„Það var ofboðslega skemmtilegt. Unnur hafði samband við mig síðasta haust og spurði hvort ég vildi vera með örverk á hátíð sem hét Ég býð mig fram. Ég, eins og góður drengur, fór í kvíðakast og byrjaði að hugsa: Hvernig get ég látið einhvern annan gera eitthvað? Ég hef yfirleitt skrifað fyrir sjálfan mig, unnið með mína nærveru og reynt að ýta mínum mörkum. En hvernig get ég ýtt mörkum einhvers sem ég þekki ekkert og veit ekki hvar mörk viðkomandi liggja? Mér fannst þetta svolítið óþægilegt og fékk samviskubit áður en ég byrjaði. Ég ákvað að koma þessu samviskubiti áfram beint til áhorfenda. Þannig að ég setti svona kassa á bakið á mér og bauð svo fólki að tattúvera inn í þessa kassa, einn á hverri sýningu - fimm sýningar.“
Hin óneitanlega byrði tilvistarinnar
Almar gengur oft nærri sjálfum sér í gjörningum
„Fyrir mig er svo mikilvægt að ég sé að ögra mér. Ef ég er ekki skíthræddur fyrir sýningu þá veit ég að ég er að gera eitthvað vitlaust. En ég er alltaf að læra að gjörningar og athygli og þess háttar er eitthvað sem ég þarf tíma á milli. Ég ræð ekkert við þetta mjög mikið allt í einu. Svo hef ég verið að einbeita mér að því að finna einhvern rauðan þráð í minni listsköpun.“
Einn slíkur þráður er traust.
„Traust er einhver magnaðasta tilfinning sem ég upplifi dags daglega. Fólki þykir mjög vænt um traustið sitt, traust sem það fær og traust sem það sýnir öðrum. Við erum alltaf að búa til hringi þar sem við getum treyst því það er svo ótrúlega góð tilfinning að geta treyst þessari óneitanlegu byrði sem tilvistin er. Það þarf ekki að vera einhver sérstakur, getur verið afgreiðslumaðurinn í sjoppunni eða hvað sem er. En það er ótrúlega gott að treysta og vera treyst og þá finnst mér það spennandi tilfinning að vinna með.“
Þegar það sem á ekki að fara í sundur gerir það
Sýningin í Midpunkt snýst einmitt öðrum þræði um traust, eða hvað gerist þegar það hverfur. Á sýningunni stillir Almar upp KitchenAid-hrærivél sem hann hefur sagað í tvennt.
„Ég er að rannsaka hvað gerist þegar hlutir sem maður býst ekki við að fari í sundur gera það. KitchenAid-vélar eru algengar brúðkaupsgjafir, svo þegar hjónabandið er búið er fáránlegt að vélin KitchenAid-vélin haldi áfram.“
Almar lítur þó ekki á sýningunar sem hreinsandi ferli eða einskonar þerapíu.
„Fyrir mig er þetta bara skemmtilegt fyrst og fremst. Að fá að vera nógu athyglissjúkur til að taka einfalda vangaveltu og troða henni upp á almenning. Það er fátt skemmtilegra en að vera nógu sjálfhverfur til að geta sannfært suma um að manns eigin morgunkaffihugsanir „eigi erindi við þjóðina!““