Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Það er alltaf gaman að vera trendsetter“

27.05.2018 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta er svona hógværasta Hawaii-skyrta sem ég á,“ segir Björn Davíðsson, kjörstjórnarformaður á Ísafirði. Það er líklega ekki á neinn hallað þegar fullyrt er að Björn hafi vakið einna mesta athygli allra sem birtust í kosningasjónvarpi gærkvöldsins og næturinnar. Björn var klæddur í græna Hawaii-skyrtu og útlitið varð fóður í þó nokkur tíst á Twitter.

Björn hefur gaman af öllu saman. „Ég er nú reyndar sjálfur ekki á Twitter en ég sé að þetta hefur vakið athygli. Það er ekkert að því – það er alltaf gaman að vera trendsetter,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Spurður um skyrtuna sem hann klæddist segist hann vera þekktur fyrir að ganga í Hawaii-skyrtum og að hann eigi þær mun skræpóttari. „Þessi er ein af hófsamari skyrtunum – maður vill ekki stuða landsmenn of mikið. Hún var valin með hliðsjón af því að ég væri að fara í sjónvarpið.“

En kom ekki til greina að vera bara í jakkafötum með bindi eins og flestir aðrir kjörstjórnarformenn?
„Jú jú, það kom alveg eins til greina. Þetta er bara miklu þægilegri klæðnaður,“ segir Björn.

Björn segist kaupa sér Hawaii-skyrtur við flest tilefni sem gefist. „Það er erfitt að nálgast þetta og bara við sérstök tækifæri sem maður lendir í að geta valið úr slíkum skyrtum. Ég hef ekki getað fengið þetta hérlendis,“ segir hann. „Þessi er til dæmis keypt í Kanada, ekki á Hawaii. Svo er mjög mikið af fallegum skyrtum í Japan en þær eru því miður allar of litlar. Það sem heitir „large“ hjá þeim heitir „medium“ hjá okkur.“

Björn segist eiga um tíu Hawaii-skyrtur. „Það er nú ekki meira en það. En þær eru ekki til sölu.“

Og kjörstjórnarformaðurinn segir gaman að athyglinni. „Vissulega – ég hafði gaman af þessu sjálfur að sjá viðbrögðun. Það var frekar vinsælt hjá þeim sem hittu mig í gær að ná í eina „selfie“ með mér, þannig að þetta vakti greinilega mikla lukku.“

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV