Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þarftu einhverja fleiri?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þarftu einhverja fleiri?“

23.10.2018 - 19:12

Höfundar

Í ár eru sex áratugir síðan tegundin strumpur sást fyrst á prenti. Strumparnir voru þá teiknaðir af hinum belgíska Peyo í myndasögunni um Hinrik og Hagbarð.

Á Íslandi námu Strumparnir land 1979 og tveir bræður tóku þá að sér að tala fyrir kvikindin, Halli og Laddi. Halli var Haraldur í Skrýplalandi á samnefndri plötu sem kom út það ár og Laddi talsetti svo strumpana í gríðarlega vinsælum teiknimyndum stuttu síðar. Þar talaði hann eins og frægt er orðið fyrir allar persónur Strumpanna.

„Já það var nú meira en að segja það því tæknin var ekki upp á marga fiska, það voru ekki margar rásir,“ segir Laddi í samtali við Síðdegisútvarpið. Það var útgefandinn Steinar Berg sem réð Ladda í verkið á sínum tíma. „Hann hringir í mig: „Þarftu einhverja fleiri?“ spyr hann, og ég segi honum að það sé ekkert víst. „Já það er langbest þú gerir þetta bara einn þá,“ svaraði hann. Hann vissi ekkert hvað hann var að segja.“

Alls voru þetta um tuttugu persónur sem Laddi talaði fyrir. „Svo alls konar einnota karakterar, tröll og tröllskessur. En ef það var mikið af kellingum fékk ég hana Eddu Björgvins til að hjálpa mér. Ef það voru tvær, þrjár að tala saman. Það var nú ekki oft en kom fyrir.“

Halli og Laddi ræddu Strumpana, plöturnar og teiknimyndirnar í Síðdegisútvarpinu í tilefni af 60 ára afmæli bláu grallaranna. Hlustið á spjallið í spilaranum að ofan þar sem meðal annars má heyra Ladda rifja upp gamla strumpatakta.