„Það fer kuldahrollur um mann"

29.01.2017 - 16:07
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Þetta er náttúrlega nánast þyngra en tárum taki, að horfa á hvað er að gerast þarna. Ég bjó í Bandaríkjunum í sex og hálft ár og á þar marga vini. Auðvitað var ýmislegt sem gekk á, en það var aldrei neitt þessu líkt," segir Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, um þróunina í Bandaríkjunum síðustu daga.

Benedikt var í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar kom tilskipun Bandaríkjaforseta, Donalds Trumps, til tals en með henni er ríkisborgurum frá sjö löndum bannað að koma til Bandaríkjanna. Löndin eru Írak, Sýrland, Súdan, Íran, Sómalía, Líbía og Jemen. Einnig er kveðið á um að móttöku flóttamanna skuli frestað í 120 daga og að flóttamönnum frá Sýrlandi og Írak verði bannað að koma til landsins.

„Skelfileg þróun“
„Að sjá hvað er að gerast núna, þar sem menn eru að loka landinu, bæði með því að hleypa ekki fólki inn, með því að fara að reisa múra og með því að loka fyrir innflutning, þetta er skelfileg þróun og afar hættuleg,“ segir Benedikt. „Það fer kuldahrollur um mann, það verður bara að segjast eins og er.“

Benedikt segir að nú verði fólk að spyrja sig hvernig rétt sé að bregðast við. „Á maður að hætta að umgangast Bandaríkjamenn? Þetta er þó vinaþjóð okkar. Þetta er þjóð sem var leiðandi lýðræðisþjóð og hefur verið það. Og nú reynir auðvitað á stofnanir Bandaríkjanna. Hvað ætla menn að gera núna?“ segir hann.

Að lokum segir hann að það verði fróðlegt að sjá hvort stofnanir Bandaríkjanna geti sætt sig við þetta. „Af því að Trump er nú ekki einvaldur, þó svo að hann láti eins og hann sé það. Ég held að það reyni á það núna. Við sáum að dómari ógilti hluta tilskipana hans í gær. Ég vonast til að það gerist í meira mæli,“ segir Benedikt.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi