Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þarf að loka ef ekki fæst þriggja fasa rafmagn

16.09.2016 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Ung hjón sem keyptu jörð á Austfjörðum og hófu þar matvælaframleiðslu gætu þurft að hætta við allt saman því ekkert þriggja fasa rafmagn er í sveitinni. Öll raftæki til framleiðslunnar eru gerð fyrir slíkt rafmagn.

Fyrir tveimur árum keyptu Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler jörðina Karlsstaði í Berufirði. Þangað komu þau með ýmsar hugmyndir í farteskinu.

Tækin ónothæf í sveitinni

Meðal annars ætluðu þau að flytja með sér verksmiðju sem þau eiga í Reykjavík þar sem framleiddar eru grænmtisbulsur. „Og þá áttuðum við okkur fljótlega á því að flest, ef ekki öll, tæki í matvælaframleiðslu eru gerð fyrir þriggja fasa rafmagn og þar af leiðandi algerlega ónothæf í því umhverfi sem er hér á landsbyggðinni,“ segir Svavar.

Verða að fá þriggja fasa rafmagn

Það er semsagt einfasa rafmagn á bæjum í sveitinni og það sama á við um fjölmargar sveitalínur um allt land. Svavar segir að sumum tækjum sé hægt að breyta fyrir einfasa rafmagn, en það fari illa með tækin og sé því engin lausn. „Við erum að framleiða snakk úr gulrófum og grænkáli og erum með þurrkofn sem við erum búin að umbreyta frá einum fasa yfir í þrjá. En það eru ákveðnir vankantar á þeirri framkvæmd og við getum í rauninni ekki stækkað þá framleiðslu meira.“

Skrifaði stjórnvöldum og krafðist svara

Hann hefur nú ritað ráðherrum og alþingismönnum bréf og spurt hvenær hann megi eiga von á þriggja fasa rafmagni. „Ég held í raun að það sé ekkert í gangi í þessum málum. RARIK er að hugsa um eitthvað allt annað en þetta og dreifikerfið hérna um sveitina er algerlega úrelt. Skilaboðin eru í rauninni: Vertu bara einhvers staðar annars staðar,“ segir Svavar.
 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV