Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þátttaka á HM ekki í hættu vegna Skripal

17.03.2018 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Landsfundi Sjálfstæðisflokks er framhaldið í Laugardalshöll um helgina þar sem hann hófst í gær. Yfirskrift fundarins er Gerum lífið betra. Í morgun sat forysta flokksins setið fyrir svörum fundarmanna þar sem spurt hefur verið nánast um allt milli himins og jarðar, komugjöld, heilbrigðisþjónustu, landbúnað, bílaleigur og hvort einhver hætta sé á að Ísland muni ekki taka þátt í HM í Rússlandi í ljósi stöðunnar í Bretlandi

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sagði þá hættu ekki fyrir hendi þrátt fyrir alvarlega stöðu í Bretlandi.

Í lokaorðum sínum í fyrirspurnartíma sagði Bjarni Benediktsson formaður að erfiðu árin væru að baki og nú væri hægt að takast á við brýn úrlausnarefni í samfélaginu. 

Ingvar Smári Birgisson formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, sagði í samtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur að það væri ánægjulegt hversu margir ungliðar væru á fundinum eða hátt í 400.

Þeir hefðu unnið að meira en 100 breytingartillögum sem margar hverjar hefðu verið samþykktar í nefndum og þar bæri kannski hæst aukið frelsi á leigubílamarkaðinum og umbætur í landbúnaðarkerfinu. „Við höfum verið að ýta flokknum í átt að auknu frjálsræði,“ sagði Ingvar og nefndi sömuleiðis þá áherslu að vímuefnaneytendur væru sjúklingar og tækla ætti kerfið með þeim hætti.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV