Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Það munar um milljónirnar frá útgerðinni

05.09.2018 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Útgerðarfyrirtæki verja hundruðum milljóna, ef ekki milljörðum, í styrki til samfélagsmála á ári hverju. Erfitt er að segja til um nákvæmar upphæðir. Án framlaga félaganna væri menningar- og íþróttalíf í sjávarþorpum líklega fátæklegra og heilbrigðisstofnanir verr tækjum búnar. Vopnfirðingar færu ekki frítt í ræktina og flugvöllurinn á Norðfirði væri kannski ekki með spánnýtt slitlag. Sums staðar gleðja styrkirnir, annars staðar veldur meintur skortur á þeim gremju.

Íþróttir, líknarmál og björgunarsveitir

Spegillinn kannaði styrkveitingar nokkurra útgerðarfyrirtækja. Öll fyrirtækin sem Spegillinn hafði samband við verja milljónum króna í styrki til samfélagsmála á hverju ári. Erfitt er að segja til um nákvæmar upphæðir þar sem ekki er víst að fyrirtækin leggi öll sama skilning í hugtakið samfélagsmál. Spurt var um stofnanir, félög, fyrirtæki eða verkefni sem fyrirtækin styrktu.

Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að leggja upp úr því að styðja við sitt nærsamfélag - og telja að með því sýni þau samfélagslega ábyrgð. 
Þá virðast þau leggja mesta áherslu á að styðja við íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga, björgunarsveitir og líknarstarf. Sum taka þátt í söfnunum ef einhver veikist. 

Umgjörðin misjöfn

Misjafnt er hversu formleg umgjörð er um styrkveitingarnar. Sums staðar eru skýrar reglur um úthlutun, jafnvel starfandi styrkjanefnd, annars staðar virðist þetta lausara í reipunum. Styrkbeiðnir sem hverju fyrirtæki berast skipta hundruðum. Sum veita einungis styrki á grundvelli beiðna, önnur eiga stundum frumkvæði að styrkveitingum sjálf, veita til dæmis styrki á grundvelli ábendinga frá starfsmönnum.   

Tugmilljarða hagnaður hjá fjórum stærstu

Fjögur stærstu útgerðarfélög landsins högnuðust um 21 milljarð í fyrra. Hagnaður Samherja var tvöfalt meiri en hinna þriggja til samans. Hagnaður af rekstri fyrirtækisins nam 14,4 milljörðum króna og á aðalfundi var ákveðið að greiða 1,2 milljarða í arð til hluthafa. HB Grandi hagnaðist um þrjá milljarða og Síldarvinnslan um tæpa þrjá. Þá hagnaðist Vinnslustöðin um rúman milljarð. Hagnaður tveggja síðastnefndu fyrirtækjanna lækkaði um nær þriðjung milli ára og forstjóri Samherja sagði í fréttum í gær að rekstrarumhverfið væri krefjandi um þessar mundir. Í stóra samhenginu eru upphæðir styrkja sem fyrirtækin veita kannski ekki háar en félög og stofnanir á landsbyggðinni getur þó munað um þær. 

Flugeldar, stólalyfta og spjaldtölvur á elliheimili

Samherji er með um 6,3% heildarkvótans samkvæmt Fiskistofu og rekur landvinnslu á Akureyri og á Dalvík. Fyrirtækið og starfsmenn þess greiddu 5,1 milljarð í skatt í fyrra en fyrirtækið greiðir líka til samfélagsins með öðrum hætti. Fyrirtækið hefur til dæmis stutt við hátíðahöld í tilefni Fiskidagsins mikla á Dalvík, kostað stórtónleika og flugeldasýningu. Í svari Samherja við fyrirspurn Spegilsins kemur fram að styrkir til samfélagsmála hafi numið allt að hundrað milljónum á ári undanfarin ár. Fjölmargir hafi fengið styrki í gegnum árin en fyrst og fremst hafi styrkir verið veittir til íþrótta- og æskulýðsstarfs. Styrkþegar í þeim flokki skipti tugum ef ekki hundruðum. Sumir eru á föstum fjárlögum, ef svo má segja, þannig er til dæmis virkur styrktarsamningur við Íþróttasamband fatlaðra. Þá hafa verið veittir stórir styrkir til einstakra verkefna. Í fyrra gerði styrkur frá Samherjia Vinum Hliðarfalls til dæmis kleift að kaupa notaða stólalyftu frá Austurríki.

En hvers vegna veitir Samherji styrki? Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorsteinn Már segir gleðilegt að félagið hafi burði til að láta fé af hendi rakna til góðra málefna.

