„Það er hvítabjörn fyrir framan okkur!“

10.07.2018 - 20:09
Franskur leiðsögumaður silungsveiðimanna sem töldu sig sjá hvítabjörn á Melrakkasléttu í gær, segir þá hafa orðið skelfingu lostna og forðað sér á hlaupum. Öruggast hafi verið að tilkynna lögreglu um hugsanlegan hvítabjörn þó sjálfur hafi hann efast um að þetta væri björn.

Tveir franskir veiðifélagar og leiðsögumaður voru að veiðum í Hraunhafnará nyrst á Melrakkasléttu seinni partinn í gær. Þeir höfðu lagt bíl sínum við bæinn Skinnalón og gengið um fjóra kílómetra að ánni þegar allt fór í háaloft.  

Forðuðu sér á hlaupum skelfingu lostnir

„Og annar veiðifélaga minna öskrar: „Það er hvítabjörn fyrir framan okkur!“ segir David Zehla, leiðsögumaður. „Á þeirri stundu sé ég eitthvað, þó ekki dýrið allt, en samt eitthvað talsvert stórt og mjög breitt. Og hinn félaginn verður mjög hræddur og hleypur í burtu.“

Ekki viss um hvort þetta væri hvítabjörn eða kind

David segist ekki hafa verið viss um hvort þetta væri hvítabjörn eða sauðkind, því hann sé nærsýnn og hafi ekki verið með gleraugun á sér. Og eftir nokkurra mínútna hlaup og æsing hafi hann stoppað og reynt að róa félaga sína. „Félagi okkar var 100 prósent viss um að hann sá björn og að það hafi verið hvítabjörn. Þannig að hann fékk auðvitað að njóta vafans. Svo drifum við okkur í bílinn eins hratt og við gátum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Örlygur Hnefill Örlygsson
Formlegri leit var hætt kl. 16:30 í dag

Gaf áhöfn þyrlunnar nákvæmar upplýsingar 

Og eftir að hafa leitað ráða og fengið upplýsingar um að hvítabjörn hafi áður sést á þessum slóðum lét hann lögreglu vita. Hann segist hafa útskýrt að aðeins einn þeirra hafi séð skepnuna vel. Sjálfur væri hann í vafa um að þetta væri björn. Í gærkvöldi lenti þyrla Landshelgisgæslunnar á Raufarhöfn og þaðan var farið til leitar „Ég gaf þeim allar upplýsingar, nákvæmlega hvar við höfðum verið og þeir héldu af stað.“

Formlegri leit hætt í dag

Leitað var úr þyrlunni og af lögreglu á jörðu niðri til klukkan hálf eitt í nótt og aftur í dag. Þegar ekkert hafði sést til hvítabjarnar klukkan hálf fimm í dag var formlegri leit hætt.