Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Þak á lyfjakostnað

04.06.2011 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Fólk mun ekki þurfa að greiða meira en tæpar 65 þúsund krónur á ári fyrir lyf, verði frumvarp um það að lögum. Stefnt er að því að lögin taki gildi í október. Gert er ráð fyrir að fólk greiði að fullu fyrir lyf, án aðstoðar Sjúkratrygginga, þar til kostnaðurinn hefur náð 22.500 krónum á tólf mánaða tímabili.

Síðan greiði fólk aðeins 15% af lyfjaverðinu og Sjúkratryggingar 85%, þar til upphæðin hefur náð 90.000 krónum. Eftir það greiði fólk sjálft 7,5%. Þegar fólk hefur greitt samtals tæpar 65 þúsund krónur á tímabilinu, greiðir það ekki meira fyrir lyf og ríkið greiðir allt, að því gefnu að fólk fái lyfjaskírteini.

Hjá börnum, atvinnulausum og elli- og örorkulífeyrisþegum er þakið lægra og greiðir fólk þá sjálft fyrstu fimmtán þúsund krónurnar af lyfjaverði. Þá er ekkert greitt eftir að viðkomandi hefur samtals greitt fjörutíu og fimm þúsund krónu svo fremi sem gefið verði út lyfjaskírteini.

Gert er ráð fyrir að ráða þurfi fleira starfsfólk til Sjúkratrygginga en ljóst að álagið þar mun aukast til muna því væntanlega þarf að gefa út tvö lyfjaskírteini á ári á um eitt hundruð þúsund manna hóp.

Nú þegar er hægt að finna í lyfjagagnagrunninum upplýsingar um það hverjir greiða mest fyrir lyfin og væri því hægt að gefa út afsláttarskírteini á þann hóp og sleppa þessi kostnaðarsömu breytingu.