Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Það verður manngerð þoka, full af eiturefnum“

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd
Sævar Helgi Bragason lýsti því yfir á Twitter í fyrradag að banna ætti almenna notkun flugelda á Íslandi vegna reyk- og rykmengunar, sóðaskaps og hávaðamengunar. Upp hófust heitar umræður og óhætt er að segja að fólk hafi ekki verið á einu máli um þessa uppástungu Sævars.

„Þetta átti bara að vera svona lítið saklaust nöldurtíst, en það er ástæða fyrir nöldrinu og líka veigamikil rök,“ segir Sævar Helgi, sem ætti að vera flestum kunnugur eftir að hafa frætt fólk um stjörnufræði, sólkerfið, alheiminn og geimferðir í fjölmiðlum undanfarin ár. Hann segir margt fólk sammála því að ónæði sé af flugeldunum; sprengingar um miðjar nætur vikurnar fyrir og eftir áramót, vekja fólk, börn og gæludýr af værum blundi. „Það er bara hinn argasti dónaskapur finnst mér,“ segir Sævar í Mannlega þættinum. Sævar, sem átti hund, segir að þessir dagar hafi verið mjög erfiðir fyrir gæludýrið sem þorði ekki einu sinni út að pissa fyrir sprengjum og látum.

Lagði 50 þúsund inn á Landsbjörg

Verst af öllu segir Sævar þó mengunina. Flugeldarnir geti vissulega verið fallegir, en kostnaðurinn sem kemur á móti sé mikill. Hann segir að við verðum að endurskoða afstöðu okkar því þetta sé ekki gott fyrir umhverfið og í rauninni ekki nógu góð leið fyrir björgunarsveitir til að fjármagna starfsemi sína, að það sé ekki til fyrirmyndar að slysavarnafélög séu að selja flugelda. Hann segir að fólk geti styrkt þessi félög með beinum framlögum í staðinn, eins og hann til dæmis gerði:

Ég tók mig til, þegar ég var að gagnrýna þetta, og lagði inn fimmtíu þúsund krónur til styrktar Landsbjörg.

Hann segist þannig hafa í staðinn lagt sitt af mörkum til að draga úr mengun, sóun, dreifingu þungmálma og ryki - sem fer upp í lofthjúpinn og síðan út í umhverfið. Þessi efni enda svo í vatninu, í æti lífvera og brotna ekki svo auðveldlega niður í náttúrunni. Þannig fari þau inn í lífríkið sem við nærumst á og geti að lokum haft hættuleg áhrif á fólk.

Meiri mengun en af eldgosi

„Þegar svifryk í umhverfi okkar fer yfir 50 milligrömm á rúmmetra þá er það talið skaðlegt heilsunni og fólk sem er með til dæmis öndunarerfiðleika er hvatt til að halda sig innandyra. En þegar mest er um áramótin þá mælist svifrykið um 2000 milligrömm á rúmmetra, sem getur verið lífshættulegt fyrir fólk sem þjáist af öndunarerfiðleikum.“

Sævar segir að það sé útlit fyrir stillt veður á gamlársdag og það séu verstu veðurskilyrði sem hugsast geta, með tilliti til mengunar því henni blæs ekki burt. Að auki verður kalt loft næst jörðinni sem veldur því að mengunin helst á staðnum mun lengur en ella og við slíkar aðstæður sitji rykið kyrrt og byrgi fólki sýn á herlegheitin. „Og þessu kemur svo fólk til með að anda að sér í einstaklega miklu magni,“ segir Sævar. 

Hann tekur sem dæmi að ef það yrði eldgos nálægt höfuðborgarsvæðinu og gosmökkur lægi yfir borginni kæmi það fólki á óvart hversu mikil mengun fylgdi - en mengunin væri samt minni en sú sem mannfólkið býr til sjálft á gamlárskvöld. „Þetta eru eins og náttúruhamfarir í nágrenni Reykjavíkur.“

Sævar segir að við þurfum að hugsa betur um náttúruna og það sem við gerum því það hefur áhrif á allt lífríkið, annars súpum við seyðið af því seinna. Sævar hefur búið í Svíþjóð og hann segir að þar sé haldið upp á áramótin á annan hátt, nýja árinu sé auðvitað fagnað og fólk skáli, en þar séu ekki allar þessar sprengingar og að í sumum löndum sé þetta alveg bannað. 

Sævar segir einnig að aðstæður þeirra sem vinna við flugeldaframleiðslu séu víða ansi bágbornar og jafnvel sé lítið um reglugerðir sem vernda heilsu þess fólks og réttindi. Svipaða sögu sé vissulega að segja úr öðrum brönsum, eins og fataiðnaði og tækniiðnaði, en að í tilviki flugeldanna séum við viljandi að setja skaðleg efni út í umhverfið.

Styrkja frekar þessi samtök beint 

Sævar hvetur því landsmenn til að kaupa ekki flugelda, en frekar leggja andvirðið beint inn á samtök eins og hjálparsveitir eða Landsbjörg; „Þá myndu þau fá allan peninginn óskiptan til sín og þurfa ekki að borga virðisaukaskatt, aðflutningsgjöld og framleiðslukostnað á flugeldunum.“ Í framhaldi af því leggur hann til að þessi samtök gætu boðið upp á veglegar flugeldasýningar fyrir landsmenn um áramótin, því mengun af þeim yrði ekki nema brotabrot af því sem nú er. 

Það verður manngerð þoka, full af eiturefnum, því miður og við ættum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr því, en skemmta okkur í leiðinni á ábyrgan hátt.

Sævar nefnir að auki að áfengisneysla og meðferð flugelda sé ekki góð blanda. „Ég hef því miður séð, á minni stuttu ævi, séð fólk sem er engan veginn í stakk búið til að skjóta flugeldum á loft, dauðadrukkið nánast, vera að fikta við einhverjar tertur og stundum hefur mjög litlu mátt muna að það verði alvarlegt slys.“

Kom á óvart hversu margir voru honum sammála

Þegar hann lýsti þessari skoðun sinni á Twitter var hann viss um að hann fengi yfir sig holskeflu athugasemda frá fólki sem yrði honum ósammála, en það kom honum á óvart að hann fékk nánast eingöngu viðbrögð frá fólki sem var honum hjartanlega sammála. Þetta kom honum ánægjulega á óvart.

Viðtalið við Sævar má hlusta á í heild í spilaranum hér fyrir ofan.

ghansson's picture
Gunnar Hansson
dagskrárgerðarmaður
ghansson's picture
Gunnar Hansson
dagskrárgerðarmaður