Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Það gæti verið betra milli okkar Sigmundar“

16.12.2016 - 09:43
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Framsóknarflokkurinn fagnar í dag 100 ára afmæli. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins segir að samband hans og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns, gæti verið betra. Hann vonast til að Sigmundur fari að taka þátt í þingstörfunum.

Afmæli flokksins verður fagnað með ýmsum hætti um allt land yfir helgina. Sigmundur Davíð hefur til að mynda boðið til hátíðarhalda í sínu kjördæmi til að fagna tímamótunum.

Sigurður Ingi tók  við embætti forsætisráðherra í vor eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér í kjölfar Panama-málsins. Sigurður Ingi sigraði síðan Sigmund Davíð í formannskjöri flokksins í haust.  

Sigurður Ingi var spurður út í samband þeirra Sigmundar Davíðs á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Það gæti verið betra milli okkar Sigmundar. Því miður er það bara staðreynd. Það er auðvitað bagalegt að hann verði ekki með okkur á hátíðinni okkar í Þjóðleikhúsinu en velji að vera annars staðar. En svona verður þetta að vera.“

Verkefni að bæta sambandið
Sigurður segir það viðvarandi verkefni að bæta sambandið. „Við erum sannarlega átta í þingflokknum og munum starfa þar saman óháð því hvort við verðum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því og sérstaklega þegar maður er búinn að renna gegnum sögu Framsóknarflokksins og annarra flokka.“

Sigurður Ingi var spurður að því hvort hann ætti von á því að Sigmundur fari að taka þátt í þingstörfunum. „Ég vona það,“ svaraði hann.