Þagnarskylda hafin yfir landslög

21.08.2010 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, segir að prestar eigi ekki að tilkynna um kynferðisbrot gegn börnum komi þær upplýsingar fram í trúnaðarviðtali við skjólstæðing. Annað hvort verði þagnarskylda presta að vera alger eða engin.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um kynferðisbrot innan kirkjunnar. Lögfræðingur á Barnaverndarstofu sagði í viðtali við RÚV nýverið að öllum þeim, sem gruni að brotið hafi verið gegn barni, beri skylda til að tilkynna slíkt til barnaverndarnefnda. Þagnarskylda presta gangi ekki framar þessari skyldu.

Sr. Geir Waage er ekki sammála þessu. Prestar eigi ekki að tilkynna það sem komi fram í trúnaðarviðtölum við skjólstæðinga. Þagnarskyldan verði að vera alger eða engin. Allt sem prestur verði áheyrandi að við skriftir heyri hann í Kristsstað og presturinn sé bundinn algerri þagnarskyldu um það.

Geir segir að þetta eigi líka við játi menn að hafa brotið kynferðislega gegn börnum sínum.  Presturinn brýni fyrir mönnum iðrun og yfirbót. „Presturinn geti í krafti þess sem hann verði áskynja við skriftir eignast aðkomu að málum til að hjálpa þeim sem brotið hafi verið gegn án þess að hann komi þar með upp um það sem hann verði áskynja við skriftir.“   Þagnarskyldan hafi alla tíð verið hafin yfir landslög og dómafordæmi séu til um það.

Geir bendir á að í harðstjórnarríkjum á borð við Sovétríkin sálugu hafi yfirvöld haft kröfu um að vitneskju um allt. Úti um allan heim hafi prestar verið barðir og píndir til að fá fram upplýsingar sem fram hafi komið við skriftir.

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, skrifaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann bendir á að siðareglur kirkjunnar kveði skýrt á um upplýsingaskylduna. Hann segist ætla að láta aðra um að draga ályktanir af skrifum biskups, þar sem hann hafi ekki lesið greinina.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi