Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þarf ekki að bíða lengi eftir svörum

29.11.2013 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Enn hvílir leynd yfir tillögum tveggja sérfræðingahópa um skuldaniðurfærslu. Áður hefur þó komið fram að farin verði blönduð leið beinna niðurfellinga og skattaafsláttar. Tillögurnar verða kynntar þingflokkum stjórnarflokkanna á morgun og því næst á blaðamannafundi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skrapp af ríkisstjórnarfundi í morgun í óundirbúinn fyrirspurnatíma á Alþingi en hélt síðan aftur á ríkisstjórnarfund. 

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi að á sama tíma og fé vantar í ríkisreksturinn virðist vera til 90 til 130 milljarðar til að lækka skuldir heimilanna. Guðmundur sagðist því vilja spyrja eins og barn.„Hvaðan koma peningarnir?“

Sigmundur Davíð svaraði því að ekki væri hægt að leggja að jöfnu svigrúmið sem þurfi að myndast við uppgjör föllnu bankanna og það fjármagn sem varið í bein útgjöld ríkisins. Svigrúm myndist með því að draga úr fjármagni í umferð, þannig verði hægt aflétta gjaldeyrishöftum. „Og þegar verið er að hleypa loftið úr eignabólunni er eðlilegt að hleypa um leið lofti úr skuldabólunni. Allt snýst þetta um að taka úr umferð fjármagn sem ekki er innistæða fyrir. slíkt fjármagn er ekki hægt að nota til að kaupa vörur og þjónustu.“

Guðmundur gaf ekki mikið fyrir svarið, sagðist vera ljúga ef hann segðist skilja þetta svar og ekki ætlaði hann að ljúga. Hann sagði að þar sem engar viðræður væru við kröfuhafa grunaði hann að fjármagna ætti aðgerðirnar með skattlagningu á þrotabú föllnu baknanna.

Sigmundur svaraði því til að kynning á tillögunum væri væntanleg. „Svoleiðis að hæstvirtur þingmaður þarf ekki að bíða lengi eftir svörum.“