Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þarf tvær Kárahnjúkavirkjanir í viðbót

12.07.2016 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Virkja þarf á við tvær nýjar Kárahnjúkavirkjanir ef raforkusæstrengur milli Íslands og Bretlands á að verða að veruleika. Þetta kemur fram í niðurstöðum verkefnisstjórnar ríkisstjórnarinnar. Heildarkostnaðurinn sé um 800 milljarðar króna, og ekki sé mögulegt að ráðast í verkefnið nema með styrkjum frá Bretum. Ef þeir fáist sé það þó þjóðhagslega hagkvæmt.

800 milljarða króna heildarupphæðin tekur til kostnaðar við sjálfan sæstrenginn, nýjar virkjanir á Íslandi og nauðsynlega uppbyggingu á raforkuflutningskerfinu. Ingvi Már Pálsson, formaður verkefnisstjórnar um lagningu sæstrengs, segir að samkvæmt greiningu sem verkefnisstjórnin lét gera væri þjóðhagslega hagkvæmt að leggja slíkan streng, að því gefnu að styrkir fengjust frá Bretlandi.

Áætlað sé að verg landsframleiðsla Íslands gæti aukist um 1,2-1,6% eða sem nemur um 26 til 35 milljörðum króna, miðað rúmlega 2.200 milljarða króna landsframleiðslu í fyrra. Bresk stjórnvöld séu áhugasöm um að leggja sæstreng. Þó hafi komið skýrt fram í könnunarviðræðum við Breta að áhersla þeirra sé að draga úr styrkjum til endurnýjanlegrar orkunýtingar.

Ingvi Már segir að sæstrengurinn þyrfti um 1400 megavatta afl sem kallaði á umtalsverðar virkjanir. Þar nefnir hann kosti sem séu hluti af Rammaáætlun, uppfærslu á núverandi virkjunum og nýja orkukosti eins og vindorku. Hann segir að meta þurfi neikvæð áhrif nánar ef ákveðið verður að leggja sæstreng, nýjar virkjanir þurfi að fara í umhverfismat. 

Hann segir áætlað að orkuverð á Íslandi myndi hækka um 0,85 til 1,7 krónur á kílóvattstund, sem myndi þýða um 5-10% hækkun fyrir meðalheimili á Íslandi. Á köldum svæðum, þar sem kynt sé með rafmagni, verði hækkunin meiri. Raforkukostnaður atvinnulífsins myndi aukast um 2-4 milljarða króna á ári. Hækkunin myndi leggjast þyngra á sumar greinar en aðrar, til að mynda garðyrkjubændur.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að ákvörðun um hvort  sæstrengurinn verður lagður verði ekki tekin fyrir kosningar. Hún segist ekki geta svarað því núna hvort komi til greina að leggja sæstrenginn. Það sem hafi þó skýrst núna sé að þetta verði ekki að veruleika nema með stuðningi frá Bretum. Það sé þeirra að útskýra hvernig það gæti orðið.

„En svo vekur líka athygli að þarna þarf að ráðast í miklar virkjunarframkvæmdir. Það þarf að virkja rúmlega 1400 megavött, sem eru tvær Kárahnjúkavirkjanir.“

Ragnheiður Elín bendir á að því fylgi tilheyrandi umhverfisáhrif og línulagnir. Umræða um slíkt taki tíma, og ekki sé víst að um það eigi eftir að nást sátt.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV