Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Það er fólkið sem þú vilt ekki byrja með“

Mynd:  / 

„Það er fólkið sem þú vilt ekki byrja með“

28.01.2019 - 16:36

Höfundar

„Í dag eru margir sem nota Tinder í skorpum. Taka svona Tinder-tímabil og fá svo alveg nóg,“ segir Atli Fannar Bjarkason sem ásamt Margréti Erlu Maack ræddi stefnumótamiðla í Mannlega þættinum.

Líf einhleypra hefur breyst talsvert á tímum samfélagsmiðla. Stefnumótaforrit þar sem fólk getur fundið ástina, sálufélagann og hamingjuna, hafa fest sig í sessi og eru í símanum sem við erum alltaf með innan seilingar. Fleiri milljónir notenda geta skoðað aðra notendur og ýtt þeim ýmist til hægri eða vinstri eftir því hvort þau vilja frekari kynni af þeim eða ekki. Hafa þessi forrit breytt stefnumótamenningunni? „Ef þú hefðir boðið mér í þetta viðtal fyrir þremur til fjórum árum þá hefði ég örugglega ekki komið,“ segir Margrét Erla þegar þáttastjórnandi hafði opnað sig um að það hefði verið honum mikið feimnismál að prófa Tinder. Hún hafi þó fljótt áttað sig á því að það væri ekkert til að skammast sín fyrir.

„Þú leitar þér að íbúð á netinu, þú sækir um vinnu á netinu og skoðar hvaða tónleika þú átt að fara á á netinu. Af hverju ekki líka að tékka á þessu?“ heldur Margét áfram og segir að vettvangurinn til að hitta fólk hafi verið á öldurhúsunum áður en þessi forrit komu til. „Og hvaða fólk er á kránum? Það er fólkið sem þú vilt ekki byrja með.“ Hún segist hafa kynnst manninum sem hún er með í dag á Tinder og líka manninum sem hún var með á undan honum og að þess á milli hafi hún verið talsvert mikið á Tinder.

Margrét segir að Tinder, og viðlíka forrit, séu góður vettvangur til að kynnast fólki, þar sé hægt að sjá hvaða sameiginlega vini þið eigið, sem þú getur spurt um viðkomandi, hvort hann sé góð manneskja, svo hún viti betur út í hvað hún er að fara ef hún vill stíga skrefið og hittast á stefnumóti.

Atli Fannar hefur ekki persónulega reynslu af því að nota þessi stefnumótaforrit, en hann hefur unnið við samfélagsmiðla undanfarin ár og hefur fylgst vel með þessari þróun. Hann segir að þegar nýr vettvangur kemur fram sé fólk skiljanlega feimið og jafnvel með ranghugmyndir, eins og til dæmis þegar stinningarlyfin fóru að koma á markað, þá hafi fáir þorað að segja frá því að þeir væru að nota þau, þrátt fyrir að sala á þeim hafi verið gríðarleg. Í dag sé fólk ekki jafn feimið við það.

„Í dag eru margir sem nota Tinder í skorpum. Taka svona Tinder-tímabil og fá svo alveg nóg. Því þetta er rosalega mikið að ná inn, þú færð svo mikla athygli að það verður alveg hlaðborð af möguleikum.“ Þá tekur fólk forritið misalvarlega, ekki séu allir í makaleit. „Fæstir nota þetta til þess að hittast,“ segir Atli Fannar. „Flestir nota það sem einhvers konar skemmtun og leið til að eiga samskipti við aðra.“

Með of marga bolta á lofti í einu?

Spurð um það hvort þessi forrit geti ýtt undir að notendur lendi í kröppum dansi með því að tengjast mörgum á sama tíma og halda þannig of mörgum boltum á lofti í einu, svara þau bæði að sá möguleiki sé vissulega fyrir hendi. „Það er viss hætta þar, sérstaklega fyrir fólk sem finnst alltaf grasið vera grænna hinum megin. Þá er þetta kannski ekki góður miðill,“ segir Margrét.

Margrét Erla og Atli Fannar voru í viðtali í Mannlega þættinum í dag og viðtalið má hlusta á í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Evrópa

Vill verða tuttugu árum yngri fyrir Tinder

Stefnumót við heppinn áhorfanda

Stefnumót við heppinn áhorfanda