Í leiðtogaumræðum í sjónvarpi, 20. júní 1980 var Vigdís Finnbogadóttir spurð að því hvort hana ætti að kjósa vegna þess að hún væri kona, í ljósi þess að hún hafði sett jafnréttismál á oddinn í kosningabaráttu sinni. Þessari fyrirspurn svaraði hún með þeim orðum að það ætti ekki að kjósa hana vegna þess að hún væri kona, heldur vegna þess að hún væri maður.
Í fjórða þætti hugmyndasögu fullveldisins er forsetaembættið og virkni þess til rannsóknar með hliðsjón af þessu hugtaki sem Vigdís leggur svo mikla áherslu á, manninn. Tungumálið, það að geta notað orð, hefur gjarnan verið talið til séreinkenna þessarar undarlegu dýrategundar sem maðurinn er. Allar skilgreiningar á manninum eru reyndar óttalegum annmörkum bundnar, því það er erfitt að fanga með tungumálinu, hvað maðurinn hefur verið, orðið og mun verða. Gríski heimspekingurinn Platón er gjarnan hafður að háði og spotti fyrir þá tillögu sína að manninn bæri að skilgreina sem fiðurlausan tvífætling, þá til aðgreiningar frá öllum ferfættu spendýrunum og fiðruðu fuglunum sem ganga á tveimur fótum. Hvort hann hafi þekkt til apa skal ósagt látið en sagan segir að hundinginn Díógenes hafi látið sér fátt um þessa skilgreiningu finnast, og fært Platóni reyttan kjúkling með þeim orðum að þar væri fiðurlausi tvífættlingurinn kominn.
Franski heimspekingurinn Michel Foucault gerðist svo kræfur í frægu verki sem nefnist Orðin og hlutirnir, að þekking okkar á manninum sé jafn hverful og andlit sem er teiknað í sandinn á sjávarströnd, og á það á hættu að vera skolað í burtu hvað úr hverju, þegar aldan brotnar á ströndinni.
Í því verki ræðir Foucault sérstaklega málverk spænska listmálarans Diego Rodríguez de Silva y Velázquez sem starfaði við hirð Filips fjórða Spánarkonungs. Eitt af sínum þekktustu málverkum málaði hann árið 1656 og kallað verkið Las Meninas, sem á íslensku þýðist sem hirðmeyjarnar.