„Að sjálfsögðu skiptir nærsamfélagið okkur máli og við höfum búið það vel að við höfum getað gert þetta. Við höfum verið að styrkja félög þar sem sjálfboðastarf fer mikið fram, á tímabili einbeittum við okkur mikið að barna og unglingastarfi í íþróttum og öðru líka, starfi kirkjunnar og svo framvegis. Í þessu starfi eru sjálfboðaliðar, fólk sem situr saman við borðið óháð stjórnmálaskoðunum og efnahag, við höfum viljað létta þeim starfið og gefa fleiri börnum og unglingum tækifæri til að taka þátt í þessu, ferðakostnaður er hár frá Eyjafjarðarsvæðinu og suður, það þarf að sækja íþróttamót og annað þangað og við vildum til dæmis styðja þetta. Okkur hefur verið það ánægja og ég held það hafi bara komið sér vel.“ 

Þorsteinn segir Samherja ekki hafa neinn hag af þessum styrkveitingum. En telur hann hætt við því að félög og stofnanir verði of háð framlögum fyrirtækisins? „Nei, ég kannski hugsa þetta bara frá degi til dags, þegar gengið hefur vel höfum við gert þetta. Eins þegar við komumst að því að nettengingar væru ekki til staðar á dvalarheimili aldraðra, þá fórum við og styrktum þá í það, gríðarlega skemmtilegt verkefni, keyptum nokkra Ipada. Ég held það hafi komið fólki til góða.“

Fiskinet.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Ótal styrkbeiðnir berast útgerðarfyrirtækjum á ári hverju.

Það eru eigendur Samherja og stjórn sem taka ákvarðanir um styrkveitingar og allur gangur á því hvort Samherji hefur fumkvæði að þeim eða styrkþegar sækja um. Í svari félagsins við fyrirspurn Spegilsins kemur fram að það hafi ekki tölu á fjölda styrkbeiðna. 

Allir fá frítt í ræktina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - HB Grandi á Vopnafirði
HB Grandi er burðarás í atvinnulífinu.

Vindum okkur þá til Vopnafjarðar þar sem HB Grandi, kvótahæsta fyrirtæki landsins samkvæmt skráningu Fiskistofu, rekur botnfisksvinnslu. 

Skjöldur utan á leiktæki á lóð leikskólans á Vopnafirði bendir til þess að fyrirtækið hafi þar látið eitthvað af hendi rakna. Leiktækið er merkt HB Granda og segir forsvarsmaður leikskólans að fyrirtækið hafi styrkt skólann til leiktækjakaupa þegar ný viðbygging var tekin í notkun fyrir nokkrum árum síðan.

Jónas Guðbjörnsson, fjármálastjóri HB Granda, skýtur á að félagið veiti styrki fyrir 50 til 60 milljónir á ári. Á Vopnafirði og Akranesi, þar sem fyrirtækið er í ráðandi stöðu, er lögð áhersla á að efla innviði samfélagsins og styrkja knattspyrnufélög og björgunarsveitir. Í Reykjavík er áherslan svolítið öðruvísi, en HB Grandi er stór styrktaraðili Sjóminjasafnsins. Beiðnir berast félaginu í gegnum heimasíðu þess og styrkjanefnd tekur þær til umfjöllunar. 

Baldur Kjartansson, skrifstofustjóri hjá Vopnafjarðarhreppi, segir HB Granda styrkja menningarstarf í bænum. Sveitarfélagið fái árlega framlag til að útdeila til hvers konar menningarverkefna. HB Grandi lætur sig líka heilsu starfsmanna og íbúa sveitarfélagsins varða, þeir geta sótt líkamsræktarstöðina í íþróttahúsinu sér að kostnaðarlausu. Baldur segir að þetta samstarfsverkefni HB Granda og sveitarfélagsins treysti rekstrargrundvöll líkamsræktarinnar. Áður hafi verið seld aðgangskort í ræktina en íþróttahúsið fái nú mánaðarleg framlög frá HB Granda.

Baldur segir HB Granda burðarás í atvinnulífi sveitarfélagsins og að ímynd fyrirtækisins á Vopnafirði sé góð og hann telur fyrirtækið hafa jákvæða reynslu af sveitarfélaginu. Hann segir styrkina frá fyrirtækinu hafa jákvæð áhrif en telur fólk ekki reiða sig sérstaklega á þá. Þá segir hann fyrirtækið ekki hafa beitt þeim til að skapa þrýsting eða velvilja. Íbúar væru ekkert hræddir við að bregðast við, kæmi eitthvað upp á hjá fyrirtækinu. 

