Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þarf nýtt, stafrænt, íslenskt þjóðveldi

13.02.2018 - 11:28
Mynd: RÚV / RÚV
Samfélagið þarf að taka sig saman um að bjarga íslenskunni og auka lesskilning hjá börnum í því stafræna umhverfi sem þau búa í, segir Ragnar Þór Pétursson verðandi formaður Kennarasambands Íslands. Hann segir niðurstöðurnar í norrænni skýrslu, sem sýnir verri lesskilning hjá íslenskum börnum en jafnöldrum á Norðurlöndum, sýna að við höfum sofið á verðinum.

Ragnar sagði á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun að þessar fréttir væru í sjálfu sér ekki nýjar. Lesskilningi hefði hrakað hjá íslenskum börnum alla öldina og væri nú 5% lakari en um síðustu aldamót. PISA-prófin hafi verið greind þegar þau komu fram. „Það kom í ljós að það var mikil fylgni milli árangurs og þess hversu mikið börnin lásu. Það virðist vera að orðaforði íslenskra barna sé að minnka og það eru tengsl milli orðaforða og lesskilnings.“

Ragnar bendir á að á Íslandi séu færri kennslustundir í móðurmáli en annars staðar á Norðurlöndunum. En það þurfi líka að horfa á máltökualdur barna og leggja meiri áherslu á að tala við börn.

Þá segir Ragnar að nauðsynlegt sé að fara í herferð til að bjarga íslensku talmáli og ritmáli. „Börn eyða miklum tíma í tækjum sem eru í enskum málheimi og foreldrar eru ekki að ræða við þau um það sem þau sjá. Ég er búinn að vera kennari í 20 ár og ég get fullyrt að ungmenni hafi aldrei verið betur heppnuð sem einstaklingar en í dag. En við gefum þeim ekki nóg af því að skipti mestu máli – tíma.“ Hann segir að ef börnin fást ekki snemma til að tala íslensku missum við þau í enskan málheim.

Vitlaust að hækka skatt á bækur

Ragnar gagnrýnir harðlega hækkun á virðisaukaskatti á barnabókum, sem gerð var fyrir nokkrum árum. Það hafi verið vitlaust ráðstöfun. Þá segir hann að það þurfi að bæta ýmis innanmein í leikskólunum sem lýsi sér meðal annars í atgervisflótta úr leikskólastétt.

Hann segir að það verði að horfast í augu við það hversu mikið lesskilningi hefur hrakað síðustu ár. „Mikið af þeim lausnum sem við þurfum eru í menntakerfinu sem við erum búin að setja saman. Við höfum aðalnámsskrá og lög í landinu og þar er megináhersla á læsi. Ég mun sem formaður Kennarasambands Íslands beita mér fyrir því að byggt verði upp það skólakerfi sem á að byggja. Það þarf að bæta fagmennsku og draga úr atgervisflótta kennara.“

Ragnar segir að reglulega þurfi að fara í átak til að bjarga íslenskunni og nú sé aftur komið að því. „Við erum eins og landnemar í nýjum heimi þessarar stafrænu tækni. Við vitum að landnám er dálítið subbulegt og ómarkvisst og hefur alltaf verið það. En þegar landnáminu er að mestu lokið þá þarf að fara að byggja upp nýtt íslenskt stafrænt þjóðveldi. Það er okkar verkefni á næstu árum.“

Hlusta má á viðtalið í heild með því að smella á spilarann að ofan.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV