Það mátti ekki ræða þetta

Mynd: Rokkur Friggjar / Rokkur Friggjar

Það mátti ekki ræða þetta

13.06.2018 - 16:25

Höfundar

Ástandssaga frá nýju sjónarhorni er væntanleg á fjalir Gaflaraleikhússins í Hafnarfirði. Leikverkið fjallar um ástarsamband tveggja karlmanna, íslensks sveitapilts og bresks hermanns.

Í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði æfir íslensk-breski leikhópurinn Rokkur Friggjar nýtt verk. Verkið heitir Forget-Me-Nots eða Gleym-mér-Eyjar og gerist í Hvalfirði árið 1940. Leikritið er ástandssaga frá nýju sjónarhorni og sýnir ástarsamband milli tveggja karlmanna.

„Auðvitað eru samkynhneigðir strákar á þessum tíma líka, þeir urðu ekki til allt í einu árið 1990. Þannig að það er þessi hlið, það hljóta að hafa verið strákar sem hafa séð alla þessu myndarlegu hermenn koma til landsins, sem boðuðu eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Sara Líf Magnúsdóttir listrænn stjórnandi sýningarinnar.

Þessi hlið ástandsins hefur fengið litla sem enga umfjöllun, og hefur leikhópurinn lagt sig fram um að gera sína eigin rannsóknarvinnu meðfram æfingum.

Í gegnum þá vinnu  komust þau í samband við fulltrúa frá breska hernum, en herinn hefur sýnt verkinu mikinn áhuga og bauð þeim að koma á Edinborgarhátíðina á sínum vegum.

Sýningin hefur þegar vakið mikla athygli á Bretlandseyjum þar sem hópnum hefur einnig verið boðið að sýna í hinu sögufræga Charterhouse, í eina hásætissalnum utan Westminster í London. Þar sýna þau fyrir bræðraregluna sem í húsinu býr.

Sara Líf Magnúsdóttir listrænn stjórnandi sýningarinnar ræddi um sýninguna í Mannlega þættinum á Rás 1.