Það sem skoppast upp úr sálarkirnunni

Mynd: Magnús Örn Sigurðsson / Magnús Örn Sigurðsson

Það sem skoppast upp úr sálarkirnunni

19.03.2015 - 15:21

Höfundar

Í segulbandasafni Ríkisútvarpsins má finna viðtal Steinunnar Sigurðardóttur við rithöfundinn Málfríði Einarsdóttur frá árinu 1978, ári eftir að fyrsta bók hennar Samastaður í tilverunni var gefin út, Málfríður þá 78 ára. Hlýða má á viðtalið hér að ofan.

Bókin sló í gegn á sínum tíma og spurð að því hvaða áhrif það hafi haft á hana svaraði hún: „Einkennilega lítil, ég hef aldrei trúað því að hún hafi verið góð — hvernig stendur á því? Allir eru að segja mér þetta og ég hef aldrei getað sannað það fyrir sjálfri mér. En það var nú dálítið gaman af því samt.“

Bókmenntaverk sem á sér fáar hliðstæður
Eitt hið sérstæða við Samastað í tilverunni er að verkið geymir texta sem Málfríður skrifaði á um þrjátíu ára tímabili og blöðunum er ekki endilega raðað í tímaröð í verkinu. Bókin var upphaflega gefin út af útgáfunni Ljóðhús sem skáldið Sigfús Daðason stýrði og segir svo í formála Guðbergs Bergsonar í nýjustu útgáfu bókarinnar frá 2008: „Svo einn góðan veðurdag kom Sigfús Daðason af himnum sendur með konunni sinni  í stofuna, sá Málfríði liggja á dívaninum og hirti upp blöðin. Ég held hann hafi gert það öllum íslenskum skáldkonum til heiðurs. Svei-mér-þá! Þannig bjó hann Málfríði meira en lítinn samastað í tilveru íslenskra bókmennta.“

Verkið Samastaður í tilverunni verður rætt í þættinum Bók vikunnar á Rás 1 á laugardaginn kl. 10.15. Gestir þáttarins verða Guðmundur Andri Thorsson og Kristín Svava Tómasdóttir.