Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það er svo auðvelt að vera dónalegur”

Mynd:  / 

„Það er svo auðvelt að vera dónalegur”

08.01.2019 - 17:20

Höfundar

Þær Karen Björg Þorsteinsdóttir 25 ára og María Guðmundsdóttir 83 ára eru yngsti og elsti meðlimur uppistandshópsins Bara góðar. Þær litu við í Lestinni og ræddu kynslóðabilið, búðarferðir í Finnlandi og tussuduft.

58 ár skilja stöllurnar að í aldri en eitt eiga þær þó sameiginlegt: húmorinn. Þær Karen Björg 25 ára og María 83 ára eru yngsti og elsti meðlimur uppistandshópsins sem kemur fram í fyrsta skipti í Þjóðleikhúskjallaranum í janúar. Hópurinn varð til í kringum námskeið hjá uppistandaranum Þorsteini Guðmundssyni en þær Karen og María höfðu þó báðar komið fram áður en þær sóttu námskeiðið.

„Ég er hjúkrunarfræðingur og ég hætti að vinna þegar ég varð sextug,“ segir María. „Og í staðinn fyrir að byrja að spila bridds fór ég að leika.” Hún byrjaði ferilinn með leikfélagi Mosfellssveitar og hafði leikið í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, sem og sótt spunanámskeið áður en hún dembdi sér á uppistandsnámskeið Þorsteins með dótturdóttur sinni.

Karen, sem er frá Grenivík, byrjaði hins vegar að fikta við uppistand í Menntaskólanum á Akureyri og skemmti þar í fyrsta skipti á árshátíð. „Mitt fyrsta uppistand fór fram fyrir framan þúsund manns og það gekk mjög vel,” segir hún. „Ég myndi segja að það sé mun auðveldara að vera með uppistand fyrir of marga en of fáa.”

Karen segir það stundum kostulegt að hitta hina uppistandarana í hópnum og að hún gleymi sér við að hlusta á sögurnar hennar Maríu. „Okkur finnst bara í lagi að gera grín að öllu, siðferðiskenndin er ekkert svakalega mikil þegar við komum saman,” segir hún. Þær játa því að þær séu með svartan húmor en taka fram að þær vilji þó ekki stuða fólk. Listin felist kannski í því að hafa dónaskapinn á réttum stöðum. María segist alls ekki gefin fyrir neðanbeltisbrandara. „Fólk á að geta setið þarna og hlegið af því að þetta er skemmtilegt, ekki af því að þetta er dónalega skemmtilegt,” segir hún og Karen tekur undir: „Það er svo auðvelt að vera dónalegur.”

Alveg sama um áhrif „tussuduftsins”

María hefur oft leikið með Steinda og segir þá stundum svolítið meira um dónaskap en ætti að vera. Þá minnist hún þess að hafa einu sinni komið fram í sjónvarpsþætti Barða Jóhannssonar, Konfekt, og leikið konu sem var að panta „tussuduft.”

„Mínum kollegum þótti þetta alveg svakalegt, þetta var ekkert svakalegt, ég var bara að panta mat í gegnum síma og þetta hét ekki kjötfars heldur tussuduft og eitthvað svona,” segir María. „Það sagði við mig einn hjúkrunarfræðingur sem vann með mér ― og ég held að hún hafi verið 30 árum yngri en ég ―  „Veistu ég lít þig aldrei réttu auga eftir þetta!” En mér var svo sem alveg sama.” Þær stöllur finna lítið fyrir kynslóðabilinu í bröndurunum sínum. Munurinn sé fremur einstaklingsbundinn enda geri þær mest grín að sjálfum sér og sæki innblástur í eigið líf.

Karen talar þannig oft um þá reynslu að flytja frá Grenivík til borgarinnar og hvernig það sé að nágrönnunum sé skyndilega sama um mann. María tekur hins vegar sem dæmi söguna af því þegar hún var að máta kjóla í fínni búð í Finnlandi með kampavín í annarri en var svo skyndilega rekin út með harðri hendi. Sagan sú er betri í ræðu en riti og má heyra hana í spilaranum hér að ofan ásamt viðtalinu í heild sinni sem og tussudufts-gríninu góða.

Auk þeirra Maríu og Karenar eru Bara góðar skipaðar þeim Hildi Birnu Gunnarsdóttur, Kristínu Maríu Gunnarsdóttur og Önnu Þóru Björnsdóttur. Uppselt er á þeirra fyrsta uppistand sem fer fram í Þjóðleikhúskjallaranum 20. janúar en enn eru til miðar á aukasýningu þeirra sunnudaginn 27. janúar.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Þetta var eins og ég væri að kaupa heróín“

Menningarefni

Íslenskt grín í Kína

Leiklist

Uppistand með heilkennum og öðrum röskunum

Sjónvarp

Fullkomið uppistand á #metoo-tímum