Leggur sig fram við að rækta tengslin 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Maack - HB Grandi
Norðurgarður.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, þar sem HB Grandi er með starfsemi segir það hafa stutt við íþrótta- og menningarstarf þar. Grandi hafi greitt fimm milljónir á móti bænum til að koma upp nýju hljóð- og sýningarkerfi í Bíóhöllinni, það sé sennilega stærsta framlagið. Þá hafi fyrirtækið styrkt hátíðahöld vegna sjómannadagsins með 200 þúsund króna framlagi síðustu þrjú ár. Guðmundur Sigvaldason, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Leynis á Akranesi, hefur fengið styrki frá HB Granda árum saman. „Styrkir sem golfklúbburinn er að fá eru í kringum 200 þúsund á ári,“ útskýrir Guðmundur. Hann er þakklátur fyrir þennan styrk og leggur sig fram við að rækta sambandið við fyrirtækið.

Rekstur klúbbsins er að mestu fjármagnaður með árgjöldum frá félagsmanna en styrkir frá fyrirtækjum standa undir um tíu til tólf prósentum af heildarrekstrartekjum. Hann stefnir að því að hækka þetta hlutfall, það sé mikilvægt til að treysta grundvöll rekstursins, enda hafi rigningarsumarið haft neikvæð áhrif. Afstaða Guðmundar til styrkveitinga endurspeglar afstöðu margra sem Spegillinn hefur rætt við, honum finnst eðlilegt að fyrirtækin styðji við nærsamfélagið og segir það skipta sérstaklega miklu máli úti á landi.

Golfvöllurinn þiggur þó ekki bara, það eru gerðir samstarfssamningar. „Þeir ganga út á það að það eru einhver vöruskipti í kringum svona samninga og við eigum auðvelt með það. Þá halda fyrirtækin boðsmót fyrir sitt starfsfólk eða sína viðskiptavini.“

Hann segir landslagið í þessum styrkveitingum hafa breyst, bæði í kjölfar hrunsins og eftir að HB Grandi minnkaði við sig á Akranesi. Kostnaðarvitund stjórnenda og áherslur hafi breyst og upphæðir til samfélagslegra verkefna lækkað. Speglinum skilst að meira muni um styrki annarra fyrirtækja á þessu svæði, svo sem Norðuráls.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Síldarvinnslan veitir tugmilljóna styrki.

Síldarvinnslan er þriðja kvótahæsta útgerðarfyrirtækið, fyrirtækið starfrækir fiskiðjuver í Neskaupstað og rekur þrjár fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur í Neskaupstað, Helguvík og á Seyðisfirði. Gunnþór Ingvarsson, framkvæmdastjóri, svaraði spurningum Spegilsins. Hann segir vinnsluna leitast við að styðja málefni sem séu til þess fallin að auka lífsgæði og styrkja samfélögin þar sem fyrirtækið er með starfsemi. Hann segir að í fyrra hafi heildarupphæð styrkja numið 67 milljónum. Þar af hafi stuðningur við íþróttafélögin numið 12 milljónum, 16 milljónir farið í menningartengda starfsemi, 11,4 milljónir í heilbrigðismál, rúmar fimm í menntamál og röskar 22 í annað. 
 
Stærsta einstaka verkefnið sem Síldarvinnslan styrkti var endurbygging Norðfjarðarflugvallar, lagt var bundið slitlag á völlinn meðal annars til þess að gera sjúkraflug öruggara og styðja þar með grundvöll Fjórðungssjúkrahússins og auka öryggi íbúa Austurlands. Þá fóru sjö milljónir til kaupa á hjartaómskoðunartæki fyrir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað.

Átta milljónr fóru til uppbyggingar Lunga-skólans á Seyðisfirði en áður hafði félagið gefið skólanum gömlu netagerðina undir starfsemi sína.

Mynd með færslu
 Mynd: Síldarvinnslan
Gunnþór Ingvarsson.

Þórður Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar, segir sveitarfélagið heppið, sjávarútvegsfyrirtæki í sveitarfélaginu séu viljug til að láta fé af hendi rakna til samfélagslegra verkefna og styrkir frá þeim geti stundum ráðið úrslitum í rekstri félaga. 

