Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þarna byrjar rómantíska kómedían“

Mynd: Samsett mynd / Björg Magnúsdóttir/Óþekktur

„Þarna byrjar rómantíska kómedían“

05.07.2017 - 16:00

Höfundar

„Það er bara Jane Austen upp um alla veggi á öllum söfnum Borgarbókasafnsins,“ segir Úlfhildur Dagsdóttir, en Borgarbókasafnið er þessa dagana með Jane Austen þema í tilefni af því að 18. júlí verða 200 ár frá dauða þessa vinsæla breska rithöfundar.

Austen er einn ástsælasti rithöfundur allra tíma og Úlfhildur segir það ákaflega auðvelt og ljúft að heiðra hana. „Hún er sívinsæl og einn af þessum höfundum sem nær að höfða til allra. Hún er hátt metin af akademíunni, en svo er hún líka stöðugt lesin af almenningi.“ Austen skrifaði sex skáldsögur áður en hún lést einungis 41 ára gömul en arfleið hennar má finna miklu víðar en í hennar eigin bókum. „Hún er orðin að heilum heimi, pínu eins og heimur Tolkiens eða Harry Potters,“ segir Úlfhildur og bætir við að endalaust sé til af öðrum bókum, bíómyndum og sjónvarpsefni sem vitni beint eða óbeint í verk Austen.

Bridget Jones er byggð á Hroka og Hleypidómum og er ekkert að fela það, þar sem draumaprinsinn í báðum verkum heitir Mr. Darcy.

Frægasta verkið sem byggt er á Austen eru sennilega bækurnar – og síðar kvikmyndirnar – um Bridget Jones, sem byggð er á Hroka og Hleypidómum. „Þegar Helen Fielding er að skrifa Dagbók Bridget Jones árið 1995 eru frægir sjónvarpsþættir BBC á Hroka og Hleypidómum í sýningu. Í þeim þáttum er einmitt fræg blautbolssena með Mark Darcy, sem Colin Firth lék. Konur er enn þann dag í dag að tryllast yfir því atriði,“ segir Úlfhildur og hlær við.

Colin Firth lék Mr. Darcy bæði í sjónvarpsþáttum BBC eftir Hroka og Hleypidómum, og í kvikmyndunum um Bridget Jones.

„Þrátt fyrir ungan aldur nær hún að verða einn af lykilhöfundum fyrir þróun skáldsögunnar í dag,“ segir Úlfhildur og bætir við að þegar Austen var að skrifa hafi verið miklir umrótatímar í samfélaginu. Franska byltingin hafi verið nýskeð, napóleonsstríðin í blússandi gangi og svo hafi breski konungurinn, Georg þriðji, verið veikur á geði. „Þarna eru miklar samfélagsbreytingar sem Jane Austen skrifar inn í,“ segir Úlfhildur.

Þá segir Úlfhildur að á þessum tíma séu kynhlutverk eilítið farin að riðlast til en Austen hafi samt þurft að passa sig að ganga ekki of langt. „Aðalkvenpersónurnar hennar eru kúl og smart en ekki of róttækar. Hins vegar er hún með aðrar kvenpersónur sem eru „neikvæðar“ persónur, sem segja alls konar róttæka hluti. Þannig bæði á hún kökuna og étur hana, hún nær að koma róttækum skilaboðum á framfæri en samt innan viðurkennds ramma.“

En hvers vegna heldur Úlfhildur að bækur Jane Austen hafi lifað svona góðu lífi í 200 ár? „Það er mjög einfalt svar við því, þetta eru góðar bækur á allan hátt. Þær eru vel skrifaðar og ógeðslega skemmtilegar, þarna byrjar rómantíska kómedían.“ Hún telur líka til að áður en Austen skrifar sínar bækar hafi yfirgengilegt drama verið mjög ráðandi í skáldskap. „Hún kemur inn með miklu meiri húmor, hún hefur þetta innsæi í þennan umrótartíma. Þá er líka mikil tilgerð í samfélaginu og stirð samskipti milli fólks, félagsleg staða réð rosa miklu hvernig þú áttir að hegða þér. Að öllu þessu gerir hún stanslaust grín og beitta ádeilu á hvers konar uppgerð.“

Úlfhildur vill hvetja sem flesta að sækja bókasöfnin heim en bókum Jane Austen verður stillt upp á áberandi stöðum, auk efnis sem byggt er á þeim. „Svo má endilega klæða sig í blúndur til að vera í snemm-19. aldar tískunni. Ef þú ert karlmaður komdu þá bara í blúndurnærbuxum á bóksafnið,“ segir Úlfhildur hlægjandi að lokum. 

Úlfhildur Dagsdóttir ræddi Jane Austen og arfleið hennar í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Dóms- og lögreglumál

Illa við Jane Austen

Efnahagsmál

Jane Austen á nýjum peningaseðli

Erlent

Var Jane Austen myrt?