Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Það er ótrúlega gott að treysta“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það er ótrúlega gott að treysta“

09.04.2019 - 19:50

Höfundar

Almar Steinn Atlason - Almar í kassanum - skildi fyrir nokkrum árum og ákvað af því tilefni að saga í sundur hrærivél, sem er nú til sýnis í galleríinu Midpunkt í Hamraborg í Kópavogi.  

Þótt Almar Steinn sé ekki orðinn 27 ára hefur hann reynt ýmislegt. Hann flutti átján ára að heiman, ætlaði á sjóinn að loknu stúdentsprófi frá MH en sótti um fyrir hálfgerða rælni á myndlistarbraut Listaháskóla Íslands. Þangað komst hann inn og olli sannkölluðu fári með útskriftarverkefni sínu, þar sem hann dvaldi nakinn í glerkassa í beinu vefstreymi í heila viku.

Athyglin erfiðari en einveran

„Þetta var eitthvað allt annað en mér hafði nokkurn tímann dottið í hug,“ rifjar hann upp. „Ég setti þessa myndavél þarna til að byrja með til að vinir mínir gætu ekki sagt að ég hefði svindlað. En það var ótrúlega skrítið að fá svona mikinn meðbyr.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hann segir að athyglin sem hann fékk í kjölfar gjörningsins hafi í raun verið erfiðari en einveran.

„Það er ekkert mál að vera einn. Það er bara gaman. En athyglin, ég átti rosa erfitt með það. Ég lít svoleiðis á að áhugamál og sögur séu einskis annarra mál en mitt eigið, þangað til ég einmitt fer og sýni einhverjum það. Þetta er eins og málverk, það kemur engum við hvort ég mála hakakross eða hjörtu eða typpi fyrr en ég sýni einhverjum málverkið. Þá kemur það öllum við, ég er að gera fólki það viðkomandi. Það er eins með lífið manns.“

Almar segist alltaf hafa litið á sig sem málara fyrst og fremst. 

„En eftir þetta kemst maður ekki upp með neitt annað en að halda áfram að sýna gjörninga. Sem er ótrúlega skemmtilegt, ég á ábyggilega aldrei eftir að hætta því.“ 

Bauð gestum að tattúvera hann

Almar lagði sjálfan sig aftur að veði í gjörningi sem hann tók þátt í með Unni Elísabetu Gunnarsdóttur fyrr í vetur. 

Mynd með færslu
 Mynd: -

„Það var ofboðslega skemmtilegt. Unnur hafði samband við mig síðasta haust og spurði hvort ég vildi vera með örverk á hátíð sem hét Ég býð mig fram. Ég, eins og góður drengur, fór í kvíðakast og byrjaði að hugsa: Hvernig get ég látið einhvern annan gera eitthvað? Ég hef yfirleitt skrifað fyrir sjálfan mig, unnið með mína nærveru og reynt að ýta mínum mörkum. En hvernig get ég ýtt mörkum einhvers sem ég þekki ekkert og veit ekki hvar mörk viðkomandi liggja? Mér fannst þetta svolítið óþægilegt og fékk samviskubit áður en ég byrjaði. Ég ákvað að koma þessu samviskubiti áfram beint til áhorfenda. Þannig að ég setti svona kassa á bakið á mér og bauð svo fólki að tattúvera inn í þessa kassa, einn á hverri sýningu - fimm sýningar.“ 

Hin óneitanlega byrði tilvistarinnar

Almar gengur oft nærri sjálfum sér í gjörningum

„Fyrir mig er svo mikilvægt að ég sé að ögra mér. Ef ég er ekki skíthræddur fyrir sýningu þá veit ég að ég er að gera eitthvað vitlaust. En ég er alltaf að læra að gjörningar og athygli og þess háttar er eitthvað sem ég þarf tíma á milli. Ég ræð ekkert við þetta mjög mikið allt í einu. Svo hef ég verið að einbeita mér að því að finna einhvern rauðan þráð í minni listsköpun.“

Einn slíkur þráður er traust.

„Traust er einhver magnaðasta tilfinning sem ég upplifi dags daglega. Fólki þykir mjög vænt um traustið sitt, traust sem það fær og traust sem það sýnir öðrum. Við erum alltaf að búa til hringi þar sem við getum treyst því það er svo ótrúlega góð tilfinning að geta treyst þessari óneitanlegu byrði sem tilvistin er. Það þarf ekki að vera einhver sérstakur, getur verið afgreiðslumaðurinn í sjoppunni eða hvað sem er. En það er ótrúlega gott að treysta og vera treyst og þá finnst mér það spennandi tilfinning að vinna með.“ 

Þegar það sem á ekki að fara í sundur gerir það

Sýningin í Midpunkt snýst einmitt öðrum þræði um traust, eða hvað gerist þegar það hverfur. Á sýningunni stillir Almar upp KitchenAid-hrærivél sem hann hefur sagað í tvennt.

„Ég er að rannsaka hvað gerist þegar hlutir sem maður býst ekki við að fari í sundur gera það. KitchenAid-vélar eru algengar brúðkaupsgjafir, svo þegar hjónabandið er búið er fáránlegt að vélin KitchenAid-vélin haldi áfram.“

Almar lítur þó ekki á sýningunar sem hreinsandi ferli eða einskonar þerapíu. 

„Fyrir mig er þetta bara skemmtilegt fyrst og fremst. Að fá að vera nógu athyglissjúkur til að taka einfalda vangaveltu og troða henni upp á almenning. Það er fátt skemmtilegra en að vera nógu sjálfhverfur til að geta sannfært suma um að manns eigin morgunkaffihugsanir „eigi erindi við þjóðina!““

Tengdar fréttir

Fallegt boð sem býður upp á samviskubit

Menningarefni

Gekk betur á Tinder eftir Kassann

Menningarefni

Hvað verður um landsfrægan kassa Almars?

Myndlist

Nakti maðurinn í kassanum