Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Það breytist bara allt í lífinu“

08.12.2016 - 08:25
Um 200 manns nýta sér árlega þjónustu Aflsins á Akureyri. Ráðgjafi þar segir það hafa breytt öllu lífi sínu að leita sér hjálpar vegna kynferðisofbeldis eftir margra ára þögn. Nú stendur yfir 16 daga alþjóðlegt átak gegn kynferðisofbeldi og af því tilefni bauð Aflið í opið hús í nýjum starfsstöðvum sínum.

Líkamleg og andleg áhrif

Ólöf María Brynjarsdóttir leitaði sér aðstoðar hjá Aflinu 2014 eftir að hafa þagað í mörg ár yfir því að hafa verið beitt kynferðisofbeldi. Í dag starfar hún sem ráðgjafi hjá Aflinu og segir það breyta öllu að leita sér hjálpar.

„Það breytist bara allt í lífinu," segir hún. „Maður fer að horfa á lífið aftur björtum augum, sem maður var kannski hættur að gera, þunglyndi og kvíði vék mikið í mínu tilviki, og líkamleg einkenni sem ég var búin að hafa, vöðvabólga, taugaspenna og fleira, það bara hvarf eiginlega."

Nýtt og betra húsnæði

Aflið flutti starfsemi sína í gamla spítalann í innbænum á Akureyri í sumar. Húsnæðið hentar mun betur til þess að taka á móti fólki heldur en fyrra húsnæði, og síðast en ekki síst, geta skjólstæðingar nú labbað inn beint af götunni.

Í fyrra fjölgaði viðtölum um meira en þriðjung þegar rúmlega 200 manns komu í yfir þrettán hundruð viðtöl. Fyrstu 10 mánuði ársins í ár hafa rúmlega tólf hundruð viðtöl verið tekin við yfir 120 skjólstæðinga.

Um 40 kynferðisbrot á ári til lögreglunnar á NA-landi

Aflið var stofnað 2002 og er þar veitt ráðgjöf til þolenda kynferðisbrota víða á landsbyggðinni, sem mikil þörf er á. Til að mynda fær lögreglan á Norðausturlandi að jafnaði um fjörutíu kynferðisbrot til rannsóknar árlega, að undanskildu árinu 2013 þegar gömlum málum fjölgaði mikið í kjölfar mikillar umræðu um kynferðisbrot í samfélaginu.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV