Þær finnast líka í tannkremi

Mynd með færslu
 Mynd:

Þær finnast líka í tannkremi

28.10.2013 - 14:35
Plastruslið í höfunum eykst ár frá ári og þegar rætt er um þann vanda beinist athyglin fyrst og fremst að umfangsmiklum plastumbúðum hvers konar. En plastið sem við sjáum er bara hluti af þessu öllu saman. Í alls kyns efnaiðnaði eins og snyrtivörum, eru notaðar plastagnir. Til dæmis í tannkremi.

Stefán Gíslason fjallar um þetta smágerða plast í Sjónmáli í dag.

Sjónmál  mánudaginn 28. október 2013

----------------------------------------------------------------  

Pistill Stefáns

Plastruslið í höfunum eykst ár frá ári. Margir hafa heyrt talað um
stóra plastflákann úti á miðju Kyrrahafi, og svipaðir flákar eru líka á
Atlantshafi og Indlandshafi, þó að minna hafi farið fyrir þeim í umræðunni.
Plastið er þegar farið að hafa margvísleg áhrif á dýralíf, og ef svo heldur sem
horfir á ástandið bara eftir að versna. Eitt af því sem oftast er nefnt í þessu
sambandi eru plastpokarnir sem við tökum gjarnan með okkur heim úr búðinni, en
vandamálið er miklu stærra en svo að herferð gegn plastpokum dugi ein og sér
til að leysa það. Plastið sem við sjáum er bara hluti af þessu öllu saman.
Plast sem við sjáum ekki getur líka gert heilmikinn óskunda.

Allt þetta plast á augljóslega uppruna sinn í athöfnum okkar mannanna.
Þess vegna er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvað við getum gert til að koma í veg fyrir að plast sleppi út í
náttúruna, hvort sem um er að ræða plastpoka eða ósýnilegar plastagnir. Til að
hjálpa fólki í þessu mikilvæga verkefni birtu sænsku náttúruverndarsamtökin
Naturskyddsföreningen á dögunum 10 góð ráð fyrir þá sem vilja berjast gegn
vaxandi plastmengun 

Fyrsta heilræðið frá Naturskyddsföreningen snýst ekki um plastpoka,
heldur um plastagnir sem leynast í venjulegum baðherbergisskápum. Fæst okkar hafa líklega gert sér
grein fyrir því að slíkar agnir leynast í ýmsum snyrtivörum sem flest okkar nota gagnrýnislaust.
Þannig leynast plastagnir oft í svoköllum skrúbbkremum, tannkremi sem gerir
tennurnar hvítar og fleiri svipuðum vörum, jafnvel í möskurum, svitalyktareyðum
og varasalva. Þetta plast á greiða leið niður um niðurfallið í sturtunni eða í
vaskinum að notkun lokinni og flækist síðan um hafið árum, áratugum eða jafnvel
öldum saman, þar sem það berst auðveldlega inn í lífkeðjuna með
ófyrirsjáanlegum og lítt þekktum afleiðingum. Naturskyddsföreningen hvetur fólk
til að berjast gegn þessum ögnum, einfaldlega með því að kaupa ekki vörur sem
innihalda þær. En valið er ekki alltaf auðvelt, þó að oftast ætti að vera hægt
að sjá á innihaldslýsingunni hvort plastögnum hafi verið bætt í vöruna. Slíkar
vörur eru gjarnan markaðssettar með orðum á borð við Microspheres, Micro-beads,
Balls, Beads eða Microcrystals. Ef orðin „poly“ eða „polýetýlen“ eða
skammstöfunin „PE“ koma fyrir í innihaldslýsingunni, þá inniheldur varan
sennilega plastagnir. Þeir sem eiga snjallsíma geta hlaðið niður splunkunýju
„appi“ sem hjálpar til við leitina að plastagnalausum snyrtivörum. „Appið“
heitir „Beatthemicrobead“ – og það er meðal annars hægt að nálgast á síðunum
beatthemicrobead.org og Plasticsoupfoundation.org.
Ef stafsetningin vefst fyrir manni er þjóðráð að slá orðið „plasticsoup“ inn í Google.

