Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Það er auðvelt að gleyma sér í heimi Ástu

Mynd:  / 

Það er auðvelt að gleyma sér í heimi Ástu

05.11.2017 - 12:00

Höfundar

Í þættinum Víðsjá á Rás 1 fjallaði Andri M. Kristjánsson um nýja skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar.

Andri M. Kristjánsson skrifar:

Saga Ástu: Hvert fer maður ef það er engin leið út úr heiminum? er tólfta skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar og kom út hjá bókaútgáfunni Benedikt í lok október. Jón Kalman hefur fyrir löngu sannað sig sem einn af færustu rithöfundum samtímans, ekki bara á Íslandi, heldur í heiminum öllum eins og sást á erlendum veðbönkum nokkrum dögum áður en tilkynnt var um Nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum fyrr á  þessu ári. Nýjasta skáldsaga Jóns fjallar ekki um neitt smáræði heldur heilt líf, nánar tiltekið líf Ástu Sigvaldadóttur og fólksins sem henni tengist.

Sögumaðurinn er persóna

Strax í upphafi sögunnar er lesandanum gert grein fyrir því að sögumaðurinn sem miðlar upplýsingum og atburðum er vel kunnugur lífi Ástu, hann þekkir hana á einhvern hátt en hvernig þau þekkjast kemur ekki í ljós fyrr en seinna. Á fyrstu blaðsíðu bókarinnar ávarpar sögumaðurinn lesandann beinu ávarpi og þannig finnur lesandinn sterklega fyrir nærveru hans. Nærvera sögumannsins við atburði sögunnar er samt sem áður ekki þrúgandi eða yfirgnæfandi, heldur er hún þvert á móti nærgætin og ber þess merki að hann sé veigamikill hluti af sögu Ástu.

Það kemur fljótlega í ljós að sögumaðurinn er persóna í bókinni en stendur að einhverju leyti fyrir utan atburði frásagnarinnar, það kemur síðan í ljós að það er hann sem er að skrifa bókina um líf Ástu og gefur lesandanum þannig innsýnn í sitt hlutverk sem frásagnaraðili og höfundur sögunnar. Sögumaðurinn er á sama tíma persóna í bókinni og höfundur bókarinnar. Þetta stílbragð að skrifa skáldsögu sem að einhverju leyti fjallar um sjálfa sig eða skáldskapinn í víðara samhengi er eitt af einkennum svokallaðra sögusagna (e. metafiction).

Brotin raðast saman

Atburðum sögunnar er ekki eingöngu miðlað í gegnum sögumanninn sjálfan, lesandinn fær ólík sjónarhorn á líf Ástu. Flestum atburðum sem tengjast forsögu hennar og æsku er miðlað í gegnum föður hennar Sigvalda. Lesandinn fær að fylgjast með brotum af æsku hennar og uppeldi en megin áherslan er á Helgu og Sigvalda, foreldra Ástu. Sigvaldi birtist lesandanum, liggjandi á gangstétt í Noregi þar sem hann horfir upp í himininn og í framhaldinu fer hann að upplifa gamlar minningar. Í gegnum minningabrotin sem standa Sigvalda fyrir hugskotssjónum er ævisaga hans að hluta til sögð, lesandinn fær ekki aðeins að upplifa atburði sem snúa að Ástu, heldur einnig að Sigvalda sjálfum og fjölskyldu hans, hjónabandi hans við Helgu sem og sambandi hans og Sigridar seinni eiginkonu hans. Með því að flétta saman frásagnir af kynslóð Sigvalda er á varfærnislegan en þó einbeittan hátt velt upp spurningum um ábyrgð eldri kynslóða gagnvart þeirri yngri og hvernig syndir feðranna, sem og syndir mæðranna elta afkomendurna.

Margskonar sýn

Unglings- og fullorðinsárum Ástu er miðlað af sögumanninum en þó í gegnum sjónarhorn Ástu sem styrkir enn fremur þann grun lesandans að sögumaðurinn sé einhver nákomin Ástu og þekki vel til hennar persónulegu sögu. Framvinda atburða er ekki í tímaröð, atburðum er miðlað á víxl frá mismunandi tímaskeiðum úr lífi Ástu en inn á milli er saga fortíðarinnar brotin upp með innskotum úr samtíðinni. Annars vegar er sagt frá lífi sögumannsins þar sem hann vinnur að skáldsögunni á óræðum stað á vesturlandi en hins vegar birtast bréf frá Ástu sjálfri.

Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson
 Mynd: norden.org
Jón Kalman Stefánsson rithöfundur.

Bréfin eru stíluð á elskhuga hennar og í þeim deilir hún mjög persónulegum upplýsingum. Í fyrstu er óljóst hverjum bréfin eru ætluð en fljótlega kemur í ljós að það er sögumaðurinn sem er viðtakandinn og hefur fellt bréfin inn í skáldsöguna. Frásagnaraðferðin í Sögu Ástu virkar einkar vel og gerir það að verkum að spenna verður í framvindunni sem heldur lesandanum vel við efnið. Að sama skapi skapar aðferðin ákveðna ráðgátu innan frásagnarinnar sem erfitt er að skilja við óleysta.

Frábært flæði

Bókin sjálf er einstaklega vel skrifuð, textinn flæðir vel og hrífur lesandann með sér. Persónusköpunin er sömuleiðis mjög vel af hendi leyst, dregin er upp sannfærandi mynd af flóknum persónum sem heilla hvern þann sem kemst í kynni við þær. Það er auðvelt að gleyma sér í heimi Ástu sem er raunverulegur, erfiður, hamingjusamur og brothættur. Samfélögin sem birtast í bókinni eru mjög sannfærandi og nær höfundur að draga upp trúverðuga mynd af sveitinni, borginni og heimilinu á mismunandi tímabilum í lífi Ástu. Í bókinni má finna aðstæður sem lesandinn á auðvelt að samsama sig með, enda heilt líf til umfjöllunar með öllum sínum hæðum og lægðum. Myndin sem dregin er upp af örlögum Ástu og fólksins í kring um hana er á köflum sorgleg, jafnvel átakanleg en í höndum höfundar fyllist lesandinn ekki af nagandi sorg eða örvæntingu yfir örlögum persóna, þvert á mót tekst höfundi að framkalla hlýja en jafnframt djúpa sorg sem skilur lesandann ekki eftir í sárum, heldur á einhvern undraverðan hátt sáttan og jafnvel þakklátan fyrir upplifunina.

Að sama skapi eru atburðir tengdir hamingju og persónulegum þroska hjúpaðir hæglátri gleði og geta á köflum fyllt lesansann stolti yfir því að vera vitni af atburðunum. Jón Kalman hefur verið þekktur fyrir að varpa fram stórum spurningum um lífið og tilgang tilverunnar í bókum sínum og Saga Ástu er þar engin undantekning. Í bókinni takast á tvö sjónarmið annars vegar að líf einstaklingsins virðist á tímum vera svo smátt og tilgangslaust en á hin bóginn að þegar það kemst í snertingu við önnur líf, aðrar manneskjur víkkar það út og verður svo víðáttumikið að engan endi má á því finna. Á heildina litið er hér um að ræða stórgóða bók sem heldur lesandanum fram á síðustu blaðsíðu, textinn sjálfur er fallegur og rennur áreynslulaust áfram, frásagnarstíllinn er skemmtilegur og söguþráðurinn sjálfur er heillandi.