Þagnarsveipurinn sunginn í burtu

Mynd: Anna Karen Skúladóttir / Anna Karen Skúladóttir

Þagnarsveipurinn sunginn í burtu

21.10.2017 - 12:00

Höfundar

Silence er fyrsta plata tónlistarkonunnar Silju Rósar. Innihaldið einlægar og heiðarlegar smíðar þar sem þjóðlagakennt, djassskotið og ballöðukennt popprokk er burðarvirkið. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ég hef verið ánægður með útgáfugleðina hjá ungum tónlistarkonum að undanförnu og hér er ég sérstaklega með í huga þrjá listakonur sem allar gáfu út fyrstu plötur sínar rétt skriðnar yfir tvítugt eða þar um bil. Ég er að tala um þær stöllur Unni Söru Eldjárn, Rebekku Sif og Silju Rós, sem hér er til umfjöllunar. Tengdar eru þær vináttuböndum, eiga sameiginlegt að hafa gengið tónlistarmenntaveginn en það sem er mikilvægast, hafa allar látið vaða í það að gefa út heila plötu með eigin efni – óhikað og dirfskulega. Þessi framtakssemi er lofsverð, allar eru þær fremur óþekktar (Unnur reyndar orðin að nafni, enda kom plata hennar út fyrir tveimur árum) en eiga það sameiginlegt að kýla bara á það og bera eigin lagasmíðar á borð fyrir hvern þann sem hlýða vill. Allar gefa þær þá sjálfar út og þarf dágóðan skammt af nennu og sjálfstrausti til að standa í slíku stappi.  

Góður hljómur

Allar þessar plötur eiga það sammerkt að vera afskaplega vel hljómandi, auk hljóðfæraleiks sem er í hæstu hæðum. Plöturnar hljóma meira eins og önnur eða þriðja platan, fremur en að þetta séu frumburðir. Hljóðfæraleikarar sem kom við sögu á þessari tilteknu plötu eru annars þau Arnór Sigurðarson, Magnús Orri Dagsson, Baldur Kristjánsson, Grétar Örn Axelsson, Jakob Gunnarsson, Helgi Reyr Guðmundsson og Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir. Fyrrnefndar Unnur og Rebekka syngja þá bakraddir í völdum lögum. Arnór sá þá jafnframt um upptökur og hljóðblöndun.

Tónlistinni hér mætti lýsa sem nokkurs konar popprokki, með dassi af þjóðlagatónlist og djassi. Ástin í sínum margvíslegu myndum ku liggja til grundvallar textum sem eru oft tilfinningaþrungnir og ástríðufullir. Þetta er að langmestu leyti vel heppnað verk, í því einhver heiðarlegur, fölskvalaus þráður sem er nokk heillandi. Það er fyrst og síðast Silju að þakka, sem stendur keik með því sem hún er að gera. Maður einfaldlega finnur það. Á svona frumburðum fer fólk oft langt á spilagleði og það sem gerir plötuna jafnframt er fagmennskan í hljómi sem og flutningi. Það er helst að lagasmíðarnar sem slíkar standi fólki fyrir þrifum þegar það er að taka fyrstu skrefin og þessi plata er ekkert undanskilin þeim eðlilega ágalla. Platan opnar björt og brosandi, „You, Me and Summer“ er eins og nafnið gefur til kynna, valhoppandi söngur helgaður sumrinu og vel heppnaður þannig bragur. Næsta lag, „Loving You“, er hins vegar ekki á sama kalíber og gengur illa upp, fremur gleymanleg smíð. Í þriðja lagi tekur hins vegar allt annað við. Því lagi, sem er titillagið „Silence“, er stýrt af þungri undiröldu og gengur fullkomlega upp. Dramatískt, ríkulega sungið og sogar mann að sér. Frábært lag. Líkt er með „Never going to be“, vel uppbyggt og útsett lag og við erum á svipuðum harmaslóðum. Flottar bakraddirnar sem liggja á bakvið meginröddina og hljómagangurinn er næstum proggaður, lagið fer í hinar og þessar áttir en heldur samt þræði einhvern veginn. Aftur, frábært lag!

Sterkt

Þannig rúllar svo restin, með lög sem eru á ansi háum staðli í bland við hefðbundnara rúll. „Did You Know?“ er mjög sterk ballaða, fylgir „Never going to be“ (og aftur, snilldarbakraddir hjá Unni Söru) á meðan „Easy“ er t.d. full auðvelt (afsakið kímnina). Ef ég dreg þetta saman, nokkuð sterk frumraun hjá Silju, þar sem aðlaðandi heildarára og fagmannleg hljóð- og hljóðfæravinna vegur upp á móti öllum þeim hnökrum sem eru í lagasmíðadeildinni, sem þó eru ekki nema eðlilegir á þessu stigi málsins. Vel gert.