Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Það þarf að byrja strax

04.11.2016 - 10:40
Mynd: Marja Flick-Buijs / RGBStock
Stefán Gíslason fjallar í nýjasta pistli sínum um umhverfismál um þau verkefni sem ný ríkisstjórn þarf nauðsynlega að takast á við.

 

Það kom fram í viðtali við Björk Guðmundsdóttur á dögunum að hún væri algjörlega í sjokki yfir því hversu lítið hefði verið rætt um umhverfismál í aðdraganda nýafstaðinna Alþingiskosninga. Og hún bætti því að að eftir 10 ár muni „ekkert af þessu sem verið var að tala um skipta neinu máli“. Það væri vissulega gaman að geta sagt að þetta væri óþarfa neikvæðni eða svartsýni, en að sama skapi er mjög leiðinlegt að þurfa að viðurkenna að þetta er líklega nákvæmlega rétt greining á stöðunni. Það verður sem sagt að teljast mjög líklegt að fátt af því sem um var rætt í kosningabaráttunni muni skipta máli eftir 10 ár.

 

Sjálfsagt eru hér um bil allir sammála um að umhverfismál séu mikilvæg og að þau þurfi að fá sitt vægi í stjórnmálaumræðunni, svona við hliðina á öllum hinum málunum, sérstaklega þegar aðstæður í þjóðfélaginu séu þokkalegar og menn hafi ráðrúm til að sinna þessum málaflokki. Þannig sé staðan náttúrulega núna og því sé rétt að fara að huga að þessum málum. Vandinn er bara sá að nú virðumst við, allir íbúarnir í heimsþorpinu, vera komin á þann stað í lífinu að ekki dugi lengur að stilla umhverfismálum upp við hliðina á öllum hinum málunum. Öll hin málin byggja nefnilega á því að umhverfismálin séu í lagi. Umhverfismálin eru, við nánari skoðun, ekki eitt af mörgum herbergjum á fyrstu hæðinni í húsinu okkar. Þau eru sökkullinn sem húsið stendur á.

 

Það vill stundum gleymast að náttúran og sú þjónusta sem hún veitir er undirstaða mannlífsins. Stærstur hluti þessarar þjónustu er þess eðlis að ef náttúran hættir að veita hana getum við ekki keypt hana neins staðar annars staðar, jafnvel þótt hagvöxtur síðustu ára hafi verið svo og svo mikill, og jafnvel þótt kaupmáttur ráðstöfunartekna eða kaupgeta Íslendinga í útlöndum hafi kannski aldrei verið meiri. Hvar ætlum við til dæmis að kaupa þá þjónustu sem lofthjúpur jarðar veitir okkur þegar þessi ágæti hjúpur er hættur að anna eftirspurn? Ætlum við að kaupa hana á netinu?

 

Hver er nú aftur þessi þjónusta sem lofthjúpur jarðar veitir okkur? Jú, hún felst meðal annars í því að halda á okkur hita, það er að segja hæfilegum hita, hita sem er hvorki of lítill né of mikill. Þetta fína jafnvægi í hitastillingu byggir á því að í lofthjúpnum er aragrúi sameinda sem gleypir í sig ljós af mismunandi bylgjulengd. Þess vegna stöðvast þar ýmsir misæskilegir geislar sem annars myndu ná til jarðar og að sama skapi stöðvast þar hluti af hitageisluninni sem jörðin myndi annars endurvarpa ótrufluð út í geiminn og standa helköld eftir. Við eigum allt okkar undir því að lofthjúpurinn haldi áfram að veita þessa þjónustu – og þar má litlu skeika, því að við erum afskaplega viðkvæm fyrir hitabreytingum. Og í lofthjúpnum verða  líka til veðrakerfi sem breytast eftir því sem aðstæður í lofthjúpnum breytast. Og við erum líka afskaplega viðkvæm fyrir veðurbreytingum.

 

Auk þess að halda á okkur hæfilegum hita og stjórna veðrinu, að hluta til með hjálp annarra afla, sér lofthjúpurinn okkur fyrir lofti til innöndunar og tekur við lofti sem frá okkur kemur, bæði frá okkur sjálfum og þeim tólum og tækjum sem við notum til að bæta líf okkar. Lofthjúpurinn er sem sagt eitt allsherjar hitajöfnunar-, þrýstingsjöfnunar-, loftræsti- og mengunarvarnarkerfi, sem á engan sinn líka. Þessa þjónustu getum við ekki keypt annars staðar, hvað sem öllum útreikningum á hagvexti og kaupmáttaraukningu líður.

