Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þarf meira fé í Brothættar byggðir

21.11.2015 - 19:09
Formaður Byggðarráðs Skagafjarðar segir það vonbrigði að Hofsós hafi ekki verið tekið inn í Brothættar byggðir þrátt fyrir að uppfylla öll skilyrði. Níu af þeim tólf byggðarlögum sem sóttu um að vera tekin inn í verkefnið var hafnað.Hann vill að meira fjármagni verði veitt í verkefnið.

Byrjaði sem tilraunaverkefni árið 2012
Verkefnið Brothættar byggðir byrjaði sem tilraunaverkefni á vegum Byggðastofnunnar á fjórum stöðum á landinu árið 2012. Á síðasta ári var svo auglýst eftir umsóknum í verkefnið. Færri sveitarfélög komust að en vildu en markmiðið með verkefninu er að styðja við byggðarlög sem hafa átt undir högg að sækja með því að virkja íbúana í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, sveitarfélögin og fleiri.

Hrísey, Grímsey og Kópasker voru samþykkt
12 byggðarlög sóttu um að vera tekin inn í verkefnið Brothættar byggðir. Þrjú þeirra voru samþykkt það voru Hrísey, Grímsey og Kópasker. Hofsós var eitt þeirra verkefni sem var ekki samþykkt og Stefán Vagn Stefánsson, formaður Byggðaráðs Skagafjarðar, segir það mikil vonbrigði.

„Auðvitað er það þannig í þessum verkefnum að það þarf að forgangsraða við gerum okkur grein fyrir því. Hinsvegar er það þannig að eftir því sem ég veit best að þá uppfyllti Hofsós allar þær kríteríur til þess að falla undir þetta verkefni og gagnrýni okkar hefur snúið að stóru leyti að því að við höfum óskað eftir því að fá meira fjármagn inn í þetta, inn í þetta verkefni inn í Byggðastofnun þannig að stofnunin henni sé fært að sinna þessu verkefni sómasamlega.“

250 miljónir til ársins 2017
Byggðastofnun fær 50 miljónir á ári til verkefnisins, þar til árið 2017, og fer sá peningur fyrst og fremst í að kosta stöðugildi verkefnastjóra. [Grafík endar] Stór hluti af verkefninu felst í að halda reglulega íbúafundi og virkja íbúana í að styrkja stöðu samfélagsins. Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar segir að stofnunin noti ákveðna mælikvarða til að meta stöðu þeirra byggðarlaga sem sækja um.

Við horfum þar til lýðfræðilegra þátta íbúaþróunar í sveitarfélögunum, við horfum til staðsetningar, fjarlægðar frá öðrum vinnusóknarsvæðum og hvernig menn eru staðsettir, við horfum líka til styrks viðkomandi sveitarfélaga til að taka á þessum málum.

Vonast til að snúa við neikvæðri þróun
Bæði Hrísey og Grímsey voru tekin inní verkefnið í sumar. Forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar, Matthías Rögnvaldsson, segist vonast til þess með ráðiningu verkefnastjóra verði markvisst hægt að spyrna við fótum í neikvæðri þróun þessara byggðarlaga.

Það þarf að einblína á málin það þýðir ekkert bara að kíkja á þetta annað slagið. Það þarf að hafa einhvern aðila sem hefur bara það eitt verkefni að vinna í því að tryggja að þarna sé byggð og að það sé verið að efla byggðina en ekki að draga úr byggð og þjónustu.

Aðalsteinn segir heilmikin árangur vera af verkefninu.

Það er í raun margt sem hefur áunnist, ekki síst bara meiri virkni íbúanna í samfélögunum. Dæmi um allskonar smáhluti eins og samtök eldri borgara á Raufarhöfn, fuglarannsóknamiðstöð þar, mikil virkni í gamla frystihúsinu á Breiðdalsvík.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV