Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Það liggur lífið á að koma þessu í lag“

Mynd: Mannlegi þátturinn / RÚV
Ísland hefur undanfarið dregist aftur úr öðrum löndum á Regnbogakortinu sem mælir lagaleg réttindi hinsegin fólks í Evrópu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir mál hinsegin fólks hafi þess vegna verið sett í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Svandís var gestur Mannlega þáttarins ásamt Hönnu Katrínu Friðriksson sem segir það mjög brýnt að bæta stöðu intersex fólks með lagasetningu. og Hanna Katrín Friðriksson , sem situr á þingi fyrir Viðreisn, ræddu málefni intersex fólks og mögulega lagasetningu í Mannlega þættinum á Rás 1.

Í stjórnarsáttmálanum

Hinsegin málefni voru í fyrsta sinn til umfjöllunar í stjórnarsáttmála Íslands árið 2017 með sérstaka áherslu á réttindi intersex fólks. „Við erum með sérstök lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda sem gengu í gildi árið 2012, en við höfum enga löggjöf sem tekur sérstaklega á intersex fólki eða þeim málefnum,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Fulltrúar Samtakanna '78 hafi komið á síðasta ári á fund þingmanna og bent á að Ísland væri að dragast aftur úr á hinu svokallaða Regnbogakorti, sem sýnir lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks í Evrópu. Svandís tók málið inn á sitt borð, sem þingmaður, og ætlaði hún að fá aðkomu allra flokka til þess að laga stöðu hinsegin fólks. Hún segir að það hafi verið samstaða þvert á alla flokka um þessi mál á því þingi en svo hafi stjórnin fallið áður en málið náði fram að ganga.

Vill ná þverpólitískri samstöðu

Vegna þess hvaða stöðu málið var komið í fyrir stjórnaslitin í fyrra hafi núverandi ríkisstjórnarflokkum þótt eðlilegt að færa málið inn í stjórnarsáttmálann. „En mér finnst eftir sem áður að þetta mál þurfi að vera borið uppi þverpólitískt, eðli málsins samkvæmt. Vegna þess að Ísland vill vera framarlega í þessum málaflokki og þetta á ekki að snúast um stjórn og stjórnarandstöðu á hverjum tíma,“ segir Svandís.

Hún segir að málið verði lagt fram sem ríkisstjórnarfrumvarp með öllu því ferli sem því fylgir og þeim tíma sem það tekur. Hún segir að réttindamál intersex fólks séu hluti af þessu frumvarpi, ásamt fleiri réttindamálum hinsegin fólks. Hún segir að á síðast þingi hafi legið fyrir vilji allra þingflokka um að vera með í flutningi málsins og að hún muni leita eftir því að fá þá aftur með sér í lið þegar kemur að því að leggja frumvarpið fram á þessu þingi.

Hefur áhyggjur af löngu ferli

Hanna Katrín fagnar því að ríkisstjórnin ætli að halda áfram með frumvarp um réttindi hinsegin fólks og að Svandís ætli sér að ná þverpólítíska samstöðu um það og segist ætla að leggja sitt af mörkum til að ná því í gegn. Hún segir að það sé þó alltaf áhætta, þegar það á að taka svona marga þætti í einu til breytinga. Hún hefur áhyggjur af því að þetta taki langan tíma, sérstaklega hvað varðar málefni intersex fólks eftir að hún fór á ráðstefnuna um þarsíðustu helgi: „Það liggur lífið á að koma þessu í lag.“

Hanna Katrín segir að umræðan um málefni intersex fólks, og um þær aðgerðir sem hafa verið framkvæmdar á börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, sé svo til ný af nálinni: „Þarna liggur eiginlega togstreitan. Það er annars vegar læknisfræðilegt álitamál; Hvað er nauðsynlegt læknisfræðilegt inngrip og hvenær eiga læknarnir einir að hafa um það að segja? Og [hins vegar] hvenær foreldrar, svo ég tala nú ekki um þau börn sem um ræðir?“ Hún segist velta því fyrir sér hvort það borgi sig að búta þetta mál niður, til þess að geta tekið til dæmis málefni intersex fólks hraðar fyrir, því umræðan um þau mál sé svo sláandi.

Erfitt að fá upplýsingar

Mannlegi þátturinn leitaði til Landlæknisembættisins eftir upplýsingum, eftir viðtölin við Kitty Anderson hjá Intersex Íslands og Maríu Helgu Guðmundsdóttur formann Samtakanna '78, en fékk þau svör að hjá embættinu væri engin sérfræðileg þekking til staðar um málefni intersex fólks. Landlæknir benti þáttastjórnanda á að hafa samband við yfirlækni á Barnaspítala Hringsins vegna aðkomu heilbrigðiskerfisins að málum intersex fólks, en sá læknir vildi ekki tjá sig um málið. „Ég er í rauninni alveg jafn svaralaus í því og aðrir,“ segir Svandís, „þetta endurspeglar að hluta til hversu ný þessi umræða er. Bara árið 2012 þegar við héldum að við værum að uppfæra íslensku löggjöfina til einhvers nútíma, og töluðum um „fólk með kynáttunarvanda. Á árinu 2018 er þetta fráleitt orðalag. Þetta sýnir okkur hvað þetta er allt að gerast hratt.“ 

Ofarlega á blaði

„Í mínum huga er þetta mjög ofarlega á blaði, mér finnst þetta skipta gríðarlega miklu máli. Þetta eru svo mikil mannréttindamál, þó að það sé fyrir lítinn hóp. Fyrir þann hóp skiptir þetta öllu og þá eigum við að taka þann slag,“ segir Svandís.

Viðtalið við Svandísi og Hönnu Katrínu er í spilaranum hér fyrir ofan.