 

Við minnum börnin okkar stundum á að mjólkin komi ekki bara úr fernum úr búðinni, heldur komi hún úr kúnum. En við sem fullorðin erum, gleymum því samt stundum sjálf að við erum algjörlega háð náttúrunni með alla okkar fæðu, hvort sem það er mjólk, korn, lambakjöt, súkkulaði, kaffi eða vín. Vissulega getum við keypt þetta allt fyrir peninga, en allt á þetta samt uppruna sinn í náttúrunni og hvergi annars staðar. Peningarnir sem við borgum með eru bara tilbúið fyrirbæri sem við notum til að jafna reikninginn okkar á milli. Að vísu er þessi reikningur ekki sérstaklega jafn, en það er svo sem önnur saga. Það sem upp úr stendur er að náttúran leggur til, alveg ókeypis, jarðveg fyrir nytjaplöntur að vaxa í, sólarljós, vatn og steinefni til að plönturnar fái þrifist, skjól fyrir veðri og vindum, og svo mætti lengi telja.

 

Svona hefur þetta vissulega alltaf verið. Vandinn sem við stöndum hins vegar frammi fyrir einmitt núna, þar með talið í aðdraganda nýafstaðinna kosninga, í dag, og í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem í hönd fara, er sá að við, allir íbúarnir í heimsþorpinu, erum komin á þann stað í lífinu að vera búin að þrengja svo að náttúrunni að hún er hætt að anna eftirspurn, ekki bara eftirspurn eftir hitatemprun og hreinu lofti, heldur jafnvel líka eftir súkkulaði, kaffi og víni. Það er með öðrum orðum ekki lengur hægt að líta á umhverfismálin sem eitt af mörgum herbergjum á fyrstu hæðinni í húsinu okkar. Við verðum að skilja að þau eru sökkullinn sem húsið stendur á.

 

Sjokkið yfir því hversu lítið var rætt um umhverfismál í aðdraganda nýafstaðinna þingkosninga er að vissu leyti að baki. Alla vega eru þingkosningarnar að baki. Nú er bara spurning hvort að sjokkið endurtaki sig þegar kemur að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Mun þessi nýja ríkisstjórn hafa skilning á þessu með herbergin og sökkulinn, eða á að halda áfram að sjá til og sinna umhverfismálum bara á degi umhverfisins, á degi íslenskrar náttúru og kannski 17. júní? Það er gott að vera búinn að fullgilda Parísarsamkomulagið, en það er eftir að fylgja því eftir. Það er ekki nóg að setja sér markmið fyrir árið 2030 og bíða svo bara eftir að þau uppfylli sig sjálf. Það eru vel að merkja ekki nema rúm 13 ár þangað til 1. janúar 2030 rennur upp bjartur og fagur, eða hvernig sem sá ágæti dagur annars verður. Okkur finnst ekkert voðalega langt síðan 2003. Það eru líka 13 ár.

 

Það er of seint að byrja að vinna fyrir alvöru í loftslagsmálum í desember 2029. Það þarf að byrja strax. Eða, jújú, vissulega er margt byrjað, en okkur vantar heildarsýnina. Það er ekki nóg að gera bara það sem við erum góð í, eða það sem kostar nógu litla peninga. Það er til dæmis ekki nóg að setja nokkra tugi milljóna í innviði fyrir rafbíla og búa til hvata til að einhverjir velji að aka um á svoleiðis farartækjum. Það þarf líka að gera hinum farartækjunum erfiðara fyrir og jafnvel að velta fyrir sér hvort allur þessi akstur sé yfirleitt nauðsynlegur eða verjandi. Það er ekki nóg að verðlauna það sem vel er gert, það þarf líka að refsa fyrir hitt. Hagkerfið á meira að segja fullt af tækjum sem auðvelt er að beita í þessa veru í miklu ríkari mæli en gert hefur verið, það er að segja tæki á borð við kolefnisgjöld og önnur umhverfisgjöld, sem í þokkabót er hægt að nota til að fjármagna aðgerðir til að flýta þróuninni. Vilji er allt sem þarf, eins og einhvern tímann var sagt.

 

Í komandi stjórnarmyndunarviðræðum væri upplagt að láta þau mál hafa forgang sem helst stuðla að því að við fáum notið þjónustu náttúrunnar um langa framtíð, en láta þau mál frekar sitja á hakanum sem munu hvort sem er ekki skipta neinu máli eftir 10 ár.

 

bjornthor's picture
Björn Þór Sigbjörnsson
dagskrárgerðarmaður