessa menn til sögunnar – en hún gerir það ekki. Klúbbsmenn eru komnir við sögu miklu fyrr, meðal annars í fjölmiðlum og í umræðum á Alþingi. Klúbburinn hafði verið mikið til umfjöllunar árin á undan og til rannsóknar líka. Þannig að nöfn klúbbsmanna eru svolítið komin inn á  borð lögreglu.“

Firrar sig ekki ábyrgð

Helga furðar sig á því að endurupptökunefnd hafi litið á þennan þátt málsins öðrum augum. „Við skulum samt ekki gleyma því að þessir menn sátu inni saklausir. Misstu sitt mannorð til lengri tíma og eru enn að jafna sig á því í dag. Það er auðvitað alvarlegur þáttur málsins,“ segir hún. „Það sem að mér hefur fundist áberandi við vinnslu þessa þáttar er að Erla hefur alveg gengist við þessu og ekki verið að firra sig ábyrgð á neinu. En hún gerir tilraun til að útskýra sínar aðstæður á þessum tíma. Hún er þarna 19 ára með lítið þriggja mánaða barn. Það er búið að halda henni í gæsluvarðhaldi í viku, og hún er undir stöðugri pressu og þrýstingi frá lögreglumönnum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Erla Bolladóttir.

Helga segir að málið sé skoðað frá báðum hliðum í þættinum. Hvaðan þessar sakir eru uppsprottnar og hvernig fjórmenningarnir sjálfir takast á við gæsluvarðhaldið. „Ég leyfi áhorfendum að gera upp sinn hug,“ segir hún, „hvort þetta sé þáttur sem á að skilja eftir, með réttu, eða er þetta hluti af þessu stóra máli.“

Heimildaþátturinn Meinsærið - rangar sakargiftir í Geirfinnsmálinu, verður sýndur á RÚV í kvöld, kl. 20.30. Leikstjóri þáttarins er Jakob Halldórsson.

Tengdar fréttir

Innlent

Erla: „Vissi innst inni að þetta gerðist ekki“

Innlent

Ögmundur furðar sig á niðurstöðu nefndarinnar