Í framhaldi af þessu fannst mér náttúrulega við hæfi að leita að
snyrtivörum með plastögnum heima hjá mér. „Appið“ dugði reyndar skammt, því að
vörurnar sem ég skoðaði voru ekki komnar inn í gagnagrunninn sem „appið“ styðst
við. Með því að rýna í innihaldslýsingar fann ég þó tvennt; annars vegar gamla
tannkremstúpu með „míkrókristöllum“ og hins vegar einhvers konar svitastifti
með pólýetýleni. Þessar vörur innihalda líklega plastagnir. Allt þetta plastdót er óþarft, því að auðvelt er
að nota kristalla af öðru tagi sem gera sama gagn, til dæmis sykurkorn eða
malaðar kaffibaunir. Munurinn á þessu tvennu er sá að sykurkorn og kaffibaunir
brotna auðveldlega niður í náttúrunni en plastkristallarnir ekki.

Heilræði númer tvö frá Naturskyddsföreningen er að þvo í hófi.
Plastagnir úr flís og öðrum gerviefnum geta nefnilega auðveldlega skolast út
með þvottavatninu. Stundum má fækka þvottunum með því að viðra föt og strjúka
af þeim bletti með votri tusku.

Þriðja heilræðið er einfaldlega að hirða plastruslið upp eftir sig.
Þetta vita náttúrulega allir,en samt er greinilegt að sumir muna ekki alltaf eftir því.
Annars sæi maður ekki plastrusl út um allt.

Fjórða heilræðið er að hirða upp rusl eftir aðra þegar maður er í skapi til þess. Þetta er náttúrulega
skítadjobb, en einhver verður að gera það, eða hvað?

Fimmta heilræðið er að skipta um fríholt utan á bátum áður en þau byrja
að ganga úr sér. Þetta heilræði er jafnvel enn mikilvægara í Svíþjóð en á
Íslandi, því að Svíar eiga hvorki meira né minna en 600.000 skemmtibáta ef
marka má hefti með umhverfisfróðleik fyrir bátaeigendur, sem Norræna
ráðherranefndin gaf út árið 2005. Plastagnir geta auðveldlega losnað úr fríholtum
sem hengd eru utan á báta til að verja þá við bryggju, sérstaklega þegar þau
eru farin að slitna. En ekki eru öll fríholt úr plasti. Þau eru margvísleg og
geta sem best verið gerð úr öðrum efnum.

Sjötta heilræðið frá Naturskyddsföreningen er að „nörda sig inn í málið“ eins og heilræðið hljómar í lauslegri
íslenskri þýðingu. Það hjálpar auðvitað til að sem flestir kynni sér þessi mál
sem best.

Ég ætla að gleyma að minnast á heilræði númer 7 og 8, því að þau snúast
fyrst og fremst um starfsemi Naturskyddsföreningen og eiga því takmarkað erindi
við hlustendur Sjónmáls. Níunda heilræðið er hins vegar að dreifa heimildarmyndinni
Midway sem víðast, en þessa mynd, sem
frumsýnd var fyrir rúmum mánuði, gerði Chris Jordan til að sýna áhrif
plastruslsins í Kyrrahafinu á lífríkið við eyjuna Midway, mitt á milli
meginlanda Norður Ameríku og Asíu. Hægt er að „nörda sig inn í þetta“, svo við grípum aftur til þessa orðalags, á
síðunni midwayfilm.com.

Tíunda og síðasta heilræðið er að draga úr innkaupum, því að þar ræðst
náttúrulega hversu mikið af óþörfu plasti við drögum inn á heimilin. Og þá er
líka gott að hafa í huga að málið snýst ekki bara um plastið sem fer frá okkur
út í náttúruna, heldur líka um öll hráefnin sem notuð eru í þetta plast. Alla
jafna þarf til dæmis tvö kíló af olíu til að framleiða eitt kíló af plasti.
Áður en við kaupum eitthvað ættum við því alltaf
að spyrja okkur sjálf þeirrar spurningar hvort við þurfum þetta virkilega.

Þegar við kaupum inn koma plastpokarnir auðvitað við sögu, en ekki
síður allt hitt sem búið er að nefna, þar með taldar plastagnirnar í
snyrtivörunum. Þess vegna er upplagt að ná sér í „plastagnaappið“ fyrir næstu
ferð í búðina, apótekið eða snyrtistofuna. Nú, og ef „appið“ virkar ekki, þá er
upplagt að spyrja næsta starfsmann hvort þessi eða hin varan sé ekki örugglega
laus við plastagnir. Slíkar spurningar koma kannski flatt upp á þann sem heyrir
þær í fyrsta sinn, en hver spurning, þótt lítil sé, ýtir undir það að málið
komist í umræðuna. Því fleiri sem „nörda
sig inn í þetta
“, því betra.