Það á ekki að endurtúlka stjórnarskrána

18.02.2016 - 17:02
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV
Bandaríski hæstaréttardómarinnar Antonin Scalia, sem lést fyrir skemmstu, vildi að menn héldu sig við bókstaf stjórnarskrár Bandaríkjanna og lagatexta. Það mætti ekki endurtúlka texta eftir viðhorfum og skoðunum samtímans. Stjórnarskrá Bandaríkjanna var honum mjög hugleikin og hann sagði hana tímamótaskjal í sögu heimsins. Hann líkti höfundum hennar við forna gríska heimspekinga og listamenn endurreisnarinnar á Ítalíu

Scalia kom í heimsókn til Íslands 2008 og flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands. Í Íslandsheimsókninni var hann gestur Viðtalsins. Þar komu fram þær skoðanir hans að margir dómarar við æðstu dómstóla vestrænna ríkja og alþjóðadómstóla hafi farið út fyrir verksvið sitt með því að taka afstöðu til samfélagslegra og siðferðilegra álitaefna undir því yfirskyni að um beitingu laga væri að ræða. Skoðun Scalia var að slíkt væri hlutverk löggjafans, dómarar ættu að byggja dóma sína á hefðbundinni túlkun laga, en ekki með því að ljá lagatextum siðferðilegt inntak. Þá ítrekaði hann skoðun sína að túlka ætti lög og stjórnarskrána þröngt og eftir orðanna hljóðan. Scalia var stefnufastur, en af mörgum talinn íhaldssamur.

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi