Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tesla fundaði með OR um hraðhleðslustöðvar

Mynd með færslu
 Mynd:
Tesla, bandaríski bíla- og tækniframleiðandinn, hefur átt í samræðum við Orku náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur um að eiga í samstarfi með hraðhleðslustöðvar hér á landi fyrir rafbíla. Hleðslustöðvar Teslu hlaða hraðar en aðrar hraðhleðslustöðvar.

Þetta staðfestir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, í samtali við fréttastofu. Fulltrúar Teslu hafa einnig fundað með dreifiaðilum, meðal annars Veitum, um áformin. Markmiðið sé að hraða orkuskiptum í samgöngum.

Forsvarsmenn Teslu hafa einnig fundað með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í ráðuneytinu. Þórdís Kolbrún greindi nýverið frá því á Facebook-síðu sinni og birti mynd af sér með gestum sínum. Á fundinum var íslenska starfsumhverfið kynnt fyrir Teslu-fólki og þeim veittar upplýsingar um stefnu og áætlanir stjórnvalda í orkuskiptum.

Eigendur Tesla-bifreiða þurft að nota millistykki til þess að nota hraðhleðslustöðvarnar sem Orka náttúrunnar hefur sett upp á Íslandi. Tesla notar annan staðal tenginga fyrir hleðslu á sínum bílum.

Elon Musk, stofnandi og eigandi Teslu, sagði frá því á Twitter að hann myndi hraða komu fyrirtækisins til Íslands í fyrra, eftir að hann var spurður hvenær það stæði til. Í kjölfarið auglýsti Tesla eftir starfsmanni hér á landi.

Í janúar síðastliðnum stofnaði Tesla fyrirtæki hér á landi, Tesla Motors ehf. Skráninguna má finna í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra og er fyrirtækið flokkað sem bílasala.

Tesla hefur ekki svarað fyrirspurn fréttastofu um áform fyrirtækisins hér, stofnun fyrirtækisins eða atvinnuauglýsinguna. Anouska Ruane, samskiptastjóri Tesla, svaraði því ekki hvort þessi atriði tengist fundum fulltrúa Tesla með íslenskum ráðamönnum og stjórnendum orkufyrirtækja. Hún sagði starfsfólk þar vera spennt fyrir að kynna lausnir Tesla á Íslandi. Frekari upplýsingar verði veittar síðar.

Tesla er meðal þekktustu fyrirtækja heims á sviði rafknúinna bifreiða. Auk þess að framleiða rafbíla hefur fyrirtækið þróað stoðlausnir á borð við hraðhleðslustöðvar, heimarafhlöður og margt fleira.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur Tesla ekki áform um að gera tilraunir með rafhlöður hér á landi, eins og fyrirtækið er að gera í Ástralíu.

Tesla hefur starfað með áströlskum yfirvöldum, þróað risarafhlöður og gert tilraunir með þær í Suður-Ástralíu. Rafhlaðan er tengd rafdreifineti Suður-Ástralíu og tryggir raforkuöryggi þar. Á daginn þegar sólin skín er rafhlaðan hlaðin en á næturnar er orkunni í rafhlöðunni dreift á heimili fólks.