Það er ekki verið að ota þessu að neinum

Mynd:  / 

Það er ekki verið að ota þessu að neinum

10.03.2019 - 15:00

Höfundar

Hlaðvörp um allt milli himins og jarðar hafa notið sífellt meiri vinsælda á undanförnum árum. Nægir í því samhengi að nefna seríur eins og This American Life, Serial og S-Town. Sama gildir um íslensku hlaðvarpssenuna, sem virðist bara vera að styrkjast.

Snýst allt um að fíla lagið!
Eitt langlífasta hlaðvarpið hér á landi er Fílalag þar sem þeir Bergur Ebbi Benediktsson og Snorri Helgason kafa í hyldýpi tónlistarinnar. „Við fjöllum bara um eitt lag í hverjum þætti, við fílum það aðallega, við erum að tala um artistann og hughrif sem lagið veldur, bara svipað og útvarpsmenn gera oft þegar þeir setja lög á,“ útskýra þeir en spjall um eitt lag tekur yfirleitt um klukkutíma. 

Spjalli við kaffivélina streymt á netið
Annað dæmi um farsælt hlaðvarp er Hismið, sem fjallar um þjóðmál á gamansömum nótum en það er í umsjón þeirra Árna Helgasonar og Grétars Theodórssonar. „Við deildum skrifstofuhúsnæði og hittumst mikið í kaffi og einn daginn sögðum við af hverju erum við ekki að taka þetta upp, það hlýtur að vera salur fyrir þessu,“ grínast Grétar. Árni bætir við að hismið sé það sem er í kringum kjarnann en Hismis-menn hófu einmitt hlaðvarpsferilinn á Kjarnanum. 

Stöðugt að grúska í heimssögunni
Í ljósi sögunnar er síðan eitt allra vinsælasta hlaðvarp landsins en það er reyndar alltaf frumflutt í línulegri dagskrá á Rás 1. Þar bregður grúskarinn Vera Illugadóttir sögulegu ljósi á mörg af fréttamálum samtímans. „Ég er alltaf að hugsa um hvað getur verið næsti þáttur. Mér finnst skemmtilegast að geta tekið alls konar hluti, sögu heils lands í einum þætti, eða ótrúlega afmarkaðan atburð í næsta þætti sem enginn vissi neitt um eða eitthvað slíkt. Þannig ég er alltaf eitthvað að grúska,“ segir Vera. 

Bæði Bergur Ebbi og Árni tala um hversu lítil pressa sé í kringum hlaðvörpin enda sé enginn skyldugur til þess að hlusta. „Þetta er þægilegt og skemmtilegt, hlaðvörpin eru svolítið þannig. Það er ekki verið að ota þeim að neinum," segir Árni.

Fjallað var um þessi þrjú íslensku hlaðvörp, Fílalag, Hismið og Í ljósi sögunnar í Menningunni á dögunum. Innslagið er hægt að sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.