Um sex þúsund krónur á íbúa

Þá vestur á firði. Oddi á Patreksfirði er í 31. sæti yfir félög með stærstu aflahlutdeildina. Fyrirtækið ver árlega 6-7 milljónum til samfélagsmála á sunnanverðum Vestfjörðum, um fimm til sex þúsund krónum á hvern íbúa. Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri, segir Odda hafa styrkt íþróttafélög, Lions-hreyfinguna, kvenfélög, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og kvikmyndahátíðina Skjaldborg, svo dæmi séu nefnd. Einstakir styrkir eru misháir að sögn Skjaldar, frá 50 þúsund krónum upp í 500 þúsund. Dæmi eru um að langtímaverkefni fái árlega styrki, skíðafélagið fái slíkan styrk, veittur hafi verið styrkur til samgöngumála á milli svæða á sunnanverðum Vestfjörðum og styrkur til íþróttafélaganna á svæðinu svo þau getið haldið úti íþróttafulltrúa. 

Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður Vesturbyggð sjávarútvegur fystihús fiskvinnsla atvinna höfnin bryggja bátar bátur skip
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Við höfnina á Patreksfirði.

Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir að fyrirtækið bregðist vel við styrkbeiðnum. Það hafi til dæmis stutt ýmis verkefni á vegum grunnskólans. Þá er það eitt nokkurra sem gerir krökkum á Bíldudal og Tálknafirði kleift að sækja æfingar til Patreksfjarðar. Hún segir þessa styrki litna jákvæðum augum, þeir liðki fyrir ýmsu en séu ekki þannig að þeir ráði úrslitum um neitt eða skapi þrýsting á sveitarfélagið, sveitarfélagið gæti til dæmis haldið úti íþróttafulltrúa þó þeirra nyti ekki við. 

WOW Cyclothon, löggur og grunnskóli

Styrkveitingar Vísis í Grindavík hafa síðastliðin ár numið um 20 til 25 milljónum á ári. Síðastliðin ár hafa styrkirnir allajafna numið á milli 150 til 250 þúsund króna. Hæsti styrkurinn síðastliðin þrjú ár nam 8,5 milljónum. Knattspyrnudeild Grindavíkur, Körfuknattleiksdeild Grindavíkur, Golfklúbbur Grindavíkur og björgunarsveitin Þorbjörn fá fasta styrki samkæmt samningi. Yfir hundrað félög, stofnanir eða viðburðir hafa fengið styrki frá Vísi undanfarin þrjú ár, þar má t.d. nefna Alzheimer-félagið, Dýrafjarðardaga, Félag lögreglumanna, Karlakór Keflavíkur, Grunnskóla Grindavíkur og Wow Cyclothon.

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Saltfiskur.

Minni fjárhæðum, undir 100 þúsund krónum, er úthlutað af mannauðsstjóra samkvæmt stefnu félagsins en ákvarðanir um hærri styrkveitingar eru teknar í samráði við framkvæmdastjóra. Styrkir yfir einni milljón fara fyrir stjórn félagsins.

Knatthús, hjartaþræðingar og ráðstefnuferðir

Útgerðarfyrirtækin styrkja stundum innviðauppbyggingu í sveitarfélögum eða leggja fé til tækjakaupa í skólum eða á sjúkrastofnunum. Þarna kemur fjármagn frá þeim í staðinn fyrir eða til viðbótar við fjármagn frá hinu opinbera.

Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Samherji vill styðja við hjartaþræðingar með 35 milljóna framlagi.

Dæmi um veglegan innviðastyrk sem hefur verið nefnt í eyru Spegilsins, er knatthúsið Báran sem Skinney Þinganes gaf sveitarfélaginu Hornarfirði og var tilbúið árið 2012. Forsvarsmenn Skinneyjar Þinganess vildu ekki svara spurningum Spegilsins, í svari þeirra segir að fyrirtækið hafi ekki veitt upplýsingar um styrkveitingar og svo verði áfram.

Opinberar stofnanir hafa notið framlaga Samherja, þannig hefur fyritækið styrkt Sjúkrahúsið og Verkmenntaskólann á Akureyri. Þegar nýju skipi Samherja var gefið nafnið Björg EA í vor færði Samherji sjúkrahúsinu tíu milljónir króna til hægt verði að koma upp hjartaþræðingu á spítalanum, eins og stefnt er að í framtíðarsýn hans. Milljónunum tíu fylgdi vilyrði um að fyrirtækið myndi gefa 25 milljónir til viðbótar þegar hjartaþræðingartækin verða pöntuð. Í framtíðarsýn spítalans er hjartaþræðing nefnd ásamt fleiri atriðum, svo sem því að koma fjarheilbrigðisþjónustu í fremstu röð. En hefur loforð Samherja áhrif á forgangsröðun sjúkrahússins? Nei, segir Bjarni Jónasson forstjóri, spítalinn haldi bara sínu striki og starfi í þágu íbúa. Hann segir að það muni um alla styrki, sama hvaðan þeir komi og bendir á að löng hefð sé fyrir því að fyrirtæki og einstaklingar styrki starfsemi heilbrigðisstofnana, fólk vilji styrkja sitt samfélag og tækjakostur þessara stofnana væri annar hefði slíkra styrkja ekki notið við. 

