Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Það er alltaf nóg að mynda“

Mynd: Guðmundur Ingólfsson / Guðmundur Ingólfsson

„Það er alltaf nóg að mynda“

25.09.2017 - 11:27

Höfundar

Á eigin vegum er heiti á nýrri ljósmyndasýningu í Þjóðminjasafni Íslands, en þar gefur að líta ljósmyndir Guðmundar Ingólfssonar frá fimmtíu ára tímabili, 1967-2017. Guðmundur segir það hafa tekið á að setja upp sýningu sem á að gefa yfirlit yfir svo langan feril. „Það er auðvitað sex-sjö mánaða stress og lélegur nætursvefn oft á tíðum.“ 

Ekkert grín að velja

Guðmundur Ingólfsson hefur um árabil verið einn fremsti ljósmyndari þjóðarinnar en efnistök hans í gegnum tíðina eru fjölbreytt og vönduð. Hann hefur til dæmis ljósmyndað Reykjavík og breytingar í ásýnd borgarinnar áratugum saman, tekið landslagsmyndir og portrett og alls konar ljósmyndir með alls konar tækni, sem hefur breyst mikið á þeim 50 árum sem hann hefur verið að mynda. Rætt var við Guðmund í Víðsjá á Rás 1.

„Þú getur ekki ímyndað þér hvað það er erfitt,“ segir Guðmundur spurður af því hvort það sé ekki snúið að velja ljósmyndir á slíka yfirlitssýningu. „Konan mín er mikil skjalfestu-kona. Hún hafði gott yfirlit fyrir þetta og þegar ég var búinn að ráða mér nána vini frá Þýskalandi til að vera sýningarstjóra, þá dró hún ýmislegt fram úr skúffum sem ég var í mörgum tilfellum búinn að gleyma. Það hjálpaði til og þess vegna er þetta langt frá því eins manns verk.“

Fengið frá ÞMS vegna umfjöllunar um sýningu Guðmundar í sept 2017
 Mynd: Guðmundur Ingólfsson
Í og umhverfis Reykjavík hefur Guðmundur verið fundvís á myndefni.

Lélegur nætursvefn

Guðmundur segir það hafa tekið á að setja upp sýningu sem á að gefa sæmilegt yfirlit yfir svo langan ferlið. „Það er auðvitað sex-sjö mánaða stress og lélegur nætursvefn oft á tíðum,“ segir Guðmundur og hlær. „Maður sér þetta ekki, í raun og veru, fyrr en þetta hangir rammað upp á vegg. Maður getur ekkert metið þetta fyrr.“

Ljósmyndarinn býr samt svo vel að eiga góða að sem geta líka velt þessu fyrir sér og eru vel inn í því sem hann hefur verið að fást við. „Góðir vinir koma af og til, skoða þetta, klappa manni á öxlina og segja: „já, þetta er allt í lagi hjá þér.“ Það tekur þó ekkert mikið af angistinni.“

Heimildir um Reykjavík

Eitt af því sem Guðmundur hefur lengi fengist við er heimildaljósmyndun um þróun Reykjavíkur. Þar er engu logið og engu bætt við og úr verða dýrmætar myndir um hvernig borgin hefur þróast. Guðmundur segir að þetta hafi ekki verið algengt á Íslandi þegar hann hóf að ljósmynda borgina.

„Þetta er samt í þekktri hefð þegar við horfum út fyrir landið. Hún á sér uppruna í Frakklandi. Þar var uppgjafaleikari, sem hét Eugène Atget, sem tók sig til og skráði þá París sem var að hverfa eftir að nýtt skipulag fór að ryðja sér til rúms. Það var eiginlega fyrir tilviljun að súrrealistarnir uppgötvuðu þennan mann en Frakkar sjálfir gerðu það svo seint að þeir eignuðust aldrei þessar mikilvægu heimildir. Þær enduðu því á safni í Ameríku.“

Þegar Guðmundur hóf að mynda breytingar í Reykjavík með þessum hætti segist hann ekki hafa verið meðvitaður um þessi tengsl við hefðina. „Ég er bara fimm kynslóða vesturbæingur og man því eftir öllu því sem hefur horfið, þegar ég fer af stað. Ég man til dæmis eftir öllum steinbæjunum í Vesturbænum sem síðan eru margir horfnir og ég sé mikið eftir að hafa ekki ljósmyndað. Þá fyrst fer ég að bregðast við og fást við þetta, upp úr 1980.“

Guðmundur er með gott auga fyrir manngerðu umhverfi.

Heimild um tískuna 1986

Það er af mörgu að taka á sýningunni og engin leið að gera því öllu skil í stuttu útvarpsviðtali. Þar er til dæmis að finna innsýn í tísku reykvískra unglinga á 200 ára afmæli Reykjavíkur sem haldið var upp á árið 1986.

„Tómas Jónsson teiknari plataði mig í að setja upp aðstöðu í tjaldi í Bernhöftstorfunni á afmælisdeginum. Við fengum rafmagn úr Lækjarbrekku og hann var með menn í að draga unglinga inn í tjaldið til mín, sem ég ljósmyndaði. Upp á síðkastið hef ég verið í að reyna að finna þetta fólk aftur. Það hefur nú gengið misjafnlega en er mjög skemmtilegt. Ég er ekki búinn að ljúka þessu verkefni og því sýni ég bara myndirnar frá 1986 núna.“

Alltaf á ferðinni

Góður ljósmyndari verður seint uppiskroppa með myndefni og Guðmundur Ingólfsson er alltaf að. „Það er þannig að maður fer í bíltúra og leitar sér að einhverju verðugu viðfangsefni til að mynda, bæði nýju og gömlu. Það er alltaf nóg að finna. Ég fer til dæmis mikið á Laugaveginn þegar túrisminn kviknar þar, sem nú er auðvitað bæði á sumrin og veturna. Svo kemur maður alltaf á nýjan Laugaveg í hvert skipti. Þarna eru ótrúlegustu byggingarframkvæmdir og maður stendur stundum bara og gapir,“ segir Guðmundur.

Viðtalið við Guðmund úr Víðsjá á Rás 1 má heyra hér fyrir ofan en nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.  

Í tengslum við sýninguna Á eigin vegum kemur út ný bók með ljósmyndum Guðmundar og greinum sem fjalla um feril hans. Greinahöfundar eru Einar Falur Ingólfsson, Jacob Lillemose, Liv Gudmundson og Timm Rautert, sem jafnframt er sýningarstjóri sýningarinnar sem nú stendur í Þjóðminjasafni Íslands fram til 14. janúar. Ritstjóri bókarinnar er Ingunn Jónsdóttir.