Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þarf „róttækar lausnir“ varðandi krónuna

22.05.2017 - 20:27
Mynd:  / 
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, segir að hækkun virðisaukaskattsins á ferðaþjónustufyrirtæki eiga meðal annars að sporna við styrkingu krónunnar. Hann er ekki hrifinn af hugmyndinni um komugjöld og telur þau vera hinn eina sanna landsbyggðarskatt. Hann telur róttækar lausnir vera það eina í stöðunni varðandi sterkt gengi krónunnar.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Meirihluti fjárlaganefndar hefur lagt til að fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna verði frestað en hún átti að taka gildi um mitt næsta ár.  Í stað þess ætti meðal annars að skoða kosti komugjalda.  Þá lýsti forsætisráðherra því yfir á Alþingi í dag að hann útilokaði ekki stuðning við slíka frestun.

Benedikt segir að það sé hlutverk þingmanna og þingnefnda að koma með ábendingar sem þingmenn vilji skoða betur. Til að mynda hafi verið nefnt að hækkun virðisaukaskattsins myndi koma á miðju reikningsári og það sé eitthvað sem verði að skoða.

Benedikt varði hugmyndina um hækkun virðisaukaskattsins á ferðaþjónustuna og sagði hana tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Til að komugjöld gætu náð í sambærilegar tekjur þyrftu kannski að leggjast 6 til 7 þúsund krónur á farmiðann, ekki bara í millilandaflugi heldur líka innanlandsflugi. „Og þarna værum við því að tala um raunverulegan landsbyggðarskatt.“ Við fyrstu sýn lofi hugmyndin um komugjöld ekki góðu enda hafi ferðaþjónustan sjálf lagst gegn þeim.  „En nú vill meirihluti fjárlaganefndar að við skoðum þetta betur og það er sjálfsagt að við gerum það.“

Hann vildi ekki útiloka neitt - hann væri ekki svo vitlaust að halda að það væri eitthvað sem hann gæti. „En það er langskynsamlegast að vera með virðisaukaskattinn.“  Þegar Benedikt var þá spurður hvort hann stæði ekki bara einn eftir með þá hugmynd ítrekaði ráðherrann að hann vildi ekki útiloka neitt „En mér ber skylda til þess að menn geri það sem er skynsamlegast.“

Fjármálaráðherra var einnig spurður út í sterkt gengi krónunnar en fram kom í hádegisfréttum RÚV að raungengi hennar hefur ekki verið sterkara frá árinu 1980.  „Okkur finnst gaman að bílarnir séu orðnir milljón ódýrari en þeir voru í fyrra en öllum þurfum við að vinna,“ sagði Benedikt og vísaði þar til áhyggjur manna af sjávarútveginum, iðnaðinum en ekkert síður ferðaþjónustunnar. 

Helgi Seljan, spyrill Kastljóss, sagði þá að ESB- bolurinn sem Benedikt hefði klæðst í sjónvarpsviðtali í gær þegar hann ræddi þessi sömu mál væri þá varla tilviljun. „Staðan í gjaldmiðilsmálum er það alvarleg að við verðum að horfa á mjög róttækar lausnir. Við getum ekki haft þennan fljótandi gjaldmiðil. Þetta á ekki að vera rússíbanareið. Ballið er núna hjá neytandanum en það á að ganga vel hjá öllum alltaf.“