Í svari Vísis í Grindavík segir að erfitt sé að segja til um hvort fyrirtækið styrki eitthvað sem hið opinbera ætti að fjármagna, stundum berist beiðnir um styrki til handa opinberum starfsmönnum, til dæmis ferðum lögreglumanna á ráðstefnur eða til kaupa á tæki fyrir Landspítalann.

Forsvarsmaður útgerðarfélags sem Spegilinn ræddi við sagði félagið styðja óbeint við sjúkrastofnanir í gegnum líknarfélög, hann segir fínt að styðja við æskulýðsstarf en setur spurningarmerki við það að útgerðarfyrirtæki kaupi skjávarpa í skóla.

Styrkir styrkja búsetu

Gunnþór Ingvarsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir ljóst að sum þeirra verkefna sem Síldarvinnslan styrkir ættu að vera á hendi ríkisins, til dæmis uppbygging á tækjabúnaði Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað og endurbygging Norðfjarðarflugvallar. Heimamönnum finnist sinn hlutur skertur þegar kemur að sjúkrahúsinu, því taki Vinnslan og spítalinn saman höndum með þessum hætti. Hann nefnir að Síldarvinnslan hafi hag af því að styrkja nærsamfélagið, þetta séu allt verkefni sem styrki búsetu á svæðum þar sem fyrirtækið er með starfsemi.

Gunnþór nefnir þarna ástæðu fyrir styrkveitingunum. Fyrirtækið þarf starfsfólk og hefur hag af því að fólk vilji búa þar sem það er með starfsemi. Fleiri ástæður hafa verið nefndar í eyru Spegilsins. Forsvarsmaður útgerðarfélags sem Spegillinn ræddi við sagði að að hluta gerðu fyrirtæki þetta til að gefa til baka til samfélagsins, þau væru ekki endilega að auglýsa sig eða eltast við velvild. Að einhverju leyti séu styrkirnir þó markaðstæki og að hluta til tengdist þetta svo háttalagi annarra útgerðarfyrirtækja, þau veiti flest styrki og það skapi þrýsting á önnur að gera hið sama. Hann segir samfélagslega ábyrgð fyrst og fremst snúast um að sjá til þess að fyrirtekið geti rekið sig, það skipti mestu en þessi fyrirtæki hafi líka í gegnum tíðina gert eitthvað fyrir samfélagið, eitthvað sem ekki er skylda. 

Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda á Patreksfirði, telur að sum verkefni væru ekki framkvæmanleg nema með stuðningi útgerðarinnar. Í sjávarþorpum hafi styrkþegar ekki í mörg hús að venda og gjarnan litið á það sem skyldu sjávarútvegsfyrirtækjanna að styðja við góð málefni.

Hinir fá hærri styrki

Fyrirtækjunum ber vissulega engin lagaleg skylda til að veita styrki eða styðja við innviðauppbyggingu þar sem þau eru með starfsemi en sumum finnst nánast að þeim beri siðferðisleg skylda til þess.

Mynd með færslu
 Mynd: Langanesbyggð - RÚV
Grunnskólinn á Þórshöfn.

Spegillinn ræddi við íbúa á Þórshöfn. Sveitarfélagið stendur í kostnaðarsamri uppbyggingu og endurbótum á skólahúsnæði. Ísfélag Vestmannaeyja, áttunda kvótahæsta félagið, samkvæmt Fiskistofu, er fyrirferðarmikið í bænum og íbúinn segir að mörgum finnist að fyrirtækið hefði mátt láta eitthvað af hendi rakna til að styðja við innviðauppbygginguna enda þurfi starfsfólk þess að nýta grunnþjónustuna. Þetta sé þó alltaf matsatriði, einhverjum finnist fyrirtækið gera nóg með því að styðja til dæmis knattspyrnufélagið og þakka fyrir að það haldi uppi atvinnustigi á svæðinu, aðrir telji að það geti í ljósi stærðar gert meira. Íbúinn segir allt annað uppi á teningnum í Neskaupstað, frá Síldarvinnslunni flæði peningar til samfélagsins. Hann nefnir líka framlag HB Granda á Vopnafirði. Gjafmildi einstakra útgerðarfyrirtækja geti haft mikil áhrif á byggðarlög.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV