Textinn fossar fram í kraftmiklu ljóðaslammi

Mynd: borgarleikhus.is / borgarleikhus.is

Textinn fossar fram í kraftmiklu ljóðaslammi

13.11.2018 - 18:17

Höfundar

Leikhúsrýnir Víðsjár segir að með Tvískinnungi sem sýnt er á fjölum Borgarleikhússins sé nýr tónn sleginn í íslenskum leikhúsum.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Þessi vetur verður vetur unga fólksins í leikhúsinu. Ekki aðeins í Tjarnarbíoi eins og oft hefur verið  raunin heldur einnig í Borgarleikhúsinu og það með miklum glans, því að okkur er lofað sex glænýjum leikverkum eftir ungskáld.

Fyrsta verkið var  frumsýnt  á litla sviðinu síðastliðinn föstudag, nefnist „Tvískinnungur“ og er eftir Jón Magnús Arnarson. Við höfðum áður fengið nasasjón af því í kynningu í höfundasmiðju Borgarleikhússins fyrir þremur árum og þá var strax ljóst að þar var sleginn tónn sem spratt úr lífi ungu kynslóðanna í landinu en  ekki  úr aldagömlum forskriftum.

Jón Magnús er ljóðaslammari, meira að segja Íslandsmeistari í þeirri grein, og fyrir þá sem ekki vita hvað ljóðaslamm er þá er það. ef ég hef skilið það rétt, flutningur á eigin ljóðlist á sviði. Þetta eru bundin ljóð með frjálsum hætti, það er að segja stundum eru þar stuðlar og höfuðstafir, stundum innrím, stundum endarím. Í „Tvískinnungi“ eru kaflar af ljóðaslammi inni í upplyftum, ofhlaðnum og/eða natúralískum samtölum sex aðalpersóna og nokkurra aukapersóna. Verkið hefur ekki klassíska uppbyggingu  en þar má kenna ákveðinna áhrifa frá Shakespeare gamla. Því  er skipt niður í nánast sjálfstæða fimm meginkafla: Ást og upprisa, ótti, niðurníðsla, leikhúsið, hringekjur.  Viðfangsefnið er ástir tveggja ungmenna sem  eru sýnd  okkur ýmist í hlutverkaleik – hún er Svarta ekkjan, hann Ironman, bæði persónur úr Merlinmyndaseríunum – eða þegar þau eru laus við gervin, sem leikararnir sjálfir. Þau eiga sér áhorfendur sem teflt er gegn þeim í líki sviðsmanna, því allur heimur þeirra er leiksvið! Þetta er erfitt ástarsamband eins og mörg almennileg ástarsambönd eru, einkum og sér í lagi þó vegna þess að þau hafa ekki einungis ánetjast hvort öðru heldur einnig öðrum vímuefnum.

Borgarleikhúsið hefur vandað sig mikið í samvinnunni við Jón Magnús og kallað til samstarfs við hann einvalalið. Þau Ólaf Egil Egilsson, leikstjóra, Sigríði Sunnu Reynisdóttur leikmyndar- og búningahöfund, Þórð Orra Pétursson ljósahönnuð, tónskáldið Arnar Inga Ingason og Hrafnhildi Hagalín dramatúrg. Sviðsetningin stefnir öll að því að skapa kraftmikið líkamlegt flæði í takt við ofhlæði og offlæði textans og sennilega er það þessvegna sem valið er að láta tvo leikara leika allar persónur verksins þau Harald Ara Stefánsson og Þuríði Blæ Jóhannsdóttur. Setja mætti ef til vill spurningarmerki við þá ákvörðun  að jarðbundnu sviðsmennirnir, sem framandgera leik aðalpersónanna og skapa hvíld frá ofsafengnum átökum, séu einnig í þeirra höndum en þau leika þá bara svo fantavel að slíkt spurningarmerki fæðist andvana.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Það er setið nánast í hring  utan um sviðið. Í miðju  hringsins barnaklifurgrind úr sverum köðlum þar vísar Sunna Dís skemmtilega í þann köngulóarvef sem elskendurnir flækjast í í framvindunni; en niður í hann hrynja þau í upphafi og hann nýtist ákaflega vel í átökum þeirra. Og leikstjóri fær sérstakt hrós fyrir það að þar er ekki stunduð leikfimi, leikfiminnar vegna. Við bakvegg  eru búningsherbergi leikaranna og aðsetur sviðsmanna en hluti þess er því miður ekki sýnilegur fyrir alla í áhorfendasal og þótti mér frekar miður að þurfa til dæmis að hlusta á síðustu fimmtán til tuttugu mínútur sýningar sem útvarpsleikrit. Lýsing Þórðar Orra er ein allsherjar fagurfræði og leikur þýðingarmikið hlutverk í leiknum með sýndarveruleika og veruleika, alsælu og timburmenn. Sömu sögu er að segja um áhrifamikla tónlist Arnars Inga.

Það er ánægjulegt að Ólafur Egill sem þegar hefur auðvitað sannað sig sem ákaflega góður leikstjóri leikara í natúralískum drömum  skuli nú glíma við leikverk sem gerir allt aðrar kröfur til hans. Það lukkast honum að skapa ásamt samstarfsmönnum ákaflega fallega og kraftmikla myndræna heild.  Kaflaskipti eru hins vegar ekki alltaf alveg  nógu hrein og  skýr og  þá hygg ég að það leynist meiri húmor í verkinu en skilar sér í sýningunni. Ljóðaslammið finnst mér einnig að hefði oft mátt vinna betur, flæða með einhverri hrynjandi. En þar eiga leikararnir sjálfir kannski í nokkrum vanda. Haraldur Ari Stefánsson er hér í fyrsta stóra hlutverki sínu á íslensku leiksviði og orkaði á frumsýningu í upphafi nokkuð pasturslítill andspænis hinni þaulreyndu Þuríði Blæ en óx svo stöðugt  ásmegin þegar á leið sýninguna og varð henni samboðinn. Þuríður Blær er ein af okkar allrabestu og fjölhæfustu leikkonum og hér sýnir hún á sér öldungis nýjar hliðar, bregður sér úr líki Svörtu ekkjunnar, í hlutverk leikkonunnar og þaðan í hlutverk sviðsmanns algjörlega áreynslulaust og ávallt með nýtt andlit og nýtt fas. Hugvitsamlegir  búningar og gervi styðja þau reyndar bæði ákaflega vel.

Ólíkt hefðbundnum drömum þá fossar textinn í Tvískinnungi fram, stundum á óskiljanlegu máli fyrir okkur sem erum eldri en tvævetur og endurtekningar eru nokkrar. Það flýgur í hug áhorfanda að ef til vill hefði mátt stytta texta nokkuð. En samstundis veit hann að það hefði verið rangt því að  þráhyggjan  og ruglið í slíkum ástarsamböndum sem verið er að lýsa endurtekur sig stöðugt.

Það er alltaf ánægjulegt en því miður alltaf of sjaldgæft að öldungis nýr tónn er sleginn í leikhúsum okkar. Nú bíður áhorfandi bara með eftirvæntingu eftir því hvernig Jón Magnús spinnur hann áfram.

Tengdar fréttir

Leiklist

Snúið verk í sviðsetningu

Menningarefni

Hlýlegt verk um gildi vináttunnar

Menningarefni

Fáránleiki í leikhúsi og samfélagi

Leiklist

Gríman vökvar ekki grasrótina