Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Þar til annað okkar stendur uppi“

01.09.2015 - 14:13
Mynd: rúv / rúv
„Ég get ekki séð að mikið hafi breyst. Það er alla vega ekki mín reynsla,“ segir Ásdís Hrönn Viðarsdóttir. Hún hefur í á þriðja ár setið undir hótunum og ónæði frá hendi manns sem hún bjó með í nokkra mánuði árið 2010. Ítrekað aðgerðarleysi og handvömm lögreglu hafa skaðað mál hennar.

Rætt verður við Ásdísi í Kastljósi í kvöld. Reynsla hennar er keimlík sögu Kamilu Modzelewska sem fjallað var um í Kastljósi í gær. Ofsóknirnar gegn Ásdísi standa enn.

Rúman mánuð tók fyrir lögreglu að fá nálgunarbann á manninn sem dæmdur hafði verið fyrir fjölda brota gegn henni. Það voru ekki fyrstu mistökin sem lögregla gerði í máli hennar. Hótanirnar sem dunið hafa á Ásdísi þennan rúma mánuð skipta hundruðum.

„Hann ætlar ekki að hætta fyrr en annað okkar stendur uppi. Hann segir það bara beint út,“ segir Ásdísi í viðtalinu.

Flúði út á land

Tvö áru eru síðan Ásdís tók ákvörðun um að flytja með tvö börn sín frá Reykjavík til Þórshafnar, til að þess að reyna að losna undan hótunum og áreiti manns sem hún hafði slitið sambandi við nokkru fyrr. Í það tæpa ár sem samband þeirra stóð, beitti maðurinn Ásdísi margoft alvarlegu ofbeldi.

Hátt í þúsund brot

Hótanir mannsins og ónæði minnkuðu ekki við flutninga hennar norður. Maðurinn hélt uppi linnulausum hótunum í garð Ásdísar og setti sig jafnframt í samband við fjölda bæjarbúa, með símtölum og í gegnum tölvusamskipti. Sveitarstjórinn á staðnum sá sérstaka ástæðu til að senda bréf til bæjarbúa og vara við manninum. Sett var nálgunarbann á manninn en það hafði lítil áhrif, jafnvel þótt Ásdís kærði og tilkynnti jafnharðan hátt í eitt þúsund brot hans á nálgunarbanninu þá sex mánuði sem það var í gildi.  

Röð mistaka

Erlendur Eysteinsson var dæmdur fyrir ofbeldisbrot, blygðunarsemisbrot, hótanir, ærumeiðingar og nálægt því eitt þúsund brot á nálgunarbanni í júlí. Það var í annað sinn sem brot hans á nálgunarbanni fóru fyrir dóm. Mistök höfðu orðið til þess að fyrri dómi héraðsdóms var vísað aftur heim í hérað. Í þann rúma mánuð sem leið frá því dómur féll í sumar og þar til Kastljós ræddi við Ásdísi hafði Erlendur sent Ásdísi á þriðja hundrað skilaboð; auk þess sem hann hafði ónáðað fjölskyldu hennar og vini á sama hátt. Mörg skilaboðanna innihalda beinar hótanir. 

 Sjá má brot úr viðtalinu við Ásdísi í spilaranum hér að ofan.