Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Það er til fullt af góðum jólalögum

Mynd: RÚV / RÚV

Það er til fullt af góðum jólalögum

10.12.2017 - 13:28

Höfundar

Stórsveit Samma og Valdimar Guðmundsson buðu upp á sannkallaða jólaveislu í beinni útsendingu úr Stúdíói 12 á föstudaginn. Stórsveitin kemur fram ásamt góðum gestum á jólatónleikunum Jólastuði í Gamla bíói á fimmtudaginn.

„Það verður ekki gervisnjór eða fljúgandi sleðar eða neitt svoleiðis. Það verður jólatré og við ætlum allir að koma með eitthvað jólaskraut úr okkar eigin ranni og setja á tréið, hafa þetta svolítið persónulegt,“ segir hljómsveitarstjórinn Samúel Jón Samúelsson, eða Sammi. Tónleikarnir verða hljóðritaðir og sendir út á Rás 2 um jólin. „Það verður bara góð músík, góður fílingur og við ætlum bara að hafa gaman að þessu og vonandi kemur bara fullt af fólki og hefur gaman að þessu með okkur.“

Sammi segir að fólk sem segist ekki þola jólalög sé hreinlega ekki að hlusta á réttu lögin. „Þið eigið ekki að hlusta á jólalögin í Smáralindinni,“ segir hann. „Það er til fullt af góðri músík en því miður er allt of mikið leikið af lögum í desember af því að þau eru jólalög en ekki af því að þau eru góð lög.“

Valdimar Guðmundsson sér um sönginn hjá stórsveitinni þessi jólin. „Ég vil lýsa ánægju minni með að vera að syngja með þessu rosalega góða bandi,“ segir Valdimar, sem var uppi með sér þegar Sammi bað hann um að syngja með sveitinni, sem hann leit mikið upp til þegar hann var ungur básúnuleikari. „Ég held að allir hafi gott af því að hlusta aðeins á þetta big band, og dást að því“

Stórsveit Samma og Valdimar Guðmundsson tóku nokkur jólalög í beinni útsendingu í Popplandi á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Það er bara gaman að búa eitthvað til“

Tónlist

Klassart í Stúdíói 12

Tónlist

Hafdís Huld í Stúdíói 12

Tónlist

Stúdíó 12: Hatari