Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Texti Elísabetar Jökuls perla sýningarinnar

Mynd: Tjarnarbíó / Tjarnarbíó

Texti Elísabetar Jökuls perla sýningarinnar

13.02.2018 - 10:48

Höfundar

„Úr textum Elísabetar Jökulsdóttur vinna þau litlar myndir um ástina. Að vera ástfanginn með öllum þeim gleðilegu hörmungum sem þá ganga á í lífi manns,“ segir Bryndís Loftsdóttir gagnrýnandi um sýningu Leikhópsins RaTaTam sem frumsýnd var í Tjarnarbíói um helgina.

Charlotte Bøving  leikstýrir verkinu sem ber titilinn „Ahhh... Ástin er að halda jafnvægi, nei fokk, ástin er að detta.“ Bryndís segir sýninguna byggja vandlega á verkum Elísabetar. „Þarna eru teknir textar úr 8 bókum Elísabetar Jökulsdóttur, bæði ljóð og prósar. Og sýningin er fyndin, eins og Elísabet er ofboðslega fyndin, en það sem þessi sýning gerir hvað best er hvað þau eru lunkin við að koma með nýja meiningu eða nýjan flutning á textanum, nýjan undirtexta sem kemur manni á óvart. Jafnvel þó maður þekki textann sér maður nýja vinkla í textanum hennar Elísabetar, mér finnst það takast alveg gríðarlega vel. Það liggur við að maður myndi vilja að þetta væri sem útvarpsleikhús líka og þá notað í kennslu í framtíðinni vegna þess að þessir textar eru náttúrulega svo frábærir,“ segir hún. 

Processed with VSCO with b1 preset
 Mynd: hallaharðar  - hallaharðar
Elísabet Jökulsdóttir, ásamt Charlotte Bøving og Laufeyju Elíasdóttur.

Í lýsingu segir að verkið sé „ljóðrænn, fyndinn og kynþokkafullur kabarett um vegi og vegleysur ástarinnar.“ Tónlist, dansi og söng er fléttað inn í flutning á textanum. „Þetta er í kabarettformi en samt svona eins og kabarett sem er kominn í eftirpartí. Þau eru hætt að púðra sig en eru samt á þessu bili þar sem maður er mjög áhugaverður í eftirpartíi, lætur allt vaða,“ segir Bryndís. 

Lyftir texta upp í hæstu hæðir

Segja má að sýningin sé eins og nokkrar örsögur upp úr lengri bálki Elísabetar. „Sýningin er lífleg, það sem mér fannst kannski og er erfitt þegar þú tekur svona margar litlar sögur, er að halda dampi og halda spennu, því að hverri sögu lýkur og þá kannski missirðu áhorfandann niður í tilfinningu fyrir því að nú sé þetta að hætta, en þau ná nokkurn veginn að rífa þetta upp og þetta er gríðarlega skemmtilegt. Ég held að unnendur Elísabetar Jökulsdóttur verði bara að hópast í Tjarnarbíó,“ segir Bryndís.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Leikarar verksins eru þau Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Halldóra Rut Baldursdóttir og Laufey Elíasdóttir. Leikmyndar- og búningahönnun annast Þórunn María Jónsdóttir og um tónlist sá Helgi Svavar Helgason. „Tónlistin spilar mjög stóran hluta þarna og kemur kannski inn sem þessi lauflétti kabarettpartur verksins. Það er Helgi Svavar Helgason sem sér um tónlistina en þau flytja þetta alveg jöfnum höndum,“ segir Bryndís.

Hún segir sýninguna vera myndræna og fallega. „Ég vil fyrst og fremst hrósa fyrir textameðferð og leikstjórn, Charlotte Bøving nær á lymskufullan hátt að lyfta texta Elísabetar upp í hæstu hæðir, sem tekst fullkomlega. Það er bæði textaflutningurinn og textinn sem er algjör perla í þessari sýningu.“  

Tengdar fréttir

Leiklist

Ástin er sjálfsmynd