Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Það á að kjósa mig af því að ég er maður“

Mynd:  / 

„Það á að kjósa mig af því að ég er maður“

08.04.2018 - 07:40

Höfundar

1980 var Vigdís Finnbogadóttir kosin fyrst kvenna í embætti forseta Íslands og braut þar með blað í sögunni. Í þættinum „Hundrað ár, dagur ei meir“ er forsetaembættið rannsakað og þetta undarlega fyrirbæri maðurinn, sem Vigdís lagði áherslu á að væri grundvöllur kjörs hennar til forseta.

Í leiðtogaumræðum í sjónvarpi, 20. júní 1980 var Vigdís Finnbogadóttir spurð að því hvort hana ætti að kjósa vegna þess að hún væri kona, í ljósi þess að hún hafði sett jafnréttismál á oddinn í kosningabaráttu sinni. Þessari fyrirspurn svaraði hún með þeim orðum að það ætti ekki að kjósa hana vegna þess að hún væri kona, heldur vegna þess að hún væri maður.

Í fjórða þætti hugmyndasögu fullveldisins er forsetaembættið og virkni þess til rannsóknar með hliðsjón af þessu hugtaki sem Vigdís leggur svo mikla áherslu á, manninn. Tungumálið, það að geta notað orð, hefur gjarnan verið talið til séreinkenna þessarar undarlegu dýrategundar sem maðurinn er. Allar skilgreiningar á manninum eru reyndar óttalegum annmörkum bundnar, því það er erfitt að fanga með tungumálinu, hvað maðurinn hefur verið, orðið og mun verða. Gríski heimspekingurinn Platón er gjarnan hafður að háði og spotti fyrir þá tillögu sína að manninn bæri að skilgreina sem fiðurlausan tvífætling, þá til aðgreiningar frá öllum ferfættu spendýrunum og fiðruðu fuglunum sem ganga á tveimur fótum. Hvort hann hafi þekkt til apa skal ósagt látið en sagan segir að hundinginn Díógenes hafi látið sér fátt um þessa skilgreiningu finnast, og fært Platóni reyttan kjúkling með þeim orðum að þar væri fiðurlausi tvífættlingurinn kominn.

Franski heimspekingurinn Michel Foucault gerðist svo kræfur í frægu verki sem nefnist Orðin og hlutirnir, að þekking okkar á manninum sé jafn hverful og andlit sem er teiknað í sandinn á sjávarströnd, og á það á hættu að vera skolað í burtu hvað úr hverju, þegar aldan brotnar á ströndinni.

Í því verki ræðir Foucault sérstaklega málverk spænska listmálarans Diego Rodríguez de Silva y Velázquez sem starfaði við hirð Filips fjórða Spánarkonungs. Eitt af sínum þekktustu málverkum málaði hann árið 1656 og kallað verkið Las Meninas, sem á íslensku þýðist sem hirðmeyjarnar.

Mynd með færslu
 Mynd:

Á málverkinu ber að líta hina barnungu prinsessu Margréti Theresu, dóttur Filips fjórða og Maríönu drottningu hans.Það er búið að klæða Margréti upp í glæsilegan kjól. Við hlið hennar standa tvær hirðmeyjar, önnur krýpur og hin hneigir sig, báðar sýna þær henni þá lotningu sem erfingi krúnunnar á skilið.

Það er búið að klæða Margréti prinsessu upp í konunglegan skrúða og það er verið að sýna hana foreldrum hennar konungshjónunum, en það sem er einkar markvert við málverk Velázquez er að konungshjónin sjálf eru, við fyrstu sýn hvergi sjáanleg. Þarna stendur prinsessan og hirðmeyjarnar, hægra megin liggur hundur makindalega og lætur sér fátt um finnast þó dvergvaxin manneskja, önnur tveggja á málverkinu, stuggi við honum með fætinum. Á bak við dvergana standa síðan barnfóstra prinsessunnar og varðmaður hallarinnar en hinum megin við hirðmeyjarnar stendur síðan Velázques sjálfur, og virðir fyrir sér viðfangsefni sitt, með pensilinn á lofti, hann er að horfa á okkur, sem virðum fyrir okkur myndina.

Raunar er ekki bara málarinn að horfa á okkur, heldur flestar persónur á myndinni. Þau snúa andspænis hverjum þeim sem virðir fyrir sér málverkið og horfa á áhorfandann horfa á sig. Galdur myndarinnar, og mögulega ástæðan fyrir því að hún þykir með merkustu verkum listsögunnar er sá að konungshjónin Filip og Maríana eru sýnileg í spegli, aftast í herberginu sem málverkið sýnir. Þar sér móta fyrir andlitunum þeirra og það fer ekki á milli mála að þau standa, þar sem við stöndum, rétt utan við málverkið, á stað sem er bæði raunverulegur, af því að við áhorfendurnir stöndum þar - og hluti af málverkinu af því að allir á málverkinu virða þennan stað fyrir sér, og það er þessi staður, þar sem fullvaldur konungurinn og drottning hans standa, en sjást einungis í speglinum.

Til er sem fyrr segir, þekkt túlkun á þessu verki eftir franska heimspekinginn Michel Foucault sem í verki sínu Orðin og hlutirnir tekst á við að hina aldagömlu spurningu “hvað er maðurinn”?

Maðurinn virðist nefnilega þeirrar náttúru að mörg þeirra vísinda sem fást við að skilgreina eðli hans, eru í sífelldum eltingarleik við viðfangsefni sitt. Þetta eru vísindi á borð við hug og mannvísindi, félagsvísindi, hagfræði og læknavísindi sem glíma við þá merkilegu þverstæðu að maðurinn er ekki föst stærð, svo að segja, heldur afskaplega flókið fyrirbæri sem á það til að breytast eftir því hver horfir á hvern.

Þátturinn Hundrað ár dagur ei meir var á dagskrá Rásar 1 laugardaginn 7. apríl 2018.