„Þarf að fara óhefðbundnar leiðir“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Þarf að fara óhefðbundnar leiðir“

06.11.2019 - 10:57
Badmintonspilarinn Kári Gunnarsson á í harðri baráttu við að komast inn á Ólympíuleikana í Tókýó næsta sumar. Til þess þarf hann að safna stigum inn á heimslista og það er kostnaðarsamt að sækja mót um allan heim til að sækja þau stig. Kári fer óhefðbundnar leiðir og hefur nú hafið hópfjármögnun sem skilar honum vonandi til Tókýó. Kári var í spjalli við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun.

„Maður þarf að fara svolítið óhefðbundnar leiðir með þetta og mér datt í hug að þetta gæti verið svolítið skemmtileg leið. Líka til að fá smá athygli á það sem ég hef verið að gera,“ sagði Kári spurður út í hópfjármögnunina í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Kári stefnir að því að safna tveimur milljónum íslenskra króna og hefur þegar náð 11% af þeirri upphæð í gegnum vefsíðuna gofundme.com. „Ég veit ekki alveg hvernig svona söfnun á að fara af stað. En það hefur allavega einhver peningur safnast,“ sagði Kári sem telur þó ágætt að vera kominn upp í 11% á tveimur dögum.

Aðeins Broddi oftar orðið meistari í einliðaleik karla

Kári sem hefur orðið Íslandsmeistari í einliðaleik karla í badminton síðustu átta ár, eða alveg frá árinu 2012. Aðeins Broddi Kristjánsson hefur oftar orðið Íslandsmeistari í einliðaleik karla eða 14 sinnum. Broddi og Árni Þór Hallgrímsson kepptu í einliðaleik og saman í tvíliðaleik á Ólympíuleikunum´i Barcelona 1992. Elsa Nielsen keppti í einliðaleik kvenna líka 1992 og í Atlanta 1996 og þá keppti Ragna Ingólfsdóttir í einliðaleik kvenna á leikunum í Peking 2008 og í London 2012. Kári stefnir nú ótrauður á að vera fimmti Íslendingurinn til að keppa í badminton á Ólympíuleikum.

„Þetta er náttúrulega stærsti íþróttaviðburður heims og mörgum dreymir um að komast á Ólympíuleika. Í badminton er það hæsta sem maður getur komist er að keppa á Ólympíuleikum,“ sagði Kári við Morgunútvarpið í morgun sem ræddi við hann í síma, en Kári er og hefur lengi verið búsettur í Danmörku. Hefðin fyrir badmintoniðkunn er mikil í Danmörku og nokkrir Danir verið meðal þeirra bestu í heiminum á síðustu árum.

Enginn sem greiðir laun mánaðarlega

Til að komast á Ólympíuleikana þarf Kári að halda áfram að safna stigum inn á heimslistann. Hann þarf því að keppa á alþjóðlegum mótum víða um heim sem er kostnaðarsamt og þeir afreksstyrkir sem í boði eru hafa verið fullnýttir. „Já, þetta er náttúrulega svolítið hark hvað peninga varðar. En fyrst og fremst er maður í þessu vegna ástríðu og þar sem þetta gefur manni svo mikið á margan annan hátt. En það greiðir mér enginn föst laun mánaðarlega. Þannig ég þarf að treysta á þá styrki sem ég fæ frá Badmintonsambandinu og frá ÍSÍ og félögunum. Svo þarf ég bara að vera duglegur sjálfur að safna inn fé frá fyrirtækjum og gera samninga við þau. Það er eitthvað sem maður þarf alltaf að vera að hugsa um líka. Það gerir þetta auðvitað svolítið erfðara að maður þurfi að vera að standa í þessu í stað þess að geta einbeitt sér að íþróttinni,“ sagði Kári.

Hlusta má á spjall Morgunútvarpsins við